Liðin tíð Ljóskastarahúsið er mikilvæg heimild um hernámstímann.
Liðin tíð Ljóskastarahúsið er mikilvæg heimild um hernámstímann. — Ljósmynd/Minjastofnun
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að tillögu Minjastofnunar Íslands að friðlýsa ljóskastarahús við Urð á Suðurnesi á Seltjarnarnesi.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að tillögu Minjastofnunar Íslands að friðlýsa ljóskastarahús við Urð á Suðurnesi á Seltjarnarnesi. Á heimasíðu Minjastofnunar segir að mannvirkið sé einstakt á Íslandi og mikilvæg heimild um hernámstímann og umsvif breska setuliðsins hér á landi.

Húsið var byggt utan um ljóskastara við upphaf seinni heimstyrjaldar, veturinn 1940-41. Húsið var hannað af Lloyd Benjamin, verkfræðingi breska setuliðsins. Sami höfundur teiknaði gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli, sem friðaður var af ráðherra árið 2011.

Hluti af varnarbúnaði

Ljóskastarinn var hluti af varnarbúnaði breska hersins við innsiglinguna að Reykjavík. Húsið tengdist herskálahverfi á Suðurnesi og er eina mannvirkið sem eftir er frá þeim tíma. Húsið er hið eina sinnar tegundar hér landi en vitað er um svipuð hús í Færeyjum, við Lossie í Skotlandi og í Ástralíu. Ekki hafa fundist nákvæmlega eins hús og því kann húsið við Stóruurð að hafa fágætisgildi á heimsvísu.

Friðlýsingin tekur til hins steinsteypta mannvirkis í heild og hlaðins sökkuls umhverfis það. Húsið er 26 fermetrar að grunnfleti, steinsteypt ofan á grjóthleðslu. Gólf, veggir og þak eru úr steinsteypu.

Ljóskastarahúsið hefur auk þess gildi sem aðgengilegur minjastaður og vinsæll áningastaður á gönguleiðinni um Suðurnes, enda eru form þess, gerð og staðsetning myndræn og fögur. Tæknileg uppbygging hússins er merkileg, en löng ending steinsteypunnar ber vott um vandaða gerð og frágang í upphafi, segir á heimasíðu Minjastofnunar.

Í næsta nágrenni er golfvöllur Nesklúbbsins og stendur húsið á fjörukambinum milli 1. og 2. brautar.

Lýstu upp skip að nóttu til

Ljóskastararnir á Seltjarnarnesi lýstu upp skip að nóttu til, svo að auðgreina mætti hvort þar væri vinur eða fjandmaður á ferð.

Í Morgunblaðimu í júní 2012 var fjallað um stríðsminjar á Seltjarnarnesi og meðal annars talað við Þór Whitehead prófessor. Í greininni segir m.a:

„Fallbyssurnar tvær sem reistar voru á Valhúsahæðinni voru, ásamt samskonar byssum í Hvalfirði, þær stærstu sem Bretar létu reisa á Íslandi, með sex þumlunga (15 cm) í hlaupvídd. Þær drógu um 12 kílómetra út á haf, og var ætlað að reyna að koma í veg fyrir að Þjóðverjar myndu gera hér innrás.

Þrátt fyrir það þóttu byssurnar heldur lítilfjörlegar, og segir Þór ljóst að líklega hefðu byssurnar ekki haldið innrásarflota Þjóðverja lengi frá og hér hefði orðið fátt um varnir. Þegar Bandaríkjamenn tóku við hervörnum hér sumarið 1941 kom í ljós að þeim þótti lítið koma til bresku byssanna. Bættu þeir þó sjálfir ekki úr þar sem innrásarhættan frá Þjóðverjum minnkaði eftir því sem leið á stríðið.

Ljóskastararnir á Seltjarnarnesi lýstu upp skip að nóttu til, svo að auðgreina mætti hvort þar væri vinur eða fjandmaður á ferð.“

aij@mbl.is