Aðalheiður Halldóra Arnþórsdóttir (Heiða) fæddist 29. janúar 1963. Hún andaðist 13. janúar 2019.

Útför Aðalheiðar fór fram 22. janúar 2019.

Elskuleg frænka mín hefur kvatt þetta líf. Heiða eins og hún var ávallt kölluð ólst í fyrstu upp í Mólandi á Hauganesi, þar sem móðir hennar vann í versluninni á staðnum. Fljótlega kom í ljós að eitthvað var að henni sem erfitt var að greina. Læknar sem skoðuðu hana fundu ekki hvað var að.

Um síðir lærði hún að tala, ganga og hjóla á þríhjólinu sínu, þá birtist henni ný tilvera þar sem hún gat tekið þátt í leikjum barnanna í þorpinu, sem tóku henni ávallt vel.

Í október 1969, þegar Heiða var á sjöunda ári, fór móðir hennar með hana til Reykjavíkur til rannsóknar, en þá var nýkominn til landsins fyrsti læknirinn í fötlunarfræðum. Við myndatöku uppgötvaðist að blettir voru í heila barnsins, sem voru varanlegir. Alltaf fylgdust þær mæðgur að. Og barn að aldri varð Heiða vistmaður á Sólborg á Akureyri og var þar uns flutt var í sambýlin, sem tóku við af þeirri starfsemi. Síðast bjó hún að Keilusíðu 1b, þar sem hún hafði sína eigin íbúð. Hjá Árna mági og Dísu systur að Kambagerði 3 var hún löngum, meðan hægt var.

Kynni mín af Heiðu voru ávallt ánægjuleg. Hún var oftast glaðsinna og tók öllum vel. Hún hafði yndi af músík og söng oft með. Hún hafði gaman af að föndra og ýmislegt prjónaði hún, sem hún gaf oftast öðrum með ánægjubros á vörum. Hún átti líka sína dimmu daga og önnur veikindi sem hrjáðu hana. Eftir að hafa dottið og fótbrotnað varð hún að vera í hjólastól og í sjúkrarúmi. Í Keilusíðu 1b er frábært starfsfólk sem gerði sitt besta í að létta henni lífið.

Síðastliðið sumar lét hún móður sína nokkrum sinnum aka hjólastólnum í heimsókn til mín í Múlasíðu og kom þá gjarnan með gjafir sem hún hafði prjónað. Það var ánægjulegt að fá að aðstoða þær til baka og þiggja kaffi hjá henni á eftir. Á leiðinni kom fyrir að við mættum fólki sem þekktu Heiðu og þá rann upp fyrir mér að í gegnum árin og áratugina var hún vel þekkt í bænum, þar sem margir höfðu tekið þátt í að aðstoða hana á sambýlunum.

Þökk sé því öllu góða fólki.

Í kvæði eftir Jón úr Vör er sagt að móðir þín fylgi þér á götu, en þorpið fylgi þér alla leið. Dísa systir fylgdi Heiðu dóttur sinni á götu og fylgdi henni af frábærum dugnaði alla leið.

Blessuð sé minning þín, elsku Heiða. Guð geymi þig og þökk fyrir allt og allt.

Matthías Sigurpálsson.

Elsku hjartans frænka okkar hún Heiða er flutt í sumarlandið og við minnumst þessarar einstaklega góðu frænku með hlýju og þakklæti í hjarta. Heiða var ávallt höfðingi að heimsækja hvort sem hún var heima í Kambagerði eða þegar hún var farin að búa sjálf með aðstoð, síðast í íbúð í Kjalarsíðunni, tók þá kennslu með sér út í lífið frá móður sinni Dísu. Alltaf var boðið upp á kaffi og með því, jafnvel perlað, prjónað og svo var rabbað um allt og ekkert, þá aðallega um fjölskylduna en hún Heiða okkar fylgdist vel með fjölskyldumeðlimum á landi og sjó enda mikið um sjómenn í ættinni gegnum árin. Spurði mikið um hvort allir væru ekki hressir og spurði oft hvort börnin væru ekki stillt, en það var Heiðu hjartans mál að börnin væru stillt. Heiðu var nefnilega einstaklega annt um fjölskylduna sína og vini, og ef eitthvað bjátaði á eins og oft gerist í lífinu sjálfu eða við leik og störf, þá sagði hún oft og iðulega, „þetta lagast“ og klappaði á herðar eða strauk hendur blíðlega og uppörvandi í senn.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni

(Bubbi Morthens)

Þakka þér fyrir samveruna elsku Heiða okkar, þá sérstaklega fyrir brosið þitt og elskuna.

Þínar frænkur

Sveinfríður Sigurpálsdóttir

María Ingibjörg Kristinsdóttir og fjölskyldur.

Það er skammt stórra högga á milli hér í Skógarlundinum. Fallin er frá Aðalheiður Arnþórsdóttir, sú þriðja sem kveður á örfáum mánuðum. Einn sterkasti persónuleiki þeirra sem sótt hafa þjónustu hingað. Rétt fyrir jólin var hún hér og síst af öllu hvarflaði það að okkur að hún kæmi ekki aftur. Flytti sig í aðra tilveru.

Heiða eins og hún var alltaf kölluð og undirrituð hafa átt samleið með hléum í rúmlega aldarfjórðung. Hún var ein af þeim fyrstu sem komu hingað, þegar stofnunin varð til. Saman höfum við gengið í gegn um sætt og súrt. Hún var einstök kona, lífsglöð og félagslynd. Elskaði alls kyns uppákomur, böll, afmæli og gleðskap yfirleitt. 29. janúar næstkomandi hefði hún orðið 56 ára en þeim áfanga nær hún því miður ekki hér í jarðheimum. Hún heldur örugglega upp á það með pomp og prakt á nýjum slóðum.

Heiða hafði mismikinn áhuga fyrir vinnuverkefnum sem þurfti að leysa af hendi. Hugurinn leitaði frekar til sköpunar. Hún var mikil prjónakona og eru til mörg listaverk eftir hana á því sviði. Hún hafði líka áhuga á því að skapa myndverk. Eitt slíkt færði hún undirritaðri, þegar hún kom hingað í síðasta þjónustutímabilið sitt og prýðir það verk einn af veggjum skrifstofunnar.

ert þú

að leita að fyrirheitna landinu

ég skal vísa þér veginn

í hjarta þínu er brot af því

- stærra en þú heldur

og í hjörtum vina þinna

finnurðu það sem á vantar

(Jórunn Sörensen)

Kæra Dísa, Árni, Ómar, María, fjölskyldan öll og kæru vinir í Kjalarsíðunni. Ykkur öllum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum almættið að umvefja ykkur og styrkja. Gengin er stórbrotin kona sem kvödd er með trega.

Elsku Heiða, hlutverki þínu á jarðríki var að ljúka og nú skiljast leiðir. Við brotthvarf þitt myndast skarð sem er vandfyllt og er þín sárt saknað. Hafðu hjartans þökk fyrir samfylgdina sem var gefandi, lærdómsrík og skemmtileg.

Í hjarta mínu á ég minningu um þig káta og lífsglaða.

Megi góður Guð geyma þig.

Fyrir hönd allra í Skógarlundi,

Margrét Ríkarðsdóttir.