Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Alls bárust Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 153 kærumál á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðatölum sem fengust hjá nefndinni í gær. Tekist hefur að fækka óafgreiddum málum hjá nefndinni.
Skrifstofa úrskurðarnefndarinnar er að leggja lokahönd á samantekt yfir starfsemina í fyrra en fyrir liggur að fjöldi kærumála sem nefndinni bárust í fyrra er svipaður og á árinu 2017. Lokið var afgreiðslu alls 188 mála á nýliðnu ári, sem eru til muna fleiri mál en afgreidd voru á árinu 2017 þegar lokið var 144 málum.
114 mál biðu afgreiðslu 1. jan.
Málahalinn hefur því styst hjá úrskurðarnefndinni en 1. janúar sl. var ólokið 114 málum sem biðu afgreiðslu samanborið við 149 mál sem ólokið var 1. janúar 2018.Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nú lokið sjöunda starfsári sínu, en nefndin var sett á laggirnar 1. janúar 2012. Fljótlega kom í ljós að kærur til nefndarinnar voru mun fleiri en reiknað hafði verið með og óútkljáðum málum fjölgaði. Náði kærufjöldinn hámarki á árinu 2016 þegar nefndinni bárust 175 kærur á einu ári.