Sighvatur Björgvinsson
Sighvatur Björgvinsson
Eftir Sighvat Björgvinsson: "Tilmælunum til dómarans varð að fylgja rökstuðningur læknisins, sem hafði fengist við vandamál sjúklingsins og lagt til að nauðungarvistunar yrði leitað. Engan úrskurð mátti dómari (sýslumaður) upp kveða nema allar röksemdir lægju fyrir."

Þessi orð eru sett á blað í tilefni þess, að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður þingflokks Pírata, ritar grein í síðasta tbl. Stundarinnar. Þar segir hún m.a. orðrétt : „Í íslenskum lögum er ekkert, sem tryggir að valdamiklir menn misnoti ekki stöðu sína og kerfið til þess að loka þolendur sína og ásakendur inni á geðdeild....“ Þessi ályktunarorð eru eins víðs fjarri sannleikanum og verða má. Að formaður þingflokks á Alþingi Íslendinga skuli kjósa að gefa af samfélagi sínu slíka mynd – að valdsmenn geti lokað hvern og einn inni á geðdeild, sem þeir telja sig eiga sakir við – er ekki bara vert alvarlegra athugasemda heldur alvarlegs ámælis.

Samúð og umhyggja

Á þeim árum, þegar ég kom nærri heilbrigðismálum, þurfti ég að horfast í augu við þann mikla sársauka, sem mætir fjölskyldum þar sem um geðrænan vanda náins ættingja er við að stríða. Ég hvorki mátti, gat né vildi neitt koma nálægt úrlausnarefnum við þeim vanda þó ég teldist á þeim tíma til „valdamikilla manna“ – (væntanlega valdamikilla karlmanna). Mín eina aðkoma var sú, að um vini var að ræða. Rétt að taka sérstaklega fram, að þar var hvorki um að ræða Jón Baldvin Hannibalsson né fjölskyldu hans. Mín nálgun fólst einvörðungu í samúð og umhyggju með vinum.

Fjölskylda í sárum

Erfiðasta úrlausnarefni vinafólks míns var þegar svo var komið fyrir hinum sjúka, að læknar vöruðu við að ef ekkert væri aðhafst gætu afleiðingarnar orðið þær, sem enginn vildi. Vandamálið var, að sá sjúki vildi ekki leita læknismeðferðar með innlögn á sjúkrahús. Læknirinn, sem sjúkleikanum hafði sinnt, fór þess þá á leit við fjölskylduna að nánasti ættinginn óskaði eftir úrskurði dómara um nauðungarinnlögn. Við því var ekki orðið. Nánustu ættingjar vildu ekki beita slíku úrræði gegn vilja hins veika. Niðurstaðan varð sú, sem læknirinn hafði sagt fyrir um að gæti alvarlegust orðið. Eftir sat fjölskyldan í sárum.

Engin völd

Þá varð ég einnig vitni að því þegar nánasti ættingi varð við tilmælum læknis og óskaði nauðungarvistunar eftir miklar sálarkvalir. Sú ákvörðun kostaði sárindi, þjáningar og mikið ósætti, sem hafði afleiðingar. Sá ættingi gat hins vegar ekki einn og sjálfur nauðungarvistað hinn veika, hvað þá heldur að ég, valdamikill maður (les: valdamikill karlmaður), gæti fengið því áorkað.

Hin þyrnum stráða braut

Ættingjarnir urðu því að feta þá þyrnóttu braut, sem íslenska réttarríkið lagði þeim á herðar. Þeir urðu að óska eftir úrskurði dómara (sýslumanns). Tilmælunum til dómarans varð að fylgja rökstuðningur læknisins, sem hafði fengist við vandamál sjúklingsins og lagt til að nauðungarvistunar yrði leitað. Engan úrskurð mátti dómari (sýslumaður) upp kveða nema allar röksemdir lægju fyrir – röksemdir læknis og röksemdir sérstaks trúnaðarlæknis dómara (sýslumanns) ef sýslumaður teldi að nauðsyn bæri til. Niðurstöðunni bar sýslumanni að skila til yfirlæknis þeirrar stofnunar, sem hinn sjúki væri vistaður á ásamt með skriflegri álitsgerð þess eða þeirra lækna, sem að málinu hefðu komið. Það var svo undir áliti viðkomandi yfirlæknis komið hvort sjúklingurinn þyrfti meðferð, hvers konar meðferð, hversu langa og hve lengi sú meðferð skyldi vara.

Ströng ákvæði

Nú er ég ekki löglærður en við yfirlestur á gildandi lögum – lögræðislögum, nr. 71 28. maí 1997, sem öðluðust gildi í ársbyrjun 1998 – fæ ég ekki betur séð, en að þetta verkferli, sem mér er minnisstætt, sé rækilega lögfest svona. Þar eru líka ákvæði um, að sá, sem er nauðungarvistaður samkvæmt ákvörðun eins og hér er lýst, geti sjálfur ákveðið að skjóta þeim úrskurði til endurmats dómstóla. Jafnframt er yfirlækni þess sjúkrahúss, þar sem viðkomandi er vistaður nauðungarvistun, skylt að afhenda sjúklingi öll gögn er varða vistunina og auk þess afla honum sérstaks ráðgjafa meðan á vistun og meðferð stendur og að kostnaður við þann ráðgjafa eigi að greiðast úr ríkissjóði. Þá eru ákvæði þess efnis, að engan megi senda til vistunar á geðdeild sjúkrahúss lengur en viðkomandi yfirlæknir telur þörf á. Væri vistunin ástæðulaus gæti viðkomandi yfirlæknir því væntanlega úrskurðað viðkomandi vistmann úr nauðungarvistuninni þegar og ef yfirlæknirinn telur meðferð lokið. Þá má við þetta bæta, að nú er ekki lengur þörf á að náinn ættingi þurfi að óska eftir nauðungarvistun. Viðkomandi læknir getur einn tekið slíkt mál upp við dómstól og þarf ekki lengur aðkomu náins ættingja – hvað þá heldur valdamikilla (karl)manna.

... og allt að ástæðulausu

Hversu gerólíkt er þetta ferli ekki frá því, sem látið hefur verið í veðri vaka? Að valdamiklir menn (væntanlega karlmenn) geti að eigin frumkvæði látið nauðungarvista andmælendur sína, látið lögreglu mæta til heimilis þeirra þar sem viðkomandi er settur í járn, honum ekið í lögreglubíl á næsta geðsjúkrahús, fluttur þangað inn í járnum, settur þar í klefa, látinn halda sig þar nánast upp á vatn og brauð og látinn sæta meðferð eins og geðsjúkur væri – og allt að ástæðulausu.

... svo segja lögin

Þegar svona ásakanir eru gerðar er eðlilegt og sjálfsagt að gamlir stéttarbræður mínir – frétta- og blaðamenn – reyni að afla frekari upplýsinga. Spyrji hvort rétt hafi verið að staðið um nauðungarvistun – ákvörðun hafi ávallt verið dómara, ekki ættingja, hvað þá heldur valdamikilla (karl)manna, öll réttmæt gögn, m.a. vottorð læknis um nauðsyn þessa, hafi verið lögð fram fyrir dómsuppkvaðningu. Jafnframt hvort yfirlæknir viðkomandi stofnunar hafi verið annarrar skoðunar um geðheilsu en vottorðin fyrir dómsuppkvaðningu hljóðuðu og hvort viðkomandi yfirlæknir hafi því talið meðferð óþarfa og útskrifað viðkomandi sjúkling. Einnig gæti blaða- og fréttamaður haft áhuga á að vita, hvort yfirlæknir hafi tryggt að sjúklingur hafi fengið ráðgjafa á kostnað ríkisins eins og skylt er. Hafa gamlir kollegar spurt að þessu? Ekki svo ég sjái. Enda væri viðkomandi læknum, yfirvöldum, hjúkrunarfræðingum, sýslumönnum sem og öðrum óheimilt að svara slíkum spurningum. Svo segja lögin. Þeim er ætlað að vernda hinn sjúka – ekki nánustu ættingja eða valdamikla (karl)menn.

Uppgjör við eigin samvisku

Gamlir kollegar í stétt frétta- og blaðamanna verða því að gera upp við sjálfa sig hversu mikið þeir vilja að miðlar þeirra séu notaðir til svona verka. Þingflokksformaður Pírata verður að gera það upp við sjálfa sig hvaða lýsingu hún vill gefa á því samfélagi, sem við byggjum öll saman. Sú lýsing getur verið gagnrýnin – en hún verður að vera rétt.

Höfundur var formaður Alþýðuflokksins, jafnaðarmannaflokks Íslands.

Höf.: Sighvat Björgvinsson