Argentínski knattspyrnumaðurinn Emiliano Sala, sem Cardiff keypti frá franska liðinu Nantes fyrir metfé um síðustu helgi, er talinn hafa farist en hann var farþegi í lítilli einkaflugvél sem hvarf af ratsjám í fyrrakvöld. Vélin var á leið frá Nantes til Cardiff yfir Ermarsundið þegar hún hvarf. Leit að vélinni á sjó og úr lofti hófst í birtingu í gær. Hún bar engan árangur og var leitinni hætt undir kvöld í gær vegna myrkurs. Henni verður fram haldið í dag en lögreglan í Guernsey greindi frá því í gærkvöld að líkurnar á að Sala og flugmaður vélarinnar fyndust á lífi væru litlar. Leitarmenn fundu fljótandi hluti í sjónum, en ekki var komið í ljós hvort um var að ræða brak úr vélinni. Sala er 28 ára gamall framherji sem leikið hefur með Nantes frá árinu 2015. Hann er markahæsti leikmaður franska liðsins á tímabilinu með 13 mörk. Bikarleik Nantes sem fara átti fram í kvöld hefur verið frestað og þá var æfingu Cardiff, sem átti að vera sú fyrsta sem Sala væri á, aflýst í gær. gummih@mbl.is