Heim Aníta með Mörthu Ernsdóttur, frænku sinni og Ólympíufara, eftir hlaupið.
Heim Aníta með Mörthu Ernsdóttur, frænku sinni og Ólympíufara, eftir hlaupið. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir flutti aftur heim til Íslands í ágúst eftir tvö ár í Hollandi, þar sem hún einbeitti sér að hlaupaferlinum. Hún segir heimþrá fyrst og fremst ástæðu þess að hún flutti heim. Auk þess er auðveldara að sinna námi meðfram keppni í fremstu röð í hlaupi hér heima.

Frjálsar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir flutti aftur heim til Íslands í ágúst eftir tvö ár í Hollandi, þar sem hún einbeitti sér að hlaupaferlinum. Hún segir heimþrá fyrst og fremst ástæðu þess að hún flutti heim. Auk þess er auðveldara að sinna námi meðfram keppni í fremstu röð í hlaupi hér heima.

„Ég flutti heim í ágúst, það er góð aðstaða hér heima. Þetta var fyrst og fremst heimþrá og þetta gæti komið sér vel á endanum,“ sagði Aníta í samtali við Morgunblaðið. Aðdragandi flutninganna var ekki langur.

Huggulegt hjá fjölskyldunni

„Þetta var nokkuð snögg ákvörðun hjá mér og ég hef trú á að þetta muni hafa góð áhrif á mig. Maður er fluttur aftur heim á fjölskylduna og það er huggulegt. Maður heyrir andardráttinn í næsta manni,“ sagði Aníta létt í bragði. Hún er sem stendur í háskólanámi meðfram hlaupunum.

„Það er léttara að vera í námi þegar maður sinnir hlaupunum hér. Ég kann mikið að meta það eftir tvö ár sem atvinnumaður úti."

Fyrsta hlaup Anítu á árinu var síðastliðinn sunnudag. Hún kom langfyrst í mark í 800 metra hlaupi á Stórmóti ÍR í Laugardalshöll. Aníta hljóp á 2:05,98 mínútum, sem er rúmum fimm sekúndum frá hennar besta tíma.

„Ég þurfti að ná úr mér skrekknum sem fylgir fyrsta hlaupi ársins. Maður getur pínt sig töluvert meira á mótum en á æfingum. Vonandi batnar formið töluvert við að taka þátt í móti. Það tekur tíma að koma sér af stað aftur og ná réttum takti. Það er hellingur af stressi sem fylgir fyrsta móti ársins. Mér leið vel í hlaupinu þangað til ég sá tímann eftir fyrsta hring og sá hvað þetta var hægt hlaup,“ sagði Aníta sem hefur æft vel hér á landi síðustu mánuði.

„Síðasta hlaupið mitt á síðasta ári var í ágúst. Svo tók ég tvær vikur í hvíld, eins og venjan er eftir tímabilið. Síðan hef ég verið að æfa styrktargrunninn og verið í þolæfingum. Þegar mótin nálgast verða æfingarnar svo harðari.“

Það er nóg um að vera hjá Anítu á árinu 2019. Fyrstu helgina í febrúar tekur hún þátt í Reykjavíkurleikunum, þar sem hún fær harða keppni frá silfurverðlaunahafa frá heimsmeistaramótinu í innanhúss í Birmingham á síðasta ári. Síðan tekur við undirbúningur fyrir tvö stórmót síðar á árinu.

„Það eru Reykjavíkurleikar eftir tvær vikur. Ég ætla að vera í góðu standi þar á móti góðum keppinautum. Ajeé Wilson sem náði í silfur á HM innanhúss í fyrra verður þar á meðal. Ég stefni svo á EM inni í Glasgow í mars og svo endar þetta með HM í Dóha sem er í október, út af hitanum,“ sagði Aníta Hinriksdóttir.