Njáll Trausti Þórðarson fæddist 12. október 1934. Hann lést 7. janúar 2019.

Útför Njáls Trausta fór fram 22. janúar 2019.

Í dag er borinn til grafar afi minn. Afi var svo sannarlega maður á undan sinni samtíð, þrátt fyrir að vera fæddur frekar snemma á síðustu öld þá fór hann í búðina, eldaði matinn og sá um dæturnar og barnabörnin af miklum hlýhug. Afi var ein af mínum stærstu fyrirmyndum í þessu lífi. Hann var traustur, öruggur og elskaði fjölskylduna sína meira en allt, meira segja meira en bíla. Bílar voru hans ær og kýr en hann gat breytt druslu í glæsikerru, það gerði hann t.d. með því að kaupa einn sem var með alveg heilt body en ónýta vél og svo keypti hann annan sem var með alla varahluti í lagi. Úr þessu varð glæsilegur Benz sem afi keyrði á í fjölda ára.

Mínar dýrmætustu minningar eru athvarf mitt sem alltaf stóð mér opið heima hjá afa og ömmu, skipti þá engu máli hvort mér hafði sinnast við foreldra mína eða að mér hreinlega líkaði ekki hvað var í kvöldmatinn í það skiptið. Þá var alltaf best að labba bæinn á enda og fara í opinn faðminn á afa og ömmu, aldrei sagt neitt, bara sóttur annar diskur og lagður á borðið. Nóg var af hjartahlýjunni og ef ég vildi gista þá var það alltaf sjálfsagt mál. Kolla frænka fékk alltaf vasapening á föstudögum frá afa, ef ég var stödd hjá þeim á föstudögum fékk ég alltaf líka vasapening.

Afi og amma áttu fimm dætur en fannst samt aldrei neitt einasta mál að taka mig með þegar þau fóru í ferðalög sín innanlands, sem þau gerðu hvert einasta sumar. Þá var ljósblái Wagonerinn fylltur og við Kolla frænka látnar liggja ofan á farangrinum og lagt af stað í Þjórsárdal eða Húsafell að hitta vini. Þegar þangað var komið var tjaldað og um kvöldið kveiktur varðeldur þar sem amma spilaði á gítarinn og allir sungu með.

Afi var fámáll maður en lét verkin tala. Eitt sinn þegar ég kom heim í frí, en við bjuggum í Bandaríkjum, og komum að heimsækja afa og ömmu norður á Húsavík þá átti dóttir mín akkúrat afmæli. Afi var búinn að baka köku, bjóða í afmæli heim í Brekku og amma bakaði pönnukökur. Þetta var svo lýsandi fyrir afa, alltaf að hugsa um aðra fjölskyldumeðlimi. Fyrst og fremst bar afi hana ömmu á höndum sér, hann hugsaði alveg ótrúlega vel um hana allt þeirra líf. Ást þeirra var án skilyrða og alveg einstök að fylgjast með.

Mikill er söknuður ömmu núna. Ég sé afa fyrir mér í sumarlandinu, að undirbúa komu ömmu þegar hennar tími mun koma. Hann er í fallegu hvítu lopapeysunni sinni, er að setja útilegubúnað í ferðabílinn þeirra og er búinn að stilla strengina á gítarnum hennar. Þegar hennar tími kemur verður allt tilbúið eins og honum var einum lagið.

Þín

Súsanna (Sússa).