„Sjúkdómastaðan er mjög sterk. Það sést best á útflutningi laxahrogna til 17 landa. Við uppfyllum allar kröfur og Stofnfiskur er eina kynbótastöðin í heiminum sem hefur leyfi til að flytja hrogn um allan heim,“ segir Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá Mast. Stofnfiskur flutti út 17 þúsund lítra af hrognum, alls nærri 100 milljón hrogn, auk milljóna hrognkelsaseiða til Færeyja.
Ekki hafa komið upp nýir alvarlegir sjúkdómar. Glíman við nýrnaveikina stendur þó enn yfir. Tvær seiðastöðvar á Vestfjörðum hafa unnið að því að útrýma veikinni hjá sér og segir Gísli að útlitið sé gott. Þá hafi nýrnaveiki komið upp í stöð á Norðurlandi og sé unnið að aðgerðum til að hreinsa stöðina. Arnarlax þurfti að grípa til aðgerða vegna laxalúsar sl. vor og aftur í haust. Arnarlax og fleiri fyrirtæki nota nú hrognkelsaseiði til að vinna gegn lús.