Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Tæplega tvöfalt fleiri innflytjendur voru á íslenskum vinnumarkaði í september en í sama mánuði 2014. Þá hefur þeim fjölgað um rúm 50% frá janúar 2016.
Þetta má lesa úr tölum Hagstofu Íslands um aldur, kyn og uppruna innflytjenda. Vekur athygli að hátt hlutfall þeirra er á miðjum aldri.
Rúmlega 40.500 innflytjendur voru á vinnumarkaði í september sem er metfjöldi. Til dæmis voru þeir um 4.600 fleiri en í apríl í fyrravor. Fjölgaði þeim því um tæplega þúsund á mánuði. Af þessum 40.500 voru 23.155 karlar og 17.379 konur. Hlutfall karla var því 57%.
Það eitt er athyglisverð staðreynd. Með því er körlum að fjölga hraðar en konum á Íslandi. Mögulega bíða einhverjir þessara karla þess að fjölskyldur þeirra komi til landsins og sameinist þeim.
Hefur Karl Sigurðsson, sérfræðingur á Vinnumálastofnun, bent á að slík sameining sé líkleg.
Fimmti hver er innflytjandi
Samtals voru rúmlega 164 þúsund launþegar með íslenskan bakgrunn í september en 40.500 innflytjendur. Með því var hlutfall innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði um 20%.
Ólafur Már Sigurðsson, sérfræðingur á Hagstofunni, segir tölurnar sóttar í staðgreiðsluskrá. Launþegarnir séu taldir með óháð því hvort þeir hafi lögheimili á Íslandi eða ekki. Hér er því farin önnur leið en í mánaðarlegri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Þar eru eingöngu teknir með einstaklingar sem hafa lögheimili á Íslandi. En þeir eiga t.d. rétt á atvinnuleysisbótum.
Vinnumarkaðsrannsóknin byggist á svörum þátttakenda í reglubundnum könnunum og segir Ólafur Már aðspurður að mögulega hafi það áhrif á rannsóknina að erfiðara sé að ná til erlendra launþega. Margir þeirra starfa til dæmis í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Vinnutími í þeim greinum kann að vera lengri hjá innflytjendum en hjá íslenskum ríkisborgurum að jafnaði. Þetta gæti aftur haft áhrif á mælda lengd vinnuvikunnar á Íslandi. Ekki síst með hliðsjón af því að innflytjendum hefur fjölgað hratt.
„Þetta er eitt af vandamálunum við vinnumarkaðsrannsóknina. Innflytjendum fjölgar enda ört sem hlutfall af vinnumarkaðnum. Við eigum erfiðara með að ná í útlendinga en innlenda,“ segir Ólafur Már. Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar hefur meðalvinnutími Íslendinga á viku styst töluvert á öldinni. Munar þar einkum um að vinnuvikan hjá körlum hefur styst um 15% á öldinni. Vinnuvikan á Íslandi er þó enn töluvert lengri en annars staðar á Norðurlöndum.