Áskoranir Er tvennt ólíkt að vera listamaður og kennari, jafnvel þótt listkennari sé? Rannsókn Kristínar leiðir margt forvitnilegt í ljós um sjálfsmyndina og áskoranir sem mæta nemum í námi í listkennslufræðum á meistarastigi.
Áskoranir Er tvennt ólíkt að vera listamaður og kennari, jafnvel þótt listkennari sé? Rannsókn Kristínar leiðir margt forvitnilegt í ljós um sjálfsmyndina og áskoranir sem mæta nemum í námi í listkennslufræðum á meistarastigi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is Sjálfsmyndin kemur mikið við sögu í doktorsritgerð Kristínar Valsdóttur, deildarforseta listkennsludeildar Listaháskóla Íslands, sem hún ver kl. 13 föstudaginn 25. janúar í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Sjálfsmyndin kemur mikið við sögu í doktorsritgerð Kristínar Valsdóttur, deildarforseta listkennsludeildar Listaháskóla Íslands, sem hún ver kl. 13 föstudaginn 25. janúar í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Yfirskrift rannsóknarinnar er Að vera listkennari - lærdómsferli listama nna og fjallar hún um nám og námsferli listamanna, sem bæta við sig kennaranámi. Í þeim sporum eru nemendur hennar í LHÍ og standa þá stundum frammi fyrir því að kollegar þeirra í listaheiminum og aðrir líta þá ekki sömu augum og áður. En er tvennt ólíkt að vera listamaður og kennari, jafnvel þótt listkennari sé? Rannsókn Kristínar leiðir ýmislegt forvitnilegt í ljós um sjálfsmyndina og margt fleira.

„Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á áskoranir sem mæta nemendum sem hefja nám í listkennslufræðum á meistarastigi. Markmiðið er að þróa meistaranám fyrir listamenn og koma betur til móts við þarfir þeirra í náminu,“ segir Kristín og heldur áfram: „Endanlegt markmið mitt og það mikilvægasta er að sýna hvernig við getum menntað listkennara fyrir komandi kynslóðir í síbreytilegum heimi þar sem lausnamiðuð hugsun og skapandi leiðir kunna að skipta mestu máli.“

Að kenna fólki að kenna listir

Þótt listin – og þá fyrst og fremst tónlistin, hafi leikið stórt hlutverk á menntabraut Kristínar og verið samtvinnuð öllu hennar starfi, kveðst hún ekki skilgreina sig sem listamann. „Ég lærði á píanó í mörg ár frá sex ára aldri, en tók mér pásu þegar ég var unglingur, enda var mér allri lokið þegar ljóst var að ég þurfti að æfa minnst þrjá tíma á dag til að ná árangri. Ég hef alltaf litið á listina annars vegar sem atvinnugrein og hins vegar einfaldlega sem hluta af því að vera manneskja. Mín lífsganga hefur falist í að vinna að því að sem flestir fái innsýn og geti notið þess að tjá sig í gegnum skapandi greinar.“

Að sögn Kristínar var ekki borðleggjandi að hún færi út á þær brautir að kenna fólki að kenna listir ef svo má að orði komast. „Þannig þróuðust bara málin. Eftir tónmenntakennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands, kenndi ég í grunnskóla um fimm ára skeið áður en ég fór í tveggja ára framhaldsnám í tónlistar- og danskennslu við Orff Institut, tónlistarháskólann Mozarteum í Salzburg í Austurríki. Eftir heimkomuna árið 1992 varð ég stundakennari og síðar aðjúnkt við KHÍ og gegndi þeim starfa til ársloka 2008. Á þessum tíma starfaði ég líka við tónmenntakennslu og kórstjórn í Vesturbæjarskóla og Tónlistarskólanum í Reykjavík, var kennari á sviðslistadeild LHÍ og stundakennari við tónlistardeild og í kennslufræði við sama skóla,“ segir Kristín og hefur þar með stiklað á stóru um nám sitt og störf. Frá árinu 2003 hefur hún að mestu starfað við kennslu og stjórnunarstörf á háskólastigi ásamt því að vera í námi, en hún lauk meistaragráðu frá KHÍ árið 2006 og fimm árum síðar hóf hún að vinna að doktorsverkefninu.

Dagbækur 1. árs nema

„Gögn rannsóknarinnar voru vikulegar dagbókarfærslur, sem 22 fyrsta árs nemendur í deildinni minni héldu á einni önn. Þeir skrifuðu hugleiðingar sínar um allt sem tengdist náminu, hvernig þeim leið og hvað þeim lá helst á hjarta. Ég tók einnig lífssöguviðtöl við 15 listamenn, þar af 12 sem höfðu lokið meistaranámi og útskrifast sem listkennarar frá deildinni.“

Til þess að hefja meistaranám í listkennsludeild LHÍ, þar sem Kristín hefur verið deildarforseti frá stofnun árið 2009, þurfa nemendur að hafa BA gráðu í einhverri listgrein eða sambærilega menntun. „Víðast hvar erlendis eru myndlistarmenn saman í deild, leikarar eða tónlistarmenn í annarri og þar fram eftir götunum. Hér í listkennsludeild er þessu öfugt farið, enda væri ómögulegt í svona litlu samfélagi að manna heila deild með til dæmis bara leikurum sem væru að bæta við sig kennaranámi á meistarastigi. Þær praktísku ástæður sem upphaflega lágu að baki því hvernig deildin er uppbyggð, hafa reynst einna dýrmætasti hluti námsins. Fyrirkomulagið leiðir til aukins samtals milli listgreina, en nemendur eru líka á mörgum sértækum námskeiðum þar sem athyglinni er beint að einstakri listgrein.“

Þótt listamennirnir séu flestir á aldrinum 35 til 40 ára og með reynslu í sínu fagi, segir Kristín að námið sé oft töluverð viðbrigði fyrir þá. „Það er alla jafna mun akademískara en þeir hafa átt að venjast í sínu listnámi. Þeir þurfa að lesa meira, skrifa meira og læra alls konar framandi hugtök í kennslufræðum svo fátt eitt sé talið og um leið að aðlagast nýju umhverfi. Rannsókn mín sýndi fram á að ein mesta áskorunin fólst í að horfast í augu við spegilmynd sína og spyrja sjálfa sig – og svara, hvernig nemendur ætluðu að samræma það að vera kennarar en jafnframt listamenn.“

Eru þeir búnir að „missa'ða“?

Kristín segir að þegar hún fékk fyrstu gögnin; dagbækurnar, í hendurnar, hafi runnið upp fyrir sér hversu mikið nemendur pældu í sjálfsmyndinni. „Enda mættu þeir stundum neikvæðum viðhorfum hjá öðrum listamönnum og úti í samfélaginu. Fólk undraðist að þeir væru að mennta sig til að verða listkennarar, fannst það vera neikvætt skref. Dæmi voru um að nemendur væru spurðir hvort þeir væru hættir í listinni, búnir að „missa'ða og hefðu gefist upp sem listamenn“.

Kristínu kom þessi upplifun nemenda nokkuð á óvart, en segir hana kannski ekkert skrýtna með tilliti til á stundum frekar neikvæðrar umræðu í samfélaginu um kennarastarfið. „Hins vegar kom mér skemmtilega á óvart hversu nemendur voru ánægðir að vera í blandaðri deild þar sem þeir umgangast ólíka listamenn.“

Gildi rannsóknarinnar segir doktorsefnið einkum felast í að varpa ljósi á þær ögranir sem listamenn standa frammi fyrir þegar þeir hefja kennaranám á meistarastigi. Niðurstöðurnar geti nýst við þróun og uppbyggingu frekara náms á meistara- og doktorsstigi fyrir listamenn og til að skoða og greina uppbyggingu kennaranáms á Íslandi.

„Ánægja nemenda með samtalið milli listgreina í náminu hafði mikil áhrif á þá ákvörðun okkar að stofna nýja braut innan námsins. Frá og með haustinu geta einstaklingar með BA gráðu í almennum greinum sótt nám við deildina og lokið kennaranámi með áherslu á aðferðir listgreina í kennslu.“