Rusl fylgir manninum, haugar af rusli. Það er rusl á landi og höfin eru full af rusli. Svo er geimrusl.

Rusl fylgir manninum, haugar af rusli. Það er rusl á landi og höfin eru full af rusli. Svo er geimrusl. Í geimnum eru á sveimi gervihnettir, sem hættir eru að virka og komnir af braut, auk alls kyns brotajárns, meðal annars eftir að tveir gervihnettir rákust saman árið 2009.

Draslið þeytist um geiminn á 30 þúsund kílómetra hraða á klukkustund. Rekist smáhlutur á gervihnött eða geimfar á slíkri ferð getur tjónið orðið gríðarlegt. Er talað um að alvarlegur árekstur gæti orðið til þess að svo mikið geimskran yrði á sveimi yfir jörðinni að ekki yrði hægt að fljúga út í geim. Fagfélag fyrirtækja í gervihnattabransanum hefur látið frá sér að á fimm árum hafi gervihnöttum á braut um jörðu fjölgað um 50%. Sú fjölgun mun ugglaust halda áfram. Í fyrra voru alls 4.857 gervihnettir á braut um jörðina að því er kemur fram hjá UNOOSA, geimstofnun Sameinuðu þjóðanna, 1.980 virkir og 2.877 óvirkir. Þeir verða óvirkir þegar eldsneyti þeirra er uppurið og þeir hverfa af braut. Þeim hafði reyndar fækkað um 20 síðan 2017.

Ýmsir eru farnir að huga að því hvernig bregðast eigi við þessum vanda. Eitt fyrirtæki er að hanna geimför, sem geta farið út í geim, tengst gervihnöttum, sett á þá eldsneyti og gert við eftir þörfum til að lengja líftíma þeirra. Aðrir eru að skoða að fara út í geim, sækja óvirka gervihnetti og draga þá inn í gufuhvolfið þannig að þeir fuðri upp eða koma þeim aftur á braut. Þá eru uppi hugmyndir um að senda einhvers konar segulhnött út í geim til að draga að sér brotajárn og bilaða gervihnetti á fleygiferð í geimnum. Menn vita hins vegar ekki hvernig eigi að losna við minnstu hlutina úr geimnum.

Víkverji gengst við því að hann hefur frá því hann var krakki verið veikur fyrir geimferðum. Hann óraði hins vegar aldrei fyrir því að einn af fylgifiskum þeirra yrði förgun geimrusls.