[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samdráttur varð í framleiðslu á eldisfiski á síðasta ári. Aukning í laxi náði ekki að vega upp mikinn samdrátt í eldi á regnbogasilungi. Segja má að þetta hafi verið millibilsár vegna breytinga því framleiðsla er að hefjast af krafti hjá tveimur nýjum fyrirtækjum í sjókvíaeldi og fiskeldismenn reikna með að framleiðslan fari úr 19 þúsund tonnum á síðasta ári í yfir 30 þúsund tonn á árinu 2019.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Samdráttur varð í framleiðslu á eldisfiski á síðasta ári. Aukning í laxi náði ekki að vega upp mikinn samdrátt í eldi á regnbogasilungi. Segja má að þetta hafi verið millibilsár vegna breytinga því framleiðsla er að hefjast af krafti hjá tveimur nýjum fyrirtækjum í sjókvíaeldi og fiskeldismenn reikna með að framleiðslan fari úr 19 þúsund tonnum á síðasta ári í yfir 30 þúsund tonn á árinu 2019.

Heildarframleiðslan dróst saman úr 20.776 tonnum árið 2017 í 19.077 tonn á síðasta ári, eins og sjá má á meðfylgjandi töflu sem byggð er á upplýsingum frá Matvælastofnun. Framleiðsla á laxi eykst um tæp 1.700 tonn, meðal annars vegna þess að Fiskeldi Austfjarða hóf slátrun á laxi úr kvíum í Berufirði fyrir rúmu ári og Laxar fiskeldi hófu slátrun í nóvember. Á móti kemur að langstærsta laxeldisfyrirtækið, Arnarlax, varð fyrir miklu tjóni í upphafi síðasta árs þegar lax slapp úr sjókví og einnig drapst fjöldi laxa þegar fiskurinn var fluttur í aðra kví. Einnig stöðvaði Arnarlax framleiðslu um tíma á meðan unnið var að stækkun húsnæðis og framleiðslulínu á Bíldudal.

Aukning í kortunum

„Góðu tíðindin eru þau að þrír nýir framleiðendur hafa bæst í hóp sjókvíaeldisstöðva,“ segir Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva. Arctic Fish í Dýrafirði hóf slátrun í byrjun árs 2019.

Spurður um áhrif vandamála við leyfisveitingar og kærumál segir Einar að það skapi óvissu, einnig hversu veiting leyfa hefur gengið hægt fyrir sig.

Auk eldis á laxi í sjókvíum voru 1.660 tonn framleidd í landeldisstöðvum.

Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá Mast, segir að framleiðslugetan í seiðaeldisstöðvunum sé flöskuháls í sjókvíaeldi. Hann telur að reikna megi með að framleiðsla á laxi verði hátt í 18 þúsund tonn á þessu ári. Enn sé hægt að auka við en það taki tíma. Fiskeldismenn eru bjartsýnni. Ef þeirra áætlanir ganga eftir verður framleiðsla á laxi úr sjókvíum og landeldisstöðvum 24-25 þúsund tonn í ár og heildarframleiðslan yfir 30 þúsund tonn.

Mikið var framleitt af regnbogasilungi í sjókvíum á árinu 2017 en þá voru nokkrar stöðvar sem veðjað höfðu á regnbogann að skipta yfir í lax. Þetta á meðal annars við um Fiskeldi Austfjarða í Berufirði og Arctic Fish í Dýrafirði. Beytingin tekur tíma.

Áfram er framleiddur regnbogasilungur hjá smærri fyrirtækjum. Búist er við nokkurri aukningu á þessu ári.

Bleikjan hefur verið í hægri en öruggri aukningu í mörg ár. Svo var einnig á síðasta ári. Samherji er langstærsti framleiðandinn en Matorka við Grindavík bættist í hópinn með um 600 tonna framleiðslu. Öll bleikjan er framleidd í strandeldisstöðvum og hafa Íslendingar yfirburðastöðu á mörkuðum. Búist er við áframhaldandi aukningu í bleikjuframleiðslu og hún verði þá yfir 5.000 tonnum í ár.