Guðmundur Arnfinnsson er ekki einn um það að fá gott bragð í munninn þegar við hugsum til föstudagsins – fyrsta dags í þorra. Hann yrkir á Boðnarmiði:
Hákarl vér þiggjum á þorra
að þjóðlegum sið feðra vorra,
harðfisk og svið
og sveran með kvið
svöllum að hætti Snorra.
Þessi vísa Guðmundar skýrir sig sjálf:
Filipus var úti að aka,
ekki fór það vel,
sjón og viti virðist hraka,
varð ei Betu um sel.
Á laugardagsmorgun orti Guðmundur og kallaði „Óvana“ en ég segi: „Guði sé lof!“:
Að morgni kaffi tek ég teyg
til að skerpa ögn á mér
bæti útí viskí veig
og vísnagátur semja fer.
Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn segir um „Afglapaskarð“: „Sagt er að fleiri og fleiri fari Afglapaskarð, segir í kvæði Davíðs frá Fagraskógi. Ekki byrjar árið vel hvað þetta varðar. Dagur vill ekki úr Bragganefndinni, Kristján Loftsson skrifar hvalaskýrsluna í gegnum Oddgeir A. Ottesen frambjóðanda og varaþingmann Sjálfstæðisflokksins. Nú býð ég bara eftir því að Sigmundur Davíð verði kosin af alþingi til að fara yfir Klausturmálið“:
Í bananalýðveldi búum.
Á bavíana við trúum.
Vitmunasnauð?
Nei, vitsmunadauð
því aldrei frá afglöpum snúum.
Hólmfríður Bjartmarsdóttir fór í „heimsókn til Reykjavíkur“:
Borgin hún stækkar, hún er að fyllast af húsum
sem hráviði byggingarefnin í pollunum liggja.
Allir að byggja og allir að kaupa lóðir
og á þeim á sjálfsagt að byggja.
Í verslanamollum ég lenti í vanda að velja
allt veður í drasli, sem háttur er umhverfissóða.
Alþingi hefur í huga bankana að selja
já hagnaðarlindina, einkavinunum bjóða.
Á heildina litið er eins og óvitakrakkar
úr sínum dótakössum helli og dreifi
krönum, hótelum, gröfum og gömlum skúrum
og gleymi að spyrja um leyfi.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is