Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

„Þessi niðurstaða sýnir það að með því að ná utan um flókin verkefni og ýta aðgerðum í framkvæmd þá náum við árangri,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, sem í gær lagði fram á ríkisstjórnarfundi upplýsingar frá landlæknisembættinu um 14% samdrátt milli áranna 2017 og 2018 í ávísunum lækna á lyf sem leitt geta til ávana og fíknar. Svandís segir að mest hafi fækkunin verið í ópíóíðalyfjum, sem eru sterk verkja- og róandi lyf, og methýlfenidat, sem eru örvandi lyf. Ávísanir á slík lyf höfðu aukist á hverju einasta ári frá 2008 fram til 2017.

„Árum saman vorum við búin að horfast í augu við vandamálið og það var löngu tímabært að kalla alla að borðinu; lyfsala, heilbrigðisstarfsfólk, Rauða krossinn og fleiri til þess að lista upp hverju við gætum beitt til þess að stemma stigu við misnotkun á fíkni- og ávanabindandi lyfjum,“ segir Svandís og bendir á að vakning hafi orðið hjá læknum og starfshópur sem hún skipaði hafi skilað tillögum að aðgerðum í maí 2017.

Í kjölfarið hafi ný reglugerð sem miðaði að því að veita læknum meira aðhald í lyfjaávísunum og stuðla að öruggari lyfjanotkun verið sett sem og takmörk á ávísanir ávana- og eða fíknilyfja við 30 daga notkun í senn. Skilyrði voru sett um að lyfjaskírteini væru til staðar við ávísun lyfja í ákveðnum lyfjaflokkum og að einstaklingar sem leystu út slík lyf sýndu persónuskilríki.