„Ef það tekst að framkvæma þessar hugmyndir eða bróðurpartinn af þeim mun það vera risastórt skref í átt að lausn kjaradeilunnar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um tillögur átakshópsins um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir...

„Ef það tekst að framkvæma þessar hugmyndir eða bróðurpartinn af þeim mun það vera risastórt skref í átt að lausn kjaradeilunnar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um tillögur átakshópsins um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta húsnæðismarkaðinn.

Ragnar Þór var hluti af starfshópnum sem vann að tillögunum. Hann er ánægður með að aðilar úr öllum áttum náðu saman um þessar aðgerðir en nú þurfi að hrinda þeim í framkvæmd. „Ég myndi segja að ef allir þeir aðilar sem komu að þessari vinnu; sveitarfélögin, ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins, gátu komið sér saman um þessar aðgerðir þá þarf núna bara að standa við það og láta verkin tala.“

Hann telur einnig að ef tillögurnar verða framkvæmdar muni það hafa mikil áhrif á húsnæðisvandann, bæði til skemmri og lengri tíma.

„Við erum þá að fara að sjá hérna raunverulega breytingar á húsnæðismarkaði til framtíðar bæði hvað varðar skammtímaúrræði til að mæta bráðavandanum og raunveruleg úrræði til að verja fólk betur á leigumarkaði.“

Gott innlegg fyrir viðræðurnar

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur í sama streng.

„Það er ánægjulegt að sjá að tillögurnar eru komnar fram. Það sem mest er um vert er að það næst sátt um tillögurnar í þessum stóra hópi og það hlýtur að vera upphaf að einhverju,“ segir Halldór.

Hann telur tillögurnar gott innlegg í yfirstandandi kjaraviðræður, en fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa kallað eftir aðkomu hins opinbera að kjaraviðræðunum, m.a. hvað húsnæðismál varðar. „Við erum sammála um að húsnæðismálin séu einn stærsti málaflokkurinn í komandi kjarasamningum og það að við náum saman um þessi áhersluatriði er mjög jákvætt,“ segir Halldór.

Leigumarkaðurinn mikilvægur

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), var einnig jákvæður gagnvart tillögum átakshópsins þegar Morgunblaðið hafði samband í gærkvöldi. „Þær eru að mörgu leyti mjög jákvæðar. Þetta eru góðar tillögur bæði hvað varðar að lækka vexti og gera mönnum auðveldara fyrir að lækka leigu vegna þess að það er lægra vaxtastig,“ segir Björn og bætir við að átak í uppbyggingu íbúða og breytingar á byggingarreglugerð skipti einnig miklu máli. „Mér finnst þetta allt mjög jákvætt í heildina og hvernig eigi að taka á málefnum leigjenda og reyna að koma skikki á þau.“

Spurður hvaða aðgerðum hann myndi vilja sjá hrint í framkvæmd fyrst segir hann aðgerðir á leigumarkaði vega þyngst.

„Við höfum alltaf sagt að það sem liggur mest á okkur er okkar fólk á lægstu tekjunum, og að því verði gert auðveldara að komast inn í öruggt leiguhúsnæði. Lægri leiga og meira öryggi er það sem við viljum sjá og mér finnst vera tekið á þeim málum.“

Björn segir að lokum að aðgerðir sem þessar liðki fyrir kjaraviðræðunum og hann vill sjá nánari tillögur sem fyrst svo þessar hugmyndir verði framkvæmdar en verði ekki bara á blaði.