„Brasilíumenn hafa farið vaxandi á mótinu og virðast öflugri en í byrjun mánaðarins,“ sagði Ólafur Gústafsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, í samtali við Morgunblaðið í gær fyrir síðustu æfingu landsliðsins áður en liðið leikur við...

„Brasilíumenn hafa farið vaxandi á mótinu og virðast öflugri en í byrjun mánaðarins,“ sagði Ólafur Gústafsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, í samtali við Morgunblaðið í gær fyrir síðustu æfingu landsliðsins áður en liðið leikur við Brasilíu í lokaleik sínum á mótinu í dag kl. 14.30 í Lanxess-Arena í Köln.

Með sigri getur íslenska liðið hafnað í níunda eða tíunda sæti mótsins en tap þýðir að ellefta eða tólfta sætið kemur í hlut Íslands. Brasilíumenn hafa að miklu að keppa. Vinni þeir leikinn eiga þeir möguleika á að leika um sjöunda sæti mótsins sem gæti fært þeim keppnisrétt í forkeppni Ólympíuleikanna eftir rúmt ár.

„Við búum okkur undir hörkuleik við leikmenn sem eru vel á sig komnir. Sóknarmenn þeirra eru þungir og stórir. Þess vegna mun mæða mikið á vörninni okkar. Eins hafa þeir leikið öfluga 5/1 vörn sem hefur komið mörgum liðum í opna skjöldu á mótinu fram til þessa,“ sagði Ólafur ennfremur.

„Við leggjum upp með sigur í lokaleik mótsins, enda á jákvæðum nótum og ná níunda eða tíunda sæti sem yrði besti árangur Íslands á HM um langt árabil. Það væri finn árangur að mínu mati eins og mótið hefur þróast hjá okkur,“ sagði Ólafur og það má til sanns vegar færa. Frá því að Ísland hafnaði í sjötta sæti á HM hefur liðið lokið keppni 12. sæti á HM 2013 á Spáni, í 11. sæti á HM í Katar 2015 og í 14. sæti á HM fyrir tveimur árum.

Ísland og Brasilía hafa einu sinni leitt saman hesta sína áður á HM. Sá leikur fór fram á HM í Svíþjóð fyrir átta árum. Ísland vann, 34:26. Einn leikmaður íslenska liðsins tók þátt í þeirri viðureign, Björgvin Páll Gústavsson. iben@mbl.is