Þuríður Sigurðardóttir fæddist 23. janúar 1949 heima hjá sér í Laugarnesi í Reykjavík og ólst þar upp. Hún gekk í Laugarnesskóla, Gagnfræðaskóla verknáms, Fjölbraut í Breiðholti (listabraut) og Listaháskóla Íslands og brautskráðist þaðan með BA gráðu 2001.
Þuríður byrjaði að vinna í fiskvinnslu 11 ára aldri og hefur síðan einnig unnið verslunarstörf og verið flugfreyja, en fyrst og fremst hefur Þuríður auðvitað verið söngkona og myndlistarmaður. Hún sló í gegn þegar hún kom fram á skemmtistaðnum Lídó 1965 og var drifin í stúdíó þar sem hún söng með hljómsveitinni Lúdó og Stefáni lagið „Elskaðu mig“ inn á plötu. Lagið varð geysivinsælt og í framhaldinu hóf hún að syngja með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og varð það að fimm ára farsælu samstarfi. Hljómsveitin lék einkum á skemmtistaðnum Röðli (við Brautarholt) sem var opinn alla daga vikunnar. Ásamt Þuríði söng Vilhjálmur Vilhjálmsson með hljómsveitinni og seinna Pálmi Gunnarsson.
Árið 1969 kom út fyrsta tveggja laga sólóplata Þuríðar með lögunum, „Ég ann þér enn“ og „Ég á mig sjálf“. Platan og söngurinn hlutu lof gagnrýnenda og í vinsældakosningum var hún valin „vinsælasta söngkona ársins“ og platan „hljómplata ársins“. Eftir árin með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar söng Þuríður með ýmsum hljómsveitum og listamönnum svo sem: Ragnari Bjarnasyni, Gunnari Þórðarsyni, Jóni Páli Bjarnasyni og Guðmundi Ingólfssyni. Hún var liðsmaður Sumargleðinnar sem ferðaðist um landið nokkur sumur.
Þuríður hefur í meira mæli snúið sér að myndlist og sýnt víða bæði innanlands og utan. Hún fæst fyrst og fremst við olíumálverk og viðfangsefnið er gjarnan náttúran, stundum með þröngt eða óvænt sjónarhorn. Hún hefur kennt við Myndlistaskóla Reykavíkur. Þura hefur verið sýningarstjóri, m.a. með Markúsi Þór Andréssyni á sýningunni Tívolí, sem sett var upp í Listasafni Árnesinga 2005. Þura var einn af stofnendum START ART listamannahúss sem starfrækt var frá árinu 2007 - 2009. Galleríið stóð fyrir listverkefninu „Laugavegurinn“ á Listahátíð í Reykjavík vorið 2009 með þátttöku fjölda listamanna og almennings. Í framhaldi var gefin út bókin Laugavegurinn 2009 og þar sat Þuríður í ritstjórn.
Meðal einkasýninga Þuríðar má nefna Á milli laga, Listasafn ASÍ, 2009; Glansmynd, Grafíksalurinn, 2010; Yfirlit, Hellisheiðarvirkjun, 2012; og Fyrirmyndir, SÍM, sýningarsalur, 2018.
Þuríður hefur verið virk í félagsstörfum og m.a. setið í stjórn Sambands íslenskra listamanna og Bandalags íslenskra listamanna. Hún átti þátt í stofnun og rekstri Opna Gallerísins sem nýtti sér ýmis rými í 101 Reykjavík 2002-2003. Þuríður var valin bæjarlistamaður Garðabæjar 2004.
Hestu áhugamál Þuríðar eru fjölskyldan, hestamennska, myndlist, ferðalög og Laugarnesið.Hún ætlar að halda upp á afmælið með tónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði á sumardaginn fyrsta, 25. apríl.
Fjölskylda
Eiginmaður Þuríðar er Friðrik I. Friðriksson, f. 2.12.1950, viðskiptastjóri í Prentmet. Foreldrar Friðriks. Hjónin Friðrik Jóelsson, prentari í Hafnarfirði, f. 15.4. 1922, d. 2.6. 2013, og Valdís Guðjónsdóttir, f. 15.4. 1926, d. 5.5. 2015, húsmóðir. Fyrri maki: Pálmi Gunnarsson, f. 29.9. 1950, tónlistarmaður.
Börn 1) Sigurður Helgi Pálmason, f. 9.10. 1974, safnvörður Seðlabanka Íslands, bús. í Rvík. Sambýliskona: Unnur Björk Hauksdóttir, f. 9.8. 1978, flugfreyja. 2) Erling Valur Friðriksson, f. 18.12. 1980, atvinnubílstjóri, bús. á Selfossi, Eiginkona: Halla Eiríksdóttir, f. 10.8. 1977, ferðamálafræðingur og viðurkenndur bókari.
Barnabörn: Svala Rún Sigurðardóttir, f. 12.5. 2002, Haukur Helgi Sigurðsson, f. 24.1. 2011, Friðrik Bjarki Sigurðsson, f. 25.10. 2013, og Valdís Ásta Erlingsdóttir, f. 7.7. 2014.
Systkini: Valgerður Sigurðardóttir, f. 4.12. 1937, d. 28.12. 2015, meinafræðingur, Erling Ólafur Sigurðsson, f. 18.7. 1942, atvinnuhestamaður, Ævar Sigurðsson, f. 30.5. 1944, bílamálari, Ólafur Sigurðsson, f. 5.3. 1950, listmálari, Gunnþór Sigurðsson, f. 2.11. 1960, bassaleikari og safnvörður. Hálfsystir: Elsa Sigurðardóttir, f. 10.12. 1935, d. 24.10. 2017.
Foreldrar: Hjónin Inga Valfríður Einarsdóttir – Snúlla, f. 18.11. 1918 í Miðdal í Mosfellssveit, d. 6.2. 2015, sjúkraliði, og Sigurður Ólafsson, f. 4.12. 1916 í Mávahlíð í Reykjavík, d. 13.7. 1993, söngvari og hestamaður. Þau bjuggu lengst af í Laugarnesi í Reykjavík.