— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kvika Securities Ltd., dótturfélag Kviku í Bretlandi, hefur fengið starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfra sjóða af breska fjármálaeftirlitinu.

Kvika Securities Ltd., dótturfélag Kviku í Bretlandi, hefur fengið starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfra sjóða af breska fjármálaeftirlitinu. Starfsleyfið hefur í för með sér auknar heimildir fyrir Kviku Securities til þess að stýra sérhæfðum sjóðum í Bretlandi en hingað til hefur starfsemi Kviku þar í landi verið í formi ráðgjafarstarfsemi, aðallega varðandi fjármögnun og fjárfestingar.

Kvika Securities hefur verið starfandi í Bretlandi í rúmlega tvö ár og hefur á þeim tíma leitt hópa fjárfesta, viðskiptavina bankans, bæði íslenskra sem erlendra, í fjárfestingum í Bretlandi. Á meðal þeirra fjárfestinga eru 30 milljóna punda fjárfesting í lánastarfsemi og fjárfesting í hjúkrunarheimilum upp á 25 milljónir punda. Samanlagt nema þessar fjárfestingar rúmum 7 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Þetta kemur fram í samtali Morgunblaðsins við Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóra Kviku í Bretlandi. „Þetta aukna starfsleyfi veitir okkur getu til þess að stýra eignum í Bretlandi með formlegum hætti sem er ekki búið að vera eitthvað sem við höfum getað gert hingað til.“ Að sögn Gunnars er stefnt að því að starfsemi Kviku í Bretlandi muni áfram tengjast svipuðum verkefnum og hingað til hefur verið unnið að sem og sérhæfðum eignaflokkum, svo sem í skuldabréfa- og fasteignaverkefnum. „Í kjölfar þessa leyfis getum við þá tekið næsta skref í okkar þróun og stýrt eignum með formlegum hætti og þannig veitt viðskiptavinum okkar víðtækari þjónustu.“