Magnús Heimir Jónasson, Ómar Friðriksson og Jón Birgir Eiríksson
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að fjármögnun tillagna átakshóps um aukið framboð á húsnæði, sem snúa að ríkinu, sé á byrjunarreit.
„Þetta eru auðvitað tillögur sem eru af ólíkum toga. Sumar gera kröfur á sveitarfélög, aðrar þurfa að ræðast milli aðila vinnumarkaðar, sumt af þessu horfir til ríkisins. Af því sem horfir til ríkisins þá eru atriði þarna sem ekki er augljóst að þurfi að fjármagna sérstaklega, t.d. Keldnalandið. En annað þarf að skoða með fjármögnun og við erum bara á byrjunarreit með það má segja,“ segir Bjarni.
Átakshópurinn í húsnæðismálum kynnti tillögur sínar á blaðamannafundi í gær. Spurður hvort hugmyndir átakshópsins rúmist innan fyrirhugaðra aðgerða stjórnvalda í húsnæðismálum segir Bjarni svo vera. „Jú, það eru til dæmis atriði þarna sem eru framhald af einhverju sem hefur verið í gangi eins og almennu íbúðirnar og þau félagslegu úrræði sem þar er að finna,“ segir Bjarni og bætir við að það sé jákvætt að vilji sé til að halda því verkefni áfram.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, fagna öll tillögum átakshópsins. „Ég get ekki betur séð en að það sé margt þarna sem okkur líst mjög vel á,“ segir Sólveig Anna. Hún nefnir í fyrsta lagi þá tillögu er varðar leitun að samstarfi um fjármögnun húsnæðisfélagsins Blæs.
Þá segir Ragnar Þór að ef hægt verði að framkvæma tillögur átakshópsins sé það „risastórt skref“ í átt að lausn kjaradeilunnar.