Edduverðlaun Áramótaskaupið 2017 var valið skemmtiþáttur ársins.
Edduverðlaun Áramótaskaupið 2017 var valið skemmtiþáttur ársins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Framleiðendur Áramótaskaups Sjónvarpsins hafa síðustu ár getað sótt sér endurgreiðslu til íslenska ríkisins vegna laga um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Framleiðendur Áramótaskaups Sjónvarpsins hafa síðustu ár getað sótt sér endurgreiðslu til íslenska ríkisins vegna laga um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar. Lögum samkvæmt eiga framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi kost á endurgreiðslum á allt að 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Þetta þýðir að kostnaður við framleiðslu Áramótaskaupsins hefur í raun verið talsvert meiri en gefið hefur verið upp, enda hefur dagskrárstjóri RÚV alltaf gefið upp þann kostnað sem RÚV hefur sjálft borið. Sá kostnaður hefur verið í kringum 30 milljónir króna, nú síðast 34 milljónir króna.

Þegar tölur um endurgreiðslur eru skoðaðar kemur í ljós að framleiðslufyrirtækið Glass River fékk 10,2 milljónir króna vegna Skaupsins 2017, RVK Studios fékk 10,6 milljónir króna vegna Skaupsins 2016 og Stórveldið fékk 8 milljónir króna vegna Skaupsins 2015.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, segir í samtali við Morgunblaðið að hann telji að endurgreiðslur Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fyrir hönd atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins til sjálfstæðra framleiðenda séu afar jákvæðar fyrir innlenda kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð. Um þetta gildi ákveðnar reglur og skilyrði sem verkefni þurfa að uppfylla. „Verk sem RÚV framleiðir sjálft hljóta ekki þessa fyrirgreiðslu en þegar sjálfstæðir framleiðendur framleiða efni fyrir RÚV eða aðra þá geta þeir sótt í þennan sjóð. Áramótaskaupinu hefur verið útvistað hjá RÚV um árabil með góðum árangri, og það frá því áður en þessi endurgreiðsla hóf göngu sína. Þessi framleiðsla uppfyllir umrædd skilyrði og því fær framleiðandinn þessa endurgreiðslu. RÚV hefur aukið útvistun sem þessa á undanförnum árum og þar með mætt ákalli sjálfstæðra framleiðenda og skilyrðum í þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið en einnig hefur þetta fallið vel að nýrri stefnu RÚV. Við viljum eiga í gjöfulu samstarfi við sjálfstæða framleiðendur og íslenska kvikmyndagerð almennt,“ segir Skarphéðinn og bendir á að eftirsótt hafi verið meðal framleiðenda að taka að sér Áramótaskaupið.

Hann segir að í hvert sinn sem dagskrárefni sé í þróun hjá RÚV sé það metið hvort betra sé að vinna efni innanhúss eða í samstarfi við sjálfstæða framleiðendur. „Á undanförnum árum höfum við aukið verulega framlag okkar til leikins efnis og sú aukning ratar nær alfarið til sjálfstæðra framleiðanda. Eðli þessara verkefna er þannig að við teljum að vænlegra sé að þau séu í höndum sjálfstæðra framleiðenda enda hlýtur sá ráðahagur að vera hvað vænlegastur fyrir íslenska kvikmyndagerð. Við höfum einnig aukið stuðning við sjálfstæða framleiðendur við að koma íslensku efni á framfæri erlendis.“

En nú á Áramótaskaupið sér áratuga sögu í dagskrá RÚV, það getur vart flokkast eins og hvert annað aðkeypt efni?

„Áramótaskaupið á sér sannarlega langa og merka sögu. En út frá framleiðslusjónarmiði er Skaupið hins vegar vel til þess fallið að fela sjálfstæðum framleiðenda, þar sem það er umfangsmikil framleiðsla og leikið efni, jafnvel þótt það sé í grunninn RÚV-verkefni.“

Þóra Hallgrímsdóttir, formaður nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, segir í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins að nefndin afgreiði mál eftir gildandi lögum og reglum og hafi ekki tekið afstöðu til þess hvernig reglurnar eigi eða eigi ekki að vera. Hún segir aðspurð að engar athugasemdir hafi borist nefndinni né henni persónulega við því að Skaupið fái þessa endurgreiðslu.