Átakshópurinn leggur til skráningu leigusamninga í opinbera gagnagrunna og að útfærðar verði leiðir til að hvetja aðila til að gera upplýsingar um leiguverð og lengd leigusamninga aðgengilegar. Þetta yrði t.d. gert með því að binda skattaafslátt vegna langtímaleigu við skráningu í gagnagrunn.
Í umfjöllun um úrbætur og einföldun í skipulagsmálum er m.a. lagður til sá kostur að í skipulagslöggjöf verði skilgreint og heimilt að útbúa íbúðarhúsnæði til skammtímanota á athafnasvæðum. Enn fremur verði heimilt að reisa skammtímahúsnæði til að bregðast við tímabundnum vanda.
Tilgangur slíkra heimilda yrði sá að vinna gegn búsetu í óviðunandi og ósamþykktu húsnæði, mæta þörf vegna tímabundinnar búsetu o.fl.