Þórdís Jóhannesdóttir fæddist 5. ágúst 1938. Hún lést 11. janúar 2019.
Útför Þórdísar fór fram 21. janúar 2019.
Enn einu sinni leitar hugur til míns kæra Reyðarfjarðar þar sem allt var í raun samofið, fólkið, náttúran, fjöllin og særinn.
Enn einu sinni höfum við misst eina þeirra, sem svo lengi var þátttakandi í samfélaginu okkar, hana Þórdísi sem var oft kennd við manninn sinn enda þau sem eitt: Dísa Óskars, en fáa veit ég sem dáðu samfélag manna og umhverfis eins og þau hjón, Óskar einstakur í því efni og hún Dísa honum samferða í því sem öðru.
Það voru alltaf viss tíðindi þegar bættist í hópinn heima, Reyðfirðingurinn leitaði heimahaga á ný og gerði betur, því hann færði okkur með sér borgfirzku heimasætuna og mikil samfélagsleg gjöf voru þau hjón, ef ég má orða það svo.
Hún Dísa var afar vel gerð kona og virkilega gaman að kynnast henni, hún var dansandi kát og hress, syngjandi glöð á góðum stundum. En hún var líka ákveðin, hjá henni þýddi nei nei og já já, engar vöflur eða annaðhvort eða. Þannig kynntist ég henni þegar ég var að fá Óskar í framboð til sýslunefndar, hún þess mjög fýsandi, vissi um hina góðu eiginleika síns manns og það tókst. Og ég man enn þegar ég færði þeim fregnina um að hann hefði verið kjörinn í sýslunefnd, hún svo innilega fagnandi fyrir hans hönd, en Óskar lét sem ekkert hefði svo sem gerzt, en smitaðist brátt af gleði konu sinnar.
Hún Dísa var einlæg og sönn þar sem hún tók því en fjarri því að hún væri allra. Ég geymi í minni mínu stundir heima fyrir þorrablót þegar ég fékk að heyra hinar snjöllu tækifærisvísur Óskars og oft var viðkvæðið: Hún Dísa stakk upp á þessu vísuefni, Dísa veit um svo margt skemmtilegt sem skeð hefur. Og það mun mála sannast að þessi greindarkona góðra eiginda hefði næmt auga fyrir því skemmtilega í lífinu.
Hún Dísa, sveitastelpan frá Ferjubakka, var hörkudugleg að hverju sem hún gekk og það munaði aldeilis um handtökin hennar og gjöfular voru þær hendur við hvað það sem fengist var við.
Ég kynntist henni Dísu líka í gegnum tvö af hennar vel gerðu börnum Önnu Heiðu og Hrein Ágúst, með þeim fylgdist hún af stakri umhyggjusemi og móðurkærleika, nokkuð sem er eitt skilyrða fyrir góðum námsárangri, enda bæði tvö indælir afbragðsnemendur.
Það er með ólíkindum hversu mörgum er enn fórnað á altari krabbans þrátt fyrir blessunarlegar framfarir læknavísindanna.
Þórdís vinkona okkar var ein þeirra sem krabbinn sigraði.
Henni er nú þökkuð kær samfylgd á sinni tíð og börnum hennar og öðrum afkomendum einlægar samúðarkveðjur sendar frá okkur Hönnu. Blessuð sé björt minning hennar Þórdísar.
Helgi Seljan.