Konulandslag Danshöfundurinn Anna Kolfinna Kuran æfði gjörninginn í gærkvöldi með hópi kvenna.
Konulandslag Danshöfundurinn Anna Kolfinna Kuran æfði gjörninginn í gærkvöldi með hópi kvenna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Konulandslag er heiti gjörnings sem danshöfundurinn Anna Kolfinna Kuran fremur ásamt hópi kvenna í Mengi við Óðinsgötu í kvöld, föstudag, klukkan 21.
Konulandslag er heiti gjörnings sem danshöfundurinn Anna Kolfinna Kuran fremur ásamt hópi kvenna í Mengi við Óðinsgötu í kvöld, föstudag, klukkan 21. Verður það nýjasti gjörningurinn og tilraun Önnu Kolfinnu í samnefndu langtíma rannsóknarverkefni, þar sem hún, samkvæmt tilkynningu, „skoðar, skapar og ber kennsl á hin ýmsu landslög kvenna í samfélaginu. Í verkefninu vinnur hún með hugmyndir um rými og kvenlíkamann, hvar og hvernig hann birtist og hvar hann er ósýnilegur. Hvar eru konur velkomnar og öruggar og hvar eru þær óvelkomnar? Hvar er rými fyrir konur og hvar þurfa þær að gera innrás til þess að vera með? Að þessu sinni verður lögð sérstök áhersla á sambönd og tengsl kvenna gegnum kynslóðir og samstöðu.“

Blaðamaður varð fyrir tveimur árum vitni að gjörningi Önnu Kolfinnu í New York, þar sem hún gekk ásamt hópi annarra kvenna hægt og í hnapp um götur neðarlega á Manhattan og var þar um þátt í mastersverkefni hennar að ræða. Hún segist síðan hafa unnið áfram með það verkefni á ýmsum stöðum og er gjörningurinn í kvöld hluti af því.

„Í þessu rannsóknarverkefni mínu er ég að skoða rými og kyn og tengslin þar á milli. Sérstaklega konur í því samhengi og hvar þær upplifa að það sé ekki pláss fyrir þær. Og í sögulegu samhengi hefur oft ekki verið pláss fyrir konur; þó að upp á síðkastið hafi mjög margt breyst held ég að þetta sjáist ennþá, til að mynda í atvinnulífinu. Sýnileiki kvenna er líka áhugaverður út frá umræðu síðustu daga um málverkin í Seðlabankanum – konur hafa lengi verið til sýnis en ekki endilega sýnilegar. Ég geri greinarmun þar á.“

Anna Kolfinna segir að í gjörningnum í kvöld langi hana til að taka Mengi yfir og fylla rýmið af konum. „Þetta er einföld hugmynd og til að það náist hef ég fengið stóran hóp af ótrúlegum konum til að taka þátt. Ég vona að töfrarnir felist að hluta í því hvað við verðum margar. Mengi er tiltölulega lítið rými svo ég vonast til að þetta verði sterkt.“

Þurfa karlar þá að standa úti og fylgjast með gegnum gluggann?

„Nei,“ svarar hún og hlær. „Karlar eru mjög velkomnir sem áhorfendur. Allir eru velkomnir. En við flytjendurnir erum bara konur og reynum að eigna okkur þetta svæði í eina kvöldstund.“

Anna Kolfinna kýs að nota gjörninginn sem miðil sinn í umfjöllun um ákveðna kynjapólitík en hún skilgreinir sig sem danshöfund.

„Einhverjum finnst ég kannski ekki vera að gera dansverk og það er allt í lagi. Ég er með dansbakgrunn og lít á þetta sem dansverk. Ég er að vinna með kóreógrafíu, er með marga líkama og breyti hreyfingum hópsins inni í Mengi við að fylla inn í rýmið og búa til munstur.“ efi@mbl.is