Dúó Elísabet Waage og Laufey Sigurðardóttir hafa unnið lengi saman.
Dúó Elísabet Waage og Laufey Sigurðardóttir hafa unnið lengi saman.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Um 30 verk verða heimsfrumflutt á hátíðinni í ár auk þess sem nokkur verk verða Íslandsfrumflutt,“ segir Gunnar Karel Másson, listrænn stjórnandi nútímatónlistarhátíðarinnar Myrkra músíkdaga (MM), sem hefst á morgun og stendur til 2. febrúar. Markmið hátíðarinnar, sem Tónskáldafélag Íslands stofnaði til 1980, er að sögn Gunnars að flytja og kynna samtímatónlist með áherslu á nýja, íslenska tónlist og flytjendur í bland við erlend verk og flytjendur.

„Í ár bjóðum við upp á rúmlega 20 viðburði á 14 ólíkum tónleikastöðum á einni viku,“ segir Gunnar, en um er að ræða Iðnó, Gamla bíó, Hallgrímskirkju, Fríkirkjuna í Reykjavík, Hafnarborg, húsnæði tónlistardeildar LHÍ í Skipholti 31, Norræna húsinu, Mengi, Húrra, Hannesarholt, Hafnarhúsið og þrjú ólík rými Hörpu.

„Við ákváðum að lengja hátíðina í viku í ár til að prufukeyra slíkt skipulag fyrir næsta ár þegar 40 ár verða liðin frá stofnun hátíðarinnar með tilheyrandi hátíðarhöldum,“ segir Gunnar og rifjar upp að á upphafsárum hátíðarinnar hafi hún yfirleitt staðið í tvær viku. „Lengi vel stóð hún síðan í viku, en þegar hún flutti öll inn í Hörpu um tíma styttist hún niður í þrjá daga til að halda kostnaði í lágmarki,“ segir Gunnar og bendir á að annað árið í röð sé hátíðin haldin víðs vegar um borgina, þó nokkrir viðburðir fari enn fram í Hörpu, þ.m.t. tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. „Draumur okkar er að hátíðin verði haldin víðs vegar um höfuðborgarsvæðið, enda búa tónskáldin ekki öll í miðbænum,“ segir Gunnar og nefnir í því samhengi að ánægjulegt sé að hluti hátíðarinnar fari fram í Hafnarborg í tengslum við sýninguna Hljóðön – sýning tónlistar sem þar verður opnuð á morgun.

Líkt og í fyrra verða flestallir tónleikar hátíðarinnar um klukkutími að lengd og dagskránni stillt þannig upp að hátíðargestir eiga að geta mætt á alla tónleika. Á vefnum darkmusicdays.is má finna ítarlega dagskrá og upplýsingar um flytjendur. Þar má einnig nálgast hátíðarpassa fyrir 15 þús. kr. Miðaverð á staka tónleika er á bilinu 1.500-4.500 kr. en ókeypis er á nokkra viðburði.

Að sögn Gunnars eykst aðsókn listamanna í hátíðina sífellt milli ára, í ár bárust um 350 umsóknir en voru 300 í fyrra. „Sem fyrr er markmið okkar að hækka hlutfall kventónskálda og fer það upp í 37,4% í ár en var 30% í fyrra,“ segir Gunnar og tekur fram að við val á flytjendum sé einnig horft til þess að fjölbreytnin sé mikil.

Algjör hvalreki fyrir hátíðina

Myrkir músíkdagar verða formlega settir í Norræna húsinu á morgun kl. 19. Á sama stað kl. 20 frumflytur tónlistarhópurinn The Riot Ensemble „Solstices“ eftir Georg Friedrich Haas, en tónskáldið verður viðstatt og situr fyrir svörum að tónleikum loknum. „The Riot Ensemble er ein af leiðandi kammersveitum á Bretlandi. Þau pöntuðu verkið eftir Haas sem er prófessor í tónsmíðum við Columbia-háskóla og í topp fimm af lifandi nútímatónskáldum. Það er því algjör hvalreki fyrir hátíðina að fá heimsfrumflutning á verki eftir hann,“ segir Gunnar og bendir á að verkið verði flutt í algjöru myrkri.

Tvennir tónleikar verða í boði á sunnudag. Schola cantorum Íslandsfrumflytur „Requiem“ eftir Alfred Schnittke og frumflytur verk eftir Sigurð Sævarsson í Hallgrímskirkju kl. 16 undir stjórn Harðar Áskelssonar. Tónlistarhópurinn Kúbus kemur fram í Fríkirkjunni í Reykjavík kl. 20 og frumflytur verk eftir Hauk Tómasson og Kolbein Bjarnason. „Í verkum Hauks er skírleikinn og einfaldleikinn í fyrirrúmi meðan meira flúr er áberandi í verkum Kolbeins,“ segir Gunnar og bendir á að Kolbeinn sé í raun ungt tónskáld þar sem hann hafi ekki snúið sér að tónsmíðum fyrr en eftir langan og farsælan feril sem tónlistarflytjandi. „Það er mjög áhugavert að sjá svona þroskaðan listamann og tónlistarflytjanda takast á við nýtt hlutverk sem tónskáld.“

Ungir flytjendur fá pláss

Þriðjudaginn 29. janúar kemur Dúplum Dúó, sem Björk Níelsdóttir, söngkona og tónskáld og Þóra Margrét Sveinsdóttir víóluleikari skipa, fram í Iðnó kl. 20 og frumflytur verk eftir ung íslensk og hollensk tónskáld. „Mér finnst mikilvægt að hátíðin gefi ungum flytjendum pláss til að flytja tónlist sinnar kynslóðar. Þetta verða mjög áhugaverðir tónleikar, enda eru þær báðar frábærir flytjendur,“ segir Gunnar.

Miðvikudaginn 30. janúar kl. 20 heldur Hið íslenska gítartríó tónleika á neðri hæð Hafnarborgar þar sem frumflutt verða verk eftir m.a. Hildigunni Rúnarsdóttur og Svein Lúðvík Björnsson. „Okkur fannst spennandi að gítartónlist væri flutt á hátíðinni, en gítarinn á það stundum til að gleymast. Það getur verið mjög flókið að skrifa samtímatónlist fyrir gítarinn og því nauðsynlegt að tónskáldin þekki hljóðfærið vel.“

Fimmtudaginn 31. janúar efnir Rannsóknarstofa í tónlist (RíT) við tónlistardeild LHÍ í samstarfi við Myrka Músíkdaga og tónleikaröðina Hljóðön til málstofu um listrannsóknir í tónlist undir stjórn Marko Ciciliani og Barböru Lüneburg í stofu S304 í húsnæði tónlistardeildar Listaháskóla Íslands í Skipholti 31 milli kl. 13 og 15. Þess má geta að þau koma fram á tónleikum í Hafnarborg 2. febrúar kl. 16.

Mikilvægt samstarf

Zoë Martlew kemur fram í Kaldalóni Hörpu 31. janúar kl. 17.30 og flytur verk eftir m.a. Daníel Bjarnason, Bjørn Fongaard og Juliönu Hodkinson. „Ég hef unnið náið með Zoë frá 2014, bæði skrifað fyrir hana og pródúserað tónleika með henni,“ segir Gunnar en Zoë Martlew kom fram á Jaðarber-tónleikaröðinni 2014. „Hún er ein af samtímatónlistarsellistum Bretlandseyja, en hefur komið víða við í tónlistinni og m.a. setið í dómnefnd Eurovision þar í landi. Hún var DIVA í Danmörku, sem er skammstöfun fyrir Danish International Visiting Artist og kynntist þar danskri og norrænni samtímatónlist sem unnið er með á þessum tónleikum,“ segir Gunnar og bendir á að tónleikarnir séu hluti af PULS-verkefninu. „PULS, sem Myrkir músíkdagar urðu hluti af í fyrra, er norrænt tengslanet fjármagnað af Norræna menningarsjóðnum.“

Klukkan 18.30 sama dag ræðir Árni Heimir Ingólfsson, listrænn ráðgjafi SÍ, við Önnu Þorvaldsdóttur í Hörpuhorni og er aðgangur er ókeypis. Anna er staðartónskáld SÍ og höfundur Metacosmos sem SÍ Íslandsfrumflytur á tónleikum sínum í Eldborg Hörpu kl. 19.30 sama dag undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Á sömu tónleikum kemur Ungsveit SÍ og Kór LHÍ fram í Íslandsfrumflutningi á verkinu Handsfree eftir Önnu Meredith. Einnig verða frumflutt verk eftir Veronique Vöku, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og konsert eftir Pál Ragnar Pálsson fyrir flautu og fagott auk þess sem flautukonsert eftir Þuríði Jónsdóttur verður fluttur. Einleikarar eru Hallfríður Ólafsdóttir og Mario Caroli á flautu og Martin Kuuskmann á fagott. „Við erum gífurlega þakklát fyrir samstarfið við SÍ sem hefur staðið frá upphafi hátíðarinnar, því það hefur mikla þýðingu að geta boðið upp á sinfóníska tónleika á hátíðinni þar sem það eykur breiddina í verkefnavali.“

Framúrstefnulegt stuð

Síðasti viðburður fimmtudagsins eru tónleikar Neko3 í Hörpuhorni kl. 22 og er aðgangur ókeypis. „Neko3 er vonarstjarna danskrar samtímatónlistar,“ segir Gunnar og bendir á að hópurinn leitist við að blanda hljóðum píanósins og hljómborðsins við fjölbreyttan hljóðheim slagverkshljóðfæra. „En á sama tíma eru rafhljóð mikilvægur hluti af hljóðheimi þeirra.“

Föstudaginn 1. febrúar kl. 12 verða í Norðurljósum uppskerutónleikar Yrkju sem er samstarfsverkefni Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og ýmissa tónlistarstofnana og tónlistarhópa. Þar stjórnar Bjarni Frímann Bjarnason frumflutningi á verkum eftir Hauk Þór Harðarson og Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur.

Klukkan 17 sama dag treður Heiða Árnadóttir upp í Mengi og frumflytur verk eftir Þórunni Björnsdóttur, Ásbjörgu Jónsdóttur og Guðmund Stein Gunnarsson. „Tónskáldin eru öll á svipuðum aldri og gaman að heyra afraksturinn þegar fulltrúum einnar kynslóðar er stefnt saman með eitt þema sem er mannsröddin,“ segir Gunnar.

Caput Ensemble leikur undir stjórn Guðna Franzsonar í Kaldalóni kl. 19 sama dag og frumflytur verk eftir Hauk Tómasson, Gunnar A. Kristinsson og Huga Guðmundsson, og Íslandsfrumflutningur verður á verki eftir Pál Ragnar Pálsson.

Sama dag kl. 20.30 verða í Iðnó tónleikar undir yfirskriftinni Leifar Ríkissambandsins. „Þar blanda Jesper Pedersen frá Danmörku og Heðin Ziska Davidsen frá Færeyjum saman hljóðheim einingahljóðgervla við hljóðritun af Inúíta-trommudansi eftir Miké Thomsen í sérstakri spuna-tónlistarsýningu, sem er mjög spennandi,“ segir Gunnar en tónleikarnir eru unnir í samstarfi við Nordic Culture Point.

Klukkan 22 koma Nordic Affect & Maja S. K. Ratkje fram í Gamla bíói og frumflytja „Rökkur“ eftir Ratkje. „Maja er leiðandi í hópi kvenraftónlistarfólks á Norðurlöndum og hefur lengi veitt yngri kynslóðum tónskálda mikill innblástur.“

Lokatónleikar föstudagsins verða á Húrra kl. 23.30 þar sem rafeinyrkjarnir SiGRÚN & Allenheimer koma fram. „Þau munu bjóða upp á framúrstefnulegt stuð.“

Fyrstu tónleikar lokadags hátíðarinnar 2. febrúar verða í Hannesarholti kl. 13 þar sem Elísabet Waage hörpuleikari og Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari flytja verk eftir Tryggva Baldvinsson, Mist Þorkelsdóttur, Magnús Blöndal Jóhannsson og Báru Grímsdóttur.

Allir og amma þeirra

Myrkrabörn er yfirskrift barnatónleika í Kaldalóni kl. 14. „Guðrún Hrund Harðardóttir víóluleikari og Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari bjóða áheyrendum að upplifa frumflutning nokkurra verka, heyra skrítin hljóð, óhljóð, umhverfishljóð, pirrandi hljóð og fallega tóna sem gleðja eða gera mann ef til vill dapran,“ segir Gunnar og bendir á að tónleikarnir hafi verið unnir í samvinnu við hóp nemenda í Vesturbæjarskóla.

Lilja María Ásmundsdóttir og Berglind María Tómasdóttir flytja eigin verk á tónleikum í Hafnarhúsi kl. 15.30. „Þær eiga það sameiginlegt að vera uppfinningamanneskjur og hafa búið til sín eigin hljóðfæri. Það verður því spennandi að heyra afraksturinn.“

Rafblandarinn er yfirskrift tónleika í Kaldalóni kl. 18. „Þar verður Ríkharður H. Friðriksson með rafgítarspuna,“ segir Gunnar og bendir á að fluttur verði kvartett eftir Niels Lyhne Løkkegaard fyrir gullpeninga og hljóðgervla.

Kammersveit Reykjavíkur leikur í Kaldalóni kl. 21 undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar verk eftir m.a. Önnu Þorvaldsdóttur og Helga Rafn Ingvarsson. „Helgi er nýfluttur heim að loknu doktorsnámi í Englandi og því spennandi að heyra eftir hann nýtt verk,“ segir Gunnar.

Lokatónleikar Myrkra músíkdaga þetta árið verða á Húrra kl. 23.30 og eru í höndum rafeinyrkjanna DJ Motherfunker og Arma Agharta. „Allir og amma þeirra verða að mæta og sjá Arma Agharta. Hann mun flytja dadaískan helgisiðagjörning þar sem raddir, gömul raftæki, búningar, hlutir og athafnir verða í fyrirrúmi. Þetta er nokkuð sem enginn á Íslandi hefur séð áður.“