Teitur Jensson fæddist 9. maí 1929 í Selárdal. Hann lést á Hrafnistu DAS Boðaþingi 9. janúar 2019. Foreldrar hans voru Jens Gíslason (1891-1949) og Ingveldur Benediktsdóttir (1898-1963). Systkini hans voru Sigurfljóð Guðmunda, f. 1919, Gísli Ragnar, f. 1921, Benedikta Ragnhildur, f. 1924, Davíð Kristján, f. 1926, og Ólafía Sigríður, f. 1937, þau eru öll látin.
Teitur var verslunar- og skrifstofumaður í Reykjavík, starfaði lengst hjá Olíufélagi Íslands. Eftirlifandi eiginkona Teits er Elsie Sigurðardóttir, f. 1936. Foreldrar hennar voru Sigurður Marteinsson (1899-1977) og Vilborg Jónsdóttir (1902-1970).
Teitur og Elsie eignuðust tvö börn, Sigmar, f. 1954, og Vilborgu, f. 1956. Eiginkona Sigmars er Hafdís Hlöðversdóttir og eiga þau fjögur börn. Eiginmaður Vilborgar er Helgi Valtýr Sverrisson og eiga þau tvö börn.
Útför Teits fer fram frá Digraneskirkju í dag, 25. janúar 2019, klukkan 13.
Að leiðarlokum viljum við systkinin þakka fyrir ástina, uppeldið og vinskapinn sem öðlingurinn hann pabbi hefur sýnt okkur alla ævi. Hann og mamma voru dugleg að fara í ferðalög um landið með okkur í aftursætinu með Andrésblöðin. Allar sundlaugar og kirkjur heimsóttar. Þá standa helst upp úr ferðirnar í Selárdalinn en pabbi var fyrst og fremst Seldælingur. Hann skipti einhvern veginn um göngulag þegar þangað var komið, spilaði á nikku sagði sögur úr dalnum bæði um fólk, byggingar og kennileiti, við börn, tengdabörn og barnabörn nutum góðs af. Kirkjan í Selárdal var einhvern veginn hans, þar kenndi afi honum á orgelið og þar æfði hann nýjustu lögin áður en farið var að spila á böllum. Mikill töffari, hann pabbi.
Hann var forsöngvari, veislustjóri og ræðumaður hvar sem hann kom. Við kveðjum og þökkum enn og aftur og syrgjum heiðursmanninn hann pabba.
Sigmar og Vilborg.
Óteljandi eru sumarbústaðaferðirnar nú og sumarfríin bæði hér heima og erlendis. Tjaldvagninn ET var aldrei langt undan og það sem hann nennti að sækja og skila var með ólíkindum. Flottustu ferðirnar voru óneitanlega í ástkæra Selárdalinn þar sem afi þekkti hverja þúfu. Við fórum einmitt síðustu ferðina okkar þangað sumarið 2010 og þar sýndi hann okkur einu sinni enn allt sem honum var svo kært. Kirkjan, tónlistin og gleðin stóðu honum ávallt ofar en erfiðið við að alast upp þarna eins og okkur fannst, á hjara veraldar. Þar sem ekki þótti tiltökumál að skreppa gangandi yfir í næsta fjörð til að spila á balli.
Ég hef verið einstaklega heppin að eiga þau að og undanfarið að sitja með ömmu að segja sögur – alveg yndislegt. Takk fyrir mig, elsku afi. Hlakka til að dansa með þér næst. Þín
Elsí Rós.
Smelltu einum á kinnina hans Gústa þegar þið hittist.
Bænin er það fegursta og besta
sem í brjósti mínu bærist.
Háleitari en sú hugsun
sem í höfðinu hrærist.
Sem andvörp
til himneskrar fegurðar þær flögra.
Um loftið þær líða
sem friðarins fuglar
og brúa þar bil.
Hjartað mýkist
og sjónarhornið
verður í senn
skýrara og mildara.
Þá kærleikurinn ljúflega
mig tekur að aga
og benda mér á leiðir
sem best er að fara.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Katrín Sólveig
og börn.
Minningar liðinna ára, allar ljúfar og skemmtilegar, birtast hver af annarri.
Samverustundir hjónaklúbbsins okkar, stofnaður 1961, urðu óteljandi á heimilum sex hjóna bæði hér á Reykjavíkursvæði, sem og á Akureyri á meðan heilsa leyfði. Teitur hrókur alls fagnaðar með sína góðu söngrödd og léttu lund.
Á Akureyri var framan af dvalið í „Essohúsinu“ og heima hjá Ellu og Magga. Síðar í Sæluhúsum Akureyrar. Alltaf gaman saman. Ógleymanlegar útilegur, sem farnar voru meðan börnin voru yngri hvort sem farið var í Þjórsárdalinn, Skorradalinn eða í Galtalæk. Því miður fórum við aldrei í Selárdalinn, ótrúlegt en satt, þangað sem hugur hans leitaði ekki hvað síst nú síst síðustu misserin. Ekki má gleyma laufabrauðsbakstrinum sem setti svip sinn á jólaundirbúninginn og var Teitur með allt til ársins 2016.
Eins er gott að minnast samveru hins ljúfa lífs seinni ára á Gran Canaria.
Það er svo gott að eiga góðar minningar þegar við kveðjum tryggan og góðan vin, sem Teitur var alla tíð. Þær ylja svo sannarlega og minnka söknuðinn.
Við fimm, sem lifum hann þökkum honum samfylgdina í 60 ár plús.
Við biðjum góðan Guð að vaka yfir Elsi, Sigmari, Vilborgu og fjölskyldum þeirra
Blessuð sé minning þín, elsku vinur, Guð geymi þig.
Bergþóra, Einar, Jón,
Elín og Magnús.
Hann var fæddur í Selárdal við Arnarfjörð og þar átti hann sínar rætur og heimsótti hann æskustöðvar sínar eins oft og hann gat. Þar fannst honum gott að vera og þar naut hann útiverunnar milli vestfirskra fjalla. Hann hafði yndi af útiveru og ferðaðist bæði innanlands og utan og áttum við þess kost að ferðast með honum bæði hér heima og erlendis.
Hann var góður sögumaður enda vel lesinn og sjófróður og ekki síður góður söngmaður og var oftar en ekki forsöngvari á gleðistundum.
Við Teitur kynntumst árið 1954 þegar hann hóf störf hjá Vinnufatagerð Íslands hf. og við, sex starfsmenn þess fyrirtækis, sameinuðumst um að byggja raðhúsalengju við Skeiðarvog sem við byrjuðum á vorið 1957. Við unnum nánast að öllu leyti sjálfir í okkar frítíma og velvilji ráðamanna fyrirtækisins hjálpaði okkur mikið við þá framkvæmd. Þar skapaðist sá vinskapur og sú vinátta meðal okkar og fjölskyldna sem hefur haldist alla tíð síðan. Við bygginguna æxlaðist það þannig að við Teitur unnum alltaf saman og aldrei kom upp missætti á milli okkar eða félaga okkar og betri manni en Teit get ég ekki hugsað mér að vinna með. Þetta samfélag var eins og ein fjölskylda og eftir að allir voru fluttir inn var oft glatt á hjalla í raðhúsalengjunni og var Teitur oftar en ekki prímus mótor í þeirri gleði.
Ég minnist þess að á gamlárskvöld voru allar útidyr opnar og mikil gleði ríkti á stéttinni framan við húsin.
Teitur gekk í félagið AKÓGES í Reykjavík 1955 og gegndi hann þar öllum trúnaðarstörfum og var alla tíð einn af máttarstólpum þess félags bæði í leik og í starfi. Við félagarnir erum í mikilli þakkarskuld við hann fyrir allt það starf og allan þann tíma sem hann vann fyrir félagið. Teitur var heiðursfélagi í AKÓGES.
Margt er það og margt er það
sem minningarnar vekur,
og þær eru það eina
sem enginn frá mér tekur.
(Davíð Stefánsson)
Við kveðjum góðan vin og þökkum honum samfylgdina.
Elsku Elsie, Sigmar, Vilborg og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Lilja og Klemenz.