Innherjar Frá málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni.
Innherjar Frá málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. — Morgunblaðið/Eggert
Arnar Þór Ingólfsson athi@mbl.is Grímur Sigurðarson, verjandi Kjartans Bergs Jónssonar, fór í gær fram á að skjólstæðingur sinn yrði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í innherjasvikamálinu í Icelandair.

Arnar Þór Ingólfsson

athi@mbl.is

Grímur Sigurðarson, verjandi Kjartans Bergs Jónssonar, fór í gær fram á að skjólstæðingur sinn yrði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í innherjasvikamálinu í Icelandair. Málið var lagt í dóm í gær eftir tveggja daga aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Sagði Grímur m.a. að málatilbúnaður ákæruvaldsins gegn skjólstæðingi sínum hefði allur verið í skötulíki og óskiljanlegur og að hann hefði íhugað að láta reyna á frávísun málsins. Sagði Grímur það vera lágmark að ákæruvaldið sýndi fram á að annar af þeim þremur sem ákærðir væru í málinu, Kristján Georg Jósteinsson, sem sagður er hafa ráðlagt Kjartani Bergi að gera þessi viðskipti, hafi haft aðgang að einhverjum innherjaupplýsingum. Það hefði ekki verið gert.

Að loknum málflutningi Gríms veitti Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari andsvör við málflutningi verjendanna í málinu. Sagði hann meðal annars þær upplýsingar sem Kjartan Jónsson, þriðji ákærði, bjó yfir uppfylla öll hugtakaskilyrði innherjaupplýsinga, að því leyti að þær væru nægilegar til þess að hafa áhrif á hlutabréfaverð.

Að loknum andsvörum saksóknara og svo verjenda var málið lagt í dóm, en málið er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi.