Alþjóðlega badmintonmótið Iceland International 2019, fyrsta keppnisgrein Reykjavíkurleikanna í ár, hófst í TBR-húsunum í gær með undankeppni. Davíð Örn Harðarson komst einn Íslendinga í gegnum hana í einliðaleik karla en engin íslensk kona komst áfram í einliðaleik kvenna. Aðalkeppnin hefst í dag klukkan 9 og Kári Gunnarsson er fremstur í flokki fimm Íslendinga í 32ja manna úrslitum karla en honum er stillt upp sem sterkasta keppandanum. Í kvennaflokki eru sex íslenskar konur í 32ja manna úrslitum en engri þeirra er raðað meðal þeirra bestu. Keppni stendur yfir til kl. 19.30 í kvöld en einnig er keppt í tvíliðaleik og tvenndarleik. Mótinu lýkur á sunnudag. vs@mbl.is