Brisbane Hjónin Hafsteinn og Arndís Magnúsdóttir. Miðbærinn í baksýn.
Brisbane Hjónin Hafsteinn og Arndís Magnúsdóttir. Miðbærinn í baksýn.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Hafsteinn Filippusson, húsgagnasmiður í Ástralíu, hefur bjargað mörgum íslenskum sjónvarpsupptökum frá glötun og sett þær inn á Youtube, þar sem þær eru öllum aðgengilegar.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hafsteinn Filippusson, húsgagnasmiður í Ástralíu, hefur bjargað mörgum íslenskum sjónvarpsupptökum frá glötun og sett þær inn á Youtube, þar sem þær eru öllum aðgengilegar. „Þetta hefur almennt mælst vel fyrir enda er tilgangurinn að bjarga verðmætum,“ segir hann.

Hjónin Hafsteinn og Arndís Magnúsdóttir fluttu með tvær dætur og tvo syni til Tamborine í Queensland í Ástralíu, um 60 km frá Brisbane, árið 1980. Þau eru öll þar enn fyrir utan yngri dótturina. „Hún ætlaði að skoða heiminn fyrir um 25 árum, byrjaði á því að fara til Vancouver í Kanada, en fór aldrei lengra og settist þar að,“ segir Hafsteinn.

Undanfarin 20 ár hefur hann rekið fyrirtækið Steinco í aðstöðu heima en áður átti hann fyrirtækið Filippusson Cabinetmaking, sem síðar var breytt í Deskmasker & Chairmasters í Brisbane, rak það í um 19 ár og var mest með 45 manns í vinnu við að smíða skrifstofuhúsgögn. „Flestir á mínum aldri eru hættir að vinna, en ég vil ekki breyta lífinu þótt árunum fjölgi,“ segir Hafsteinn, sem verður 77 ára í ár.

Fékk sendar spólur frá Íslandi

Eftir að þau fluttu til Ástralíu sendi faðir Hafsteins, Filippus Þorvarðarson, honum reglulega vídeóspólur með efni sem hann hafði tekið upp úr íslensku sjónvarpi. „Af rælni fór ég að leika mér að því að koma þessu á stafrænt form og setja inn á Youtube, vann við það á hverju kvöldi í sjö ár frá 2008,“ segir hann.

Fyrst notaði Hafsteinn nafnið Humperdinkus á Youtube og þar eru nú á 1.200 hundrað titlar og tæplega 3.000 áskrifendur. Hann segir að ýmsir hafi hvatt sig til þess að halda áfram en aðrir hafi viljað stöðva útbreiðsluna og hann hafi verið kærður fyrir stuld á efni og höfundarrétti. Þá hafi Youtube haft lokað á hann í eitt ár. „Mér þótti það leiðinlegt enda segi ég á síðu minni að telji fólk sig eiga höfundarréttinn á efninu skuli það senda mér línu og ég þurrka það út.“ Seinna stofnaði hann síðurnar MeNicelander, þar sem sjá má tæplega 100 myndbönd og Saegrjot, þar sem eru tæplega 1.000 myndbönd og yfir 2.000 áskrifendur. „Þegar ég byrjaði skrifaði ég útvarpsstjóra og spurði hvort hann hefði eitthvað við þetta að athuga. Mér var ekki svarað og því fór ég að ráðum ömmu minnar sem sagði alltaf að þögn væri sama og samþykki.“

Á síðum Hafsteins er margvíslegt efni eins og til dæmis tónlistarmyndbönd, skemmtiþættir, fræðsluefni, leikrit, fréttir, viðtöl og ávörp forystumanna. „Um 305.000 hafa skoðað myndband um Mikka ref úr Dýrunum í Hálsaskógi,“ segir hann. „Það segir mér að einhverjir noti efnið sem barnapössun.“ Hann bætir við að starfsmaður Ríkisútvarpsins hafi haft samband fyrir um tveimur árum og spurt hvort hann ætti meira fréttaefni. „Á tímabili fleygði Sjónvarpið miklu efni eða tók yfir það, en seinna sáu menn að þarna höfðu verið gerð mistök,“ segir Hafsteinn og leggur áherslu á að hann hugsi fyrst og fremst um að varðveita efnið.

„Ég hef hægt á niðurhalinu en er ekki hættur og hef nóg að gera þegar ég hætti að vinna,“ segir Hafsteinn. Bendir loks á að þegar hann hafi verið skírður hafi kunningi föður síns sagt: „„Jæja, heitir hann þá Sægrjót.“ Þannig varð nafnið á síðunni til.“ Og hlær þar til símtalið rofnar.