Elías Elíasson
Elías Elíasson
Eftir Elías Elíasson: "Þriðji orkupakkinn mun veita ESB raunyfirráð yfir íslenskum auðlindum sem gera eignarrétt okkar að sýndarrétti þegar fram líða stundir."

Stundum slá menn fram fullyrðingu sem andmælandinn veit ekki hvort heldur er spuni eða vanþekking og þagnar því kurteislega. Það er slæmt ef ráðuneyti viðhafa slíkan málflutning.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið setti nýlega á heimasíðu sína spurningar og svör um þriðja orkupakka ESB. Þar er sett fram spurningin: „Eykur þriðji orkupakkinn líkur á orkuskorti og hærra orkuverði?“ Svarið hefst þannig: „Þessi ályktun hefur verið rökstudd með því að með þriðja orkupakkanum séu innleidd markaðslögmál sem muni auka líkur á skorti og þannig hækka verð. En íslenski orkumarkaðurinn var markaðsvæddur með raforkulögum 2003.“

Hér virðist ráðuneytið rugla saman annars vegar markaðslögmálunum, sem gilda í öllum samfélögum og hins vegar lögum og reglum ESB ásamt formi markaðarins sem saman afmarka samkeppni svo tækifæri og hvatar verði hagkvæm notendum við þær aðstæður sem þar ríkja. Síðan slær ráðuneytið tunnuna í stafi með orðum sínum um markaðsvæðingu með orkulögum 2003. Að upplýsa þetta skipti engu máli varðandi spurninguna, en setur textann í svo tvístrað samhengi, að lesandinn stendur eftir í forundran. Það er útilokað að sjá hvort hér er á ferðinni spuni eða svo víðtæk vanþekking, að því verður ekki trúað upp á fagráðuneyti. Svipað sést í fleiri svörum.

Ráðuneytið virðist ekki skynja breytinguna frá stefnu framkvæmdastjórnar ESB í tilskipuninni sem innleidd var hér með orkulögunum 2003 til þeirrar stefnu sem boðuð er með þriðja orkupakkanum. Þar er horfið er frá því að láta hvert ríki um að aðlagast stefnu innri markaðarins eftir aðstæðum og hagsmunum hvers og eins, en í stað þess skal veita framkvæmdastjórninni síaukið vald til miðstýringar. Þetta er grundvallarbreyting.

Þegar orkulögin voru samþykkt 2003 voru rafmarkaðir með allt öðru sniði en nú. Samkvæmt þeim lögum virtist vera svigrúm til að koma á frjálsum uppboðsmarkaði með formi sem gæti gengið upp hér, en svo er ekki lengur. Með þriðja orkupakkanum kemur landsreglari í öllum ríkjum ESB, sem hvarvetna gegnir því hlutverki að vera reglusetningararmur ACER. Ein meginskylda hans hér verður að vinna að uppsetningu á frjálsum markaði með sömu reglum og formi og nú er á rafmörkuðum ESB, en þeim mörkuðum er lýst í grein undirritaðs, „Rafmagn til heimila og útflutnings á markaði“, á heimasíðu HHÍ, hhi.hi.is/vinnupappírar. Með fyrirkomulagi núverandi rafmarkaða Evrópu eru markaðslögmál virkjuð í þágu notenda ESB, en ekki okkar. Niðurstaðan greinarinnar er, að vegna sérstöðu íslenska orkukerfisins þá virkjast þessi sömu markaðslögmál ekki í þágu íslenskra notenda með sama fyrirkomulagi. Innleiðing þess hér yrði skaðleg. Þetta fyrirkomulag verður samt innleit hér ef þriðji orkupakkinn hlýtur samþykki.

Í greininni er einnig minnt á, að notendur raforku eru bundnir í sitt raforkukerfi hver á sínum stað og annað hvort greiða þeir uppsett verð fyrir orkuna eða flytja burt.

Þó samkeppni sé raforkunotendum í Evrópu hagstæð getur heildarumhverfi geirans verið notendum óhagstætt. Eitt kjarnaatriðið í stefnu ESB í þessum málum er að tryggja fjárfestum örugglega það sem þeir telja næga arðsemi fjárfestinga. Auknar arðsemiskröfur tákna hærra verð. Tenginet Evrópu sem á að auka virkni markaðarins kostar líka sitt og notendur greiða það. Við komum til með að greiða okkar hlut af tengingu hingað með sæstreng. Álögur á síðasta sölustig rafmagns til að fjármagna niðurgreiðslur á umhverfisvænni orku hafa hækkað verðið svo mikið, að orkufátækt er orðin víðtækt vandamál innan ESB. Þetta er ekki glæsileg umhverfi fyrir okkur að vera í.

Landsreglarinn mun taka yfir alla stjórn raforkumála frá ráðuneytinu, en staða hans er sett upp svo framkvæmdastjórn ESB hafi auðvelda leið til miðstýringar á öllu er varðar viðskipti með rafmagn á innri markaðnum. Hér mun sú miðstýring einnig ná yfir auðlindavinnsluna vegna þess hve nátengd hún er raforkuvinnslu.

Stefna framkvæmdastjórnar ESB virðist vera sú að hafa náð undir sig allri stjórn orkumála á innri markaðnum upp úr 2030 og réttlætir það með baráttunni gegn hnattrænni hlýnun. Þó er önnur enn þyngri ógn á bak við, sem er þurrð orkulinda heimsins og hana þurfum við líka að varast. Fyrir ESB eru þessar ógnir alvarlegri en svo, að sjálfbærni lítils þjóðfélags á afskekktri eyju eins og Ísland er hafi nokkurt sambærilegt vægi. Þess vegna þurfum við að tryggja okkur full yfirráð yfir auðlindum okkar til frambúðar.

Þegar orkulögin voru samþykkt árið 2003 blasti við allt annar veruleiki en nú á innri orkumarkaði ESB. Þriðji orkupakkinn mun veita ESB raunyfirráð yfir íslenskum auðlindum sem gera eignarrétt okkar að sýndarrétti þegar fram líða stundir.

Við sjáum sívaxandi miðstýringaráráttu ESB í orkumálum, en sjáum engan enda á þeirri þróun. Sú stefna ESB sem kemur fram í þriðja orkupakkanum er sjálfræði okkar hættuleg og því verður að fella pakkann.

Höfundur er sérfræðingur í orkumálum. eliasbe@simnet.is

Höf.: Elías Elíasson