Fyrirliði Ólafur Gústafsson, sem hér stöðvar Frakkann öfluga Nikola Karabatic, tók við leiðtogahlutverkinu þegar Aron Pálmarsson meiddist.
Fyrirliði Ólafur Gústafsson, sem hér stöðvar Frakkann öfluga Nikola Karabatic, tók við leiðtogahlutverkinu þegar Aron Pálmarsson meiddist. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2019 Ívar Benediktsson iben@mbl.is Enginn leikmanna íslenska karlalandsliðsins í handknattleik náði sér verulega á strik í leikjunum þremur í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Köln.

HM 2019

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is Enginn leikmanna íslenska karlalandsliðsins í handknattleik náði sér verulega á strik í leikjunum þremur í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Köln. Að mati Morgunblaðsins komust Elvar Örn Jónsson, Arnar Freyr Arnarsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson, Ólafur Gústafsson, Haukur Þrastarson og Ágúst Elí Björgvinsson best frá leikjunum við Þýskaland, Frakkland og Brasilíu.

Við birtum frammistöðumat og einkunnir leikmannanna fyrir leikina fimm í riðlakeppninni í blaðinu síðasta laugardag, 19. janúar. Þá fengu átta leikmenn einkunnirnar 7 og 8 og einn þeirra, Arnór Þór Gunnarsson, fékk 9.

Enginn fær hinsvegar hærri einkunn en 6 fyrir frammistöðuna í milliriðlinum. Aron Pálmarsson, Arnór Þór Gunnarsson og Daníel Þór Ingason léku of stutt til að fá einkunn og Óðinn Þór Ríkharðsson kom ekkert við sögu, eftir að hafa komið með hraði til móts við liðið fyrir síðustu tvo leikina, eftir að Arnór meiddist.

Niðurstaðan úr milliriðlinum er sem hér segir:

Aron Pálmarsson

Meiddist á nára og fór af velli eftir 20 mínútur gegn Þjóðverjum í fyrsta leik milliriðla. Kom ekkert meira við sögu. Með honum fór mesta bitið úr sóknarleiknum. Arons var sárt saknað enda svo sannarlega leiðtogi liðsins, utan vallar sem innan.

*3 mörk í 5 skotum, 1 stoðsending, lék í 21 mínútu.

Arnar Freyr Arnarsson6

Lék mest íslensku leikmannanna í mótinu. Sótti í sig veðrið. Nýtti betur þau fáu færi sem hann fékk á línunni. Virðist vera að festa sig í sessi sem einn öxullinn í vörninni með Ólafi Gústafssyni. Óx ásmegin þegar á mótið leið.

*6 mörk í 7 skotum, 1 stoðsending, lék í 140 mínútur.

Arnór Þór Gunnarsson

Besti leikmaður íslenska liðsins í riðlakeppninni. Meiddist eftir 40 mínútur gegn Þýskalandi í fyrsta leik í milliriðli og kom ekki meira við sögu. Markahæsti leikmaður liðsins þótt hann léki sex leiki af átta.

*6 mörk í 8 skotum (2/3 úr vítum), lék í 39 mínútur.

Ágúst Elí Björgvinsson 6

Átti góðan leik á móti Frökkum en var kallaður af leikvelli rétt fyrir miðjan síðari hálfleik. Hefði sannarlega mátt vera leikinn út eða koma aftur inn á í þeirri viðureign. Kom nánast ekkert við sögu gegn Þjóðverjum og fékk fáeinar mínútur á móti Brasilíu í lokaleiknum en gat ekki snúið leiknum. Hefur sennilega spilað sig inn í hópinn í næstu verkefnum landsliðsins með framgöngu sinni á HM.

*Varði 11 af 39 skotum, 1 stoðsending, lék í 50 mínútur.

Bjarki Már Elísson 5

Fékk úr litlu að moða í leiknum við Þjóðverja þótt lagt hafi verið upp með að halda breiddinni í sókninni og nýta hornin. Ekki við hann að sakast. Lék allan leikinn við Frakka og skoraði tvö mörk. Byrjaði vel í lokaleiknum við Brasilíu en virtist missa dampinn þegar á leið og var tekinn af leikvelli.

*6 mörk í 10 skotum, 1 stoðsending, lék í 130 mínútur.

Björgvin Páll Gústavsson 3

Tókst ekki að fylgja frammistöðu sinni í riðlakeppninni eftir þegar komið var í milliriðla gegn sterkari þjóðum. Lék meira og minna leikina gegn Þjóðverjum og Brasilíu og var slakur með um fjórðungshlutfallsmarkvörslu. Fékk 18 mínútur gegn Frökkum og tókst ekki að minna á sig.

*Varði 18 af 73 skotum (1/2 víti), 1 mark úr 1 skoti, 1 stoðsending, lék í 119 mínútur.

Daníel Þór Ingason

Lék samtals í 9 mínútur í vörninni í þremur leikjum, þá aðallega undir lok leiksins við Frakka. Verður ekki dæmdur af þessum fáu mínútum.

Elvar Örn Jónsson 6

Sennilega einn skásti leikmaður liðsins í milliriðlakeppninni. Gafst aldrei upp en uppskar kannski ekki alltaf í samræmi við það. Sterkur í vörninni. Hvarf í sóknarleiknum gegn Þjóðverjum en lék vel gegn Frökkum og Brasilíumönnum. Skoraði 5 mörk í átta skotum á móti Frökkum og var með 7 mörk í 10 skotum á móti Brasilíu. Sýndi þá meira áræði en flestir, ekki síst í síðari hálfleik.

*12 mörk í 20 skotum, 10 stoðsendingar, lék í 138 mínútur.

Gísli Þorgeir Kristjánsson 4

Gísli náði sér aldrei á strik í milliriðlakeppninni eftir að hafa verið líflegur í riðlakeppninni. Sennilega var mótið of löng og ströng törn fyrir hann eftir að hafa leikið frekar lítið með THW Kiel í vetur. Svo má ekki gleyma því að hann er aðeins 19 ára gamall. Þar á ofan virðist hann vera meiddur og ekki geta beitt hægri handleggnum sem skyldi og því var engin skotógnun af honum.

*3 mörk í 8 skotum, 6 stoðsendingar, lék í 47 mínútur.

Haukur Þrastarson 6

Þreytti frumraun sína á HM gegn heimsmeisturunum, aðeins 17 ára gamall, yngstur til að leika fyrir Ísland á HM. Sýndi aðdáunarverða yfirvegun og var ófeiminn. Skoraði tvö góð mörk. Lenti hins vegar á vegg gegn Brasilíumönnum snemma leiks og kom ekkert við sögu eftir það.

*2 mörk í 4 skotum, lék í 23 mínútur.

Ólafur Andrés Guðmundsson 5

Fékk stærra hlutverk í sókninni þegar Aron meiddist. Stóð því miður ekki undir væntingum í þeim efnum og náði sér ekki á strik í sóknarleiknum. Var sem fyrr vel með á nótunum í vörninni.

*7 mörk í 19 skotum, 5 stoðsendingar, lék í 120 mínútur.

Ólafur Gústafsson 6

Varð leiðtogi liðsins eftir að Aron og Arnór Þór heltust úr lestinni og fórst það vel úr hendi. Traustur í vörninni, lengst af, þar sem mikið mæddi á honum eins og fyrri daginn.

*1 mark í 2 skotum, lék í 90 mínútur.

Ómar Ingi Magnússon 5

Í heild var mótið vonbrigði fyrir hann. Átti reyndar 9 stoðsendingar í heildina en átti erfitt með að koma skotum á mark andstæðinganna. Virtist fremur draga úr sjálfstraustinu þegar á mótið leið og árangurinn lét á sér standa. Stundum hikandi. Skoraði úr fimm vítaköstum gegn Brasilíu sem var jákvætt.

*6 mörk í 12 skotum (5/7 víti), 2 stoðsendingar, lék í 56 mínútur.

Sigvaldi Björn Guðjónsson 6

Lék tvo síðustu leikina frá upphafi til enda og 20 mínútur í fyrsta leiknum við Frakka. Nýtti færi sín ekki sem skyldi. Lét lítið fyrir sér fara. Sennilega sjáum við meira til hans á næstu árum.

*9 mörk í 16 skotum, 1 stoðsending, lék í 140 mínútur.

Stefán Rafn Sigurmannsson 4

Bætti engu við leik íslenska liðsins í síðari hálfleik gegn Þjóðverjum þegar hann fékk tækifæri og tókst ekki að komast á blað. Sat á bekknum allan leikinn gegn Frökkum og var með síðasta stundarfjórðunginn gegn Brasilíu og eins og á móti Þjóðverjum þá hafði hann lítið til málanna að leggja. Hafði greinilega ekki jafnað sig af veikindum sem hrjáðu hann fyrir mót.

*2 mörk úr 4 skotum (0/2 víti), lék í 47 mínútur.

Ýmir Örn Gíslason 5

Fékk að tuskast við Þjóðverja og Frakka og nýtti færin á línunni vel en kom lítið við sögu gegn Brasilíu. Sem betur fer sáust ekki fljótfærnisleg klaufabrot hjá Ými í vörninni í milliriðlakeppninni eins og stundum. Komst á farsælan hátt í gegnum milliriðlakeppnina.

*3 mörk úr 3 skotum, lék í 43 mínútur.

Teitur Örn Einarsson 4

Sýndi sig í leikjum milliriðlakeppninnar að hann er ekki alveg tilbúinn ennþá fyrir stóra sviðið. Leikmenn Þjóðverja og Frakka voru ekki í vandræðum með að verjast honum. Skotnýtingin var óviðunandi. Fékk örfáar mínútur á móti Brasilíu en breytti engu um gang leiksins.

*3 mörk úr 12 skotum, 2 stoðsendingar, lék í 47 mínútur.