Björgun Fjordvik á strandstað við Helguvík í byrjun nóvember. 15 manns var bjargað frá borði.
Björgun Fjordvik á strandstað við Helguvík í byrjun nóvember. 15 manns var bjargað frá borði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefnt er að því að sementsflutningaskipið Fjordvik yfirgefi Hafnarfjarðarhöfn í síðasta lagi um miðjan febrúar. Skipinu verður þó ekki siglt héðan heldur verður því fleytt inn í siglandi flotkví (Roll-Dock) og flutt til niðurrifs í Belgíu.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Stefnt er að því að sementsflutningaskipið Fjordvik yfirgefi Hafnarfjarðarhöfn í síðasta lagi um miðjan febrúar. Skipinu verður þó ekki siglt héðan heldur verður því fleytt inn í siglandi flotkví (Roll-Dock) og flutt til niðurrifs í Belgíu.

Giftusamleg björgun

Fjordvik strandaði við hafnargarðinn í Helguvík aðfaranótt 3. nóvember. Áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, tókst að bjarga fimmtán manns frá borði við erfiðar aðstæður, en skipið lamdist við stórgrýttan hafnargarðinn meðan á aðgerðum stóð.

Tæpri viku síðar tókst að draga skipið af strandstað og inn til Keflavíkur. Þaðan var það síðan dregið yfir til Hafnarfjarðar 15. nóvember. Allar þessar aðgerðir tókust giftusamlega. Fjordvik var tekin upp í þurrkví Orms og Víglundar þar sem meðal annars var soðið upp í gat á síðunni og skipið gert flothelt.

Samkvæmt upplýsingum Lúðvíks Geirssonar, hafnarstjóra í Hafnarfirði, er búið að semja um að skipið fari í brotajárn í Belgíu, en það var smíðað árið 1976 og er því rúmlega 40 ára gamalt. Útgerð skipsins og tryggingafyrirtæki, sem fer með ábyrgð gagnvart höfninni, vinna að því að ganga frá pappírum og afla tilskilinna leyfa. Lúðvík segir að skipið sé illa farið og ljóst að það fengi hvorki tryggingaleyfi né önnur leyfi til að verða dregið yfir hafið.

Svokallað Roll-Dock skip frá Hollandi er væntanlegt og á að sigla með Fjordvik til Belgíu þar sem skipið fer í brotajárn. Það er 99 metra langt, en siglandi flotkvíar sem oft eru kallaðar til þegar fjarlægja eða flytja þarf skip, eru af ýmsum stærðum og gerðum. Lúðvík segir að sementsfarmurinn um borð sé að mestu óskemmdur og aðeins sé hörð skel efst í farminum. Hann verði væntanlega losaður úr skipinu í Belgíu.

Gleypti dýpkunarskipið

Undir lok síðasta árs voru þrír öflugir dráttarbátar fyrirtækisins Icetug fluttir til landsins með sams konar flutningaskipi. Þeir bera nöfnin Herkúles, Grettir og Kolbeinn grön. Flutningaskipið kom við á Reyðarfirði á útleiðinni þar sem dýpkunarskipinu Galilei 2000 var fleytt um borð, en skipið hefur unnið við dýpkun í Landeyjahöfn síðustu misseri.

„Það var dálítið mögnuð sjón að sjá bláa skipið, Rolldock Sun, bókstaflega gleypa dýpkunarskipið Galilei 2000 inn í sig,“ mátti lesa á Austurfrétt um þá flutninga.

Auknir flutningar

Vöruflutningar um hafnirnar í Hafnarfirði og Straumsvík hafa aukist síðustu ár. Yfir milljón tonn fóru um hafnirnar árið 2017 og á nýliðnu ári var vöruflæðið enn meira er 1.150 þúsund tonn fóru um hafnirnar. Það er meira en nokkru sinni áður að sögn Lúðvíks Geirssonar hafnarstjóra.

Hann segir að aukning hafi verið á flutningum til og frá álverinu í Straumsvík, sem vegi þungt. Einnig hafi aukning í flutningum á möl og sandi til malbikunar verið áberandi, en sá innflutningur fór úr 80 þúsund tonnum 2017 í um 130 þúsund tonn í fyrra.

Landanir á innlendum afla hafa dregist saman í Hafnarfirði frá því sem áður var og námu um tíu þúsund tonnum í fyrra og hittifyrra. Enginn togari er nú gerður út frá Hafnarfirði, en Baldvin Njálsson úr Garði landar þar reglulega. Þá er nokkuð um að skip sem eru að veiðum undan Suður- og Vesturlandi landi í Hafnarfirði og er aflinn síðan keyrður til vinnslu annars staðar.

Uppistaðan í löndunum á fiski í Hafnarfirði er úr frystiskipum frá Grænlandi og Rússlandi. Þessi afli hefur verið yfir 50 þúsund tonn samtals tvö síðustu ár.