Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Eftir að lögð var meiri áhersla á að efla netverslun Origo (www.netverslun.is) tók salan mikinn kipp. „Við erum að tala um að veltan var framar vonum, en hún hefur aukist um 97% undanfarna tólf mánuði,“ segir Gísli Þorsteinsson, markaðsstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Origo.
Í netverslun Origo má finna úrval raftækja fyrir neytendur og vinnustaði; allt frá myndavélum frá Canon og Sony, og fartölvur frá Lenovo yfir í kassakerfi, netþjóna og risastór sjónvarpstæki.
„Við stigum fyrstu skrefin með netverslun Origo í kringum árið 2008 en lengst af var hún hliðarafurð hjá okkur, nokkurs konar upplýsingasíða – þetta voru jú aðrir tímar. En hægt og rólega hefur netverslunin þróast, vöruúrvalið aukist og meiri vinna verið lögð í að halda versluninni ferskri og uppfærðri,“ útskýrir Gísli og segir að fyrirtækið hafi sett sér það markmið að vera í fararbroddi á þessu sviði. „Verslunin hættir síðan að vera aukaatriði og verður eitt af áhersluverkefnum Origo og hluti af stafrænni vegferð fyrirtækisins og sjálfvirknivæðingu þess. Markmiðið er að tryggja góða upplifun af þjónustu okkar og þeim lausnum sem við bjóðum. Við viljum að netverslun Origo verði fyrsta val viðskiptavinarins í sínu vöruframboði. Útkoman er að undanfarin tvö til þrjú ár hafa orðið algjör umskipti, bæði vegna þess að Íslendingar versla sífellt meira á netinu og eins vegna þess að við höfum lagt okkur fram við að koma netverslun Origo betur á framfæri; sem hluta af lausnaframboðinu. Það er í raun búið að lyfta grettistaki í þróun netverslunarinnar síðustu misseri.“
Allt samtengt
Netverslun Origo er tengd lagerkerfi verslunarinnar í Borgartúni í Reykjavík, svo viðskiptavinir geta séð í einni svipan hvar varan er fáanleg, ef þeir vilja sækja hana frekar en að fá senda heim að dyrum. Gísli segir að frá upphafi hafi það verið stefnan með netverslun Origo að gera fólki auðveldara að afgreiða sig sjálft í meiri mæli; skoða vöruúrvalið á netinu og síðan ýmist panta vöruna þar eða finna hana í verslun Origo. Þetta þýði um leið að bæta má þjónustuupplifun og skapar netverslun Origo líka mikið hagræði fyrir viðskiptavini á fyrirtækjamarkaði:„Fólk notar vefverslunina með mismunandi hætti. Sumir koma t.d. fyrst í búðina og „smakka“ vöruna, en ganga síðan frá kaupunum á netinu. Aðrir nota vefsíðuna eins og flottan sýningarglugga og skoða þar hvað er í boði áður en þeir koma er í búðina og ganga þar frá kaupunum við afgreiðsluborðið. Fyrirtæki sem vantar t.d. rekstrarvöru fyrir prentara getur sent pöntun í gegnum netverslunina frekar en að hringja eða senda tölvupóst. Vöruna fær fyrirtækið á þeim kjörum sem um var samið og sendill heldur af stað frá vörugeymslunni okkar á Köllunarklettsvegi samdægurs eða næsta virka dag.“
Gísli bendir á að með þessu megi líka nýta tíma sölumanna betur. „Frekar en að sitja við símann getur okkar fólk verið á ferðinni og þjónustað viðskiptavini betur ellegar heimsótt fyrirtæki sem gætu haft áhuga á lausnum frá okkur. Netverslunin veitir okkur þannig meiri slagkraft: kúnninn veit að hann fær hjá okkur góða vöru og þjónustu en við höfum betra tækifæri til að laða til okkar nýja viðskiptavini.“
Hika ekki við að kaupa ódýrari vörur yfir netið
Að sögn Gísla má greina að hinn almenni neytandi notar netverslunina með misjöfnum hætti eftir því hvort hann hyggst kaupa dýra eða ódýra vöru. „Ef varan kostar meira er algengara að fólk vilji fyrst fá að skoða hana með eigin augum og handfjatla áður en ákvörðun er tekin um kaupin. Aftur á móti þykir flestum óhætt að t.d. panta þráðlausan hátalara eða heyrnartól á verðinu frá þetta 10.000 kr. upp í 50.000 kr. og fá sent beint heim,“ útskýrir hann. „Þá má ekki gleyma að í mörgum tilvikum ræðst valið fyrst og fremst af greinum og umsögnum sem finna má á netinu og eru t.d. græjur frá Bose gott dæmi: þar veit fólk alveg hvers konar gæðavöru það er að fá.“Netverslun Origos heldur áfram að þróast og segir Gísli að næstu skref verði fólgin í því að bæta við nýjum afhendingarleiðum, svo sem í gegnum svokölluð snjallbox. „Við viljum vitanlega leggja áherslu á öflugt samband við viðskiptavini, í gegnum ýmsar boðleiðir, svo sem netsamskipti og vonandi er stutt í að við getum boðið þeim að sækja pantanir óháð opnunartíma, þannig að þeir geti t.d. pantað og borgað fyrir vöruna í netversluninni en sótt til okkar pakkann á heimleið um kvöldið, þegar allt amstur dagsins er að baki, eða bara þegar þeim hentar. Þróun Origo í stafrænum heimi og sjálfvirknivæðingu mun halda áfram enda sjáum við miklar breytingar í kortunum á næstu árum og því er mikilvægt að vera tánum. Við erum rétt að byrja.“