Jón Þór Þorvaldsson
Jón Þór Þorvaldsson
Eftir Jón Þór Þorvaldsson: "Tilvera bænda og framleiðsla þeirra eru grundvöllur þess að við getum einbeitt okkur að öðrum hlutum sem skipta máli eins og húsaskjóli, fjölskyldu og tilfinningum."

Grunnþarfir okkar eru ekki mjög flóknar, en það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hverjar þær eru. Abraham Maslov greindi þarfir mannsins í svokallaðan þarfapíramída (e. Maslov's hierarchy of needs). Greiningin gerir ráð fyrir að grunnþarfir okkar, þær sem liggja neðst í píramídanum og eru líkamlegar, um mat, vatn, svefn o.s.frv., þurfi að uppfylla áður en við uppfyllum aðrar þarfir s.s. um félagslega viðurkenningu o.fl.

Ég verð hugsi þegar fólk sem leitast við að hafa áhrif á samfélagið (eins og stjórnmálamenn), og er þar með samkvæmt þessari greiningu að uppfylla eigin þarfir sem liggja efst í þarfapíramídanum, virðist ekki skilja samhengi hlutana þegar kemur að fæðuörygggi og sjálfbærni okkar sem þjóðar.

Bændur og landbúnaður eru grunnstoð samfélagsins. Þeir framleiða matvæli. Tilvera bænda og framleiðsla þeirra eru grundvöllur þess að við getum einbeitt okkur að öðrum hlutum sem skipta máli eins og húsaskjóli, fjölskyldu og tilfinningum.

Sumir bera lítið skynbragð á hvað þarf til að framleiða matvæli. Maturinn á bara að vera til í búðunum! Kosta sem minnst!

Flestar þjóðir líta svo á að með neytendastyrkjum megi halda niðri matvælaverði og minnka margföldunaráhrif prósentuálagningar milliliða og smásala. Þannig megi bjóða þegnunum matvæli á viðráðanlegu verði, óháð stöðu og tekjum. Þannig stuðlum við einnig að bættri lýðheilsu. Það er nefnilega svo að matvæli teljast til frumþarfa, þau eru neðst í píramídanum. Það er því hverri þjóð mikilvægt að tryggja sínu fólki aðgang að góðum og heilnæmum matvælum eins og fremst er kostur.

En hvað kosta þessir neytendastyrkir? Samkvæmt tölum Bændasamtaka Íslands voru heildarútgjöld hins opinbera 14,9 ma króna árið 2016, eða 1,49% af útgjöldum ríkisins. Heildarframleiðsluvirði landbúnaðar á Íslandi var 65,9 ma króna á sama tíma. Tekið er fram að framleiðsluverð er það verð sem framleiðandi fær í sinn hlut frá kaupanda og innifelur ekki vörutengda styrki s.s beingreiðslur. Bú sem framleiða vörur á Íslandi eru um 3150. Á þessum búum er einnig í sumum tilfellum stunduð ferðaþjónusta, skógrækt, landgræðsla og hlunnindanýting. Tæplega 3800 manns hafa atvinnu beint af landbúnaði og um 10.000 manns hafa atvinnu af landbúnaði og afleiddum eða tengdum greinum. Af þessum tölum má draga þá ályktun að framlag ríkisins uppá um 149 þús. kr á starf skili sér í 10.000 störfum sem annars væru ekki fyrir hendi og tæplega 6,6 milljóna framleiðsluverðmæti á hvert starf. Það er mín skoðun að því skattfé sé vel varið.

Þegar fólk á bíl, snjallsíma, tölvu, húsnæði, aðgang að góðu heilbigðis- og menntakerfi og stöðugan aðgang að hollum matvælum og hreinu vatni, má segja að fólk hafi það líklega betra en 70-80% jarðarbúa, það hlutfall gæti þó verið hærra. Slíkt fólk á það til að gleyma að þakka fyrir það „sjálfsagða“. Þegar sumir líkja búvörusamningum við „glæpsamlegan gjörning“, „ríkisstyrkt dýraníð“ eða „sambærilegan kostnað“ og Icesave reikninginn sem átti að senda þjóðinni, mætti segja að fólk sé orðið virkilega veruleikafirrt. Þessir sömu telja sig svo sjáfskipaða hagsmunagæsluaðila þjóðarinnar. Þeir vilja flytja inn matvæli án takmarkana og skila þannig ódýrari matvöru í verslanir. Þau matvæli eru að vísu niðurgreidd af þegnum annarra ríkja, en það skiptir þá ekki máli. Þessir sömu aðlilar myndu síðan hagnast lítið sem ekkert á þessum innflutningi og viðskiptum vegna góðmennsku sinnar eða hvað?

Hver ætli raunkosnaður þessara matvæla sé þegar allt er tekið inn í myndina? Flutningur á vöru, álag á náttúru vegna þeirra flutninga, náttúruvernd yfir höfuð, sýklalyf sem notuð voru til framleiðslu, skordýraeitur o.s.frv? Hverjar eru aðstæður, kaup og kjör fólksins sem vinnur á þessum búum, tyggingar og réttindi þeirra? Breytir það kannski engu? Hvernig og hver á að skapa gjaldeyrinn til að kaupa þessar vörur sem við getum þó framleitt sjálf.

Staðreyndin er sú að landbúnaður á Íslandi skilar 10.000 störfum og er lykilatriði í að halda byggð í landinu, sem aftur er ein lykilforsenda fyrir þeirri uppbyggingu á ferðaþjónustu sem malar nú gull fyrir okkur. Honum yrði a.m.k. hampað, stjórnmálamanninum sem gæti barið sér á brjóst fyrir að skapa þennan fjölda starfa. Einnig má hafa í huga að það eru ekki öll útgjöld ríkisins sem skila sér ríflega fjórfalt til baka.

Fólksfjöldaspár gera ráð fyrir að jarðarbúar verði um 9 milljarðar árið 2050 sem er á næsta leiti. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) spáði árið 2012 að matvælaframleiðsla þyrfti að aukast um 70% frá árinu 2012 til ársins 2050 í ljósi vaxandi mannfjölda. Á Íslandi er mikið ræktarland, hreint vatn og verkþekking til að nýta þessa framtíðarauðlind. Munum að óvíða er að finna hreinni og heilnæmari afurðir en þær sem íslenskir bændur framleiða og eftirspurn eftir slíkum vörum fer vaxandi sem skapar tækifæri fyrir bændurna okkar til framtíðar. Í ljósi þessa vil ég sjá íslenskan landbúnað vaxa og blómstra. Ég vil sjá þjóðina standa vörð um íslenskan landbúnað. Íslenski bóndinn og framleiðsla hans tryggir grunnþarfir okkar.

Í þessum skrifum studdist ég að hluta

til við pistilinn „Vegna glæpsamlegra

búvörusamninga“ eftir Helga Eyleif

Þorvaldsson, sem birtist 16.9. 2016,

með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur er fyrsti varaþingmaður Miðflokksins í NV-kjördæmi.

Höf.: Jón Þór Þorvaldsson