Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Nettó er sú matvöruverslun sem komin er hvað lengst í að bjóða viðskiptavinum sínum að gera innkaupin á netinu og fá vörur sendar heim að dyrum. Gunnar Egill Sigurðsson er framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, móðurfélags Nettó, og segir hann að áður en hægt var að leggja af stað í þessa vegferð hafi þurft að finna rétta samstarfsaðilann:
„Við höfðum rætt við fjölda fólks en það var ekki fyrr en leiðir okkar og Aha.is lágu saman að við fundum samstarfsfyrirtæki með sams konar hugmyndafræði og við. Komumst við fljótt að samkomulagi um að smíða netverslun og að sex mánuðum liðnum voru dagvörur Nettó komnar á netið.“
Dreifa úr verslununum
Vefverslun Nettó (www.netto.is) hefur fengið góðar viðtökur en Gunnar segir að þess hafi verið gætt að láta þessa hlið rekstrarins vaxa ekki of hratt, og vanda mjög til verka strax frá fyrsta degi. „Samið var um að bæta 10 nýjum bílum við flota Aha.is til að geta annað eftirspurn og mikil áhersla lögð á að nýta flutningakerfið sem best,“ útskýrir Gunnar.Meðal þess sem stjórnendur Nettó þurftu að ákveða var hvort betra væri að dreifa dagvörunni frá einu miðlægu vöruhúsi eða senda vöruna frá Nettó-verslununum sem finna má víða um höfuðborgarsvæðið. „Við sáum það fljótlega að skynsamlegast væri að nýta þá aðstöðu og það góða starfsfólk sem við höfum í verslunum okkar og á sama tíma stytta þá vegalengd sem aka þarf með pantanir,“ útskýrir Gunnar. „Við byrjuðum á að dreifa pöntunum frá verslun okkar í Mjóddinni, bættum svo versluninni á Granda við þremur mánuðum síðar, og loks versluninni í Hafnarfirði.“
Eftir því sem vinsældir netverslunarinnar jukust þurfti að fjölga starfsfólki í verslununum og segir Gunnar að um leið hafi bæði gefist tækifæri til að nýta vinnudag starfsfólksins betur og gera störfin fjölbreyttari. „Við reynum að leyfa starfsfólkinu að vera á hreyfingu á milli þeirra ólíku verkefna sem leysa þarf af hendi í hverri búð og gætu þau t.d. einn daginn verið að annast netpantanir, þann næsta að raða í hillur og þriðja daginn verið á afgreiðslukassa eða til aðstoðar við sjálfsafgreiðslustöðvar.“
Að hugsa eins og neytandinn
Að selja ferska vöru yfir netið er hægara sagt en gert og segir Gunnar að sumir neytendur gætu t.d. frekar viljað velja sjálfir þann kjötbita eða jarðarberjabox sem þeim hugnast best, en að láta starfsmann verslunarinnar annast valið. „Ég hef sjálfur þann háttinn á að gera mín matarinnkaup á netinu, en sækja í búðina og taka í leiðinni stuttan hring um verslunina til að bæta við tveimur eða þremur hlutum sem ég vil velja sjálfur,“ útskýrir Gunnar. „Raunin er þó að ferskvörusalan gengur almennt mjög vel og ef við skoðum tíu söluhæstu vörurnar fyrir hvern dag þá eru yfirleitt sex til sjö þeirra ferskvara.“Huga þarf að fleiru, t.d. að ferskleiki vörunnar sé í samræmi við væntingar viðskiptavinarins. Gunnar bendir á að margir reyni að gera tiltölulega stór innkaup í einu, enda heimsendingin ókeypis ef verslað er fyrir meira en 15.000 kr., en viðskiptavinurinn ætlist þá til þess að maturinn endist honum í nokkra daga – og helst út vikuna. „Það gengur ekki að við veljum fyrir viðskiptavininn pakkningu af kjöthakki sem rennur út eftir tvo daga, þegar hann hafði hugsað sér að búa sér til máltíð úr kjötinu eftir fjóra daga. Reglan hjá okkur er sú að velja ferskustu vöruna, og ef aðeins eru eftir pakkningar sem eiga stutt eftir í síðasta söludag þá höfum við samband við viðskiptavininn og leyfum honum að ákveða hvort varan fer í körfuna eður ei.“
Segir Gunnar að þegar fram í sækir verði hægt að bjóða viðskitpavinum að velja á milli pakninga með ólíkan síðasta söludag. „Útkoman gæti þá verið að kúnninn geti t.d. valið hefðbundið kjöthakk sem á fimm daga eftir, eða keypt pakkningu sem á tvo daga eftir og fengið þá ríflegan afslátt.“
Setja upp sjálfvirka skápa
Næstu skref hjá Nettó.is felast í því að bjóða viðskiptavinum upp á meiri sveigjanleika ef þeir kjósa að sækja vörurnar. Í dag má velja um að fá sent eða sækja í næstu Nettó-verslun og er ekki tekið neitt viðbótargjald ef sótt er þó að verslað sé fyrir lægri upphæð en 15.000 kr. Hingað til hefur fólk þurft að sækja vörurnar á afgreiðslutíma en bráðum verður hægt að ganga að innkaupapokunum vísum á hvaða tíma dagsins sem er. „Við erum að gera prófanir með sjálfvirka skápa sem hafa hólf fyrir bæði kælivöru, frystivöru og þurrvöru og verða aðgengilegir allan sólarhringinn.“Tæknin býður upp á fleiri leiðir til að bæta þjónustuna við viðskiptavini. Segir Gunnar að með því að versla á netinu spari fólk sér töluverðan tíma og ef væru t.d. farnar tvær ferðir í matvöruverslun í viku hverri, 30 mínútur í hvert sinn, þá geti heimsendingin sparað sem jafngildir ríflega einni vinnuviku yfir árið. „Svo verða innkaupin einfaldari eftir því sem netverslunin er notuð oftar enda margir sem halda sig að stórum hluta við sömu vörurnar viku eftir viku. Er einfaldlega hægt að smella á hnapp til að endurtaka síðustu pöntun og svo fjarlægja eða bæta við vörum eins og þarf.“
Næsta skref í þessa átt myndi vera að setja vörurnar þannig fram í netversluninni að kaupa megi heilan „pakka“ fyrir tilteknar uppskriftir. „Ef t.d. á að elda sunnudagssteik væri hægt með músarsmelli að panta allt hráefnið sem þarf, frá lambalærinu og kartöflunum yfir í kryddið og grænu baunirnar. Færast þá allar vörurnar yfir í innkaupakörfuna, og ef þegar er til baunadós eða sultukrukka í búrinu þá fjarlægir viðskiptavinurinn þær vörur áður en hann gengur frá greiðslunni.“
Betra að vera í samstarfi
Víðast hvar erlendis hafa matvöruverslanir þann háttinn á að annast sjálfar heimsendinguna ef þær bjóða viðskiptavinum að gera innkaupin á netinu. Er ástæðan meðal annars sú að verðsamkeppni á matvörumarkaði er hörð og álagningin veitir lítið svigrúm til að standa undir þeim kostnaði sem iðulega fylgir því að nota milliliði við dreifinguna.Aðspurður hvort ekki hefði verið betra fyrir Nettó.is að smíða sitt eigið kerfi frá grunni, hafa sinn eigin bílaflota og bílstjóra, segir Gunnar að þvert á móti hafi það hentað vel stærð fyrirtækisins og markaðarins að finna góðan samstarfsaðila. Nefnir hann að það eitt að smíða netverslun og halda vel utan um tæknihliðina kalli á mikla sérhæfingu. „Útreikningar okkar sýndu að ef við ætluðum að gera þetta ein og óstudd myndum við þurfa að kosta miklu til við að smíða hugbúnað vefverslunarinnar og hafa teymi tæknimanna og forritara að störfum. Með því að snúa bökum saman með Aha.is gátum við lækkað stofnkostnað vefverslunarinnar og við sáum að bæði fyrirtækin höfðu gagnkvæman ávinning af því að þróast og vaxa saman.“
Nefnir Gunnar, sem dæmi, að Aha.is annist líka heimsendingu á tilbúnum mat fyrir fjölda veitingastaða og álagstíminn þá mestur í kringum hádegið og kvöldmatarleytið. „Það bætir nýtingu bílaflotans að geta notað rólega tímann þess á milli til að færa viðskiptavinum matarinnkaupin.“