Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Ekki þarf að kynna þjónustu Já.is fyrir lesendum, enda í hópi vinsælustu vefsíðna landsins og þykir ómissandi þegar leita þarf að símanúmeri eða heimilisfangi fyrirtækis ellegar einstaklings. Hafa margir veitt því athygli að seint á síðasta ári bættist við leitarniðurstöðurnar og býður Já.is núna líka upp á vöruleit.
Útkoman er sú að Já.is er í dag orðið að allrastærsta net-markaðstorgi Íslands, því síðan safnar saman upplýsingum frá fjölda íslenskra vefverslana og birtir á einum stað.
Anna Berglind Finnsdóttir er verkefnastjóri vöru- og viðskiptaþróunar hjá Já. „Í lok nóvember settum við nýjan vef Já.is í loftið, gáfum honum nýtt, léttara og stílhreinna útlit um leið og leitarvélin varð hraðari. Á sama tíma bættum við vöruleitinni við, og sýnir hún í dag um 520.000 vörur frá 430 íslenskum vefverslunum.“
Geta látið vakta verðbreytingar
Vöruleitina má finna með því að smella á lítinn takka efst í hægra horni forsíðu Já.is eða á slóðinni Ja.is/vorur. Þá birtast vöruleitarniðurstöður oft sjálfkrafa þegar notendur slá inn nafn fyrirtækis eða heiti vöru. Ef t.d. leitað er að „borvél“ á Já.is Birtast tenglar sem vísa á alls kyns tegundir af sögum í vefverslunum Byko, Húsasmiðjunnar og Múrbúðarinnar til viðbótar við hefðbundinn lista með opnunartímum, heimilisföngum og símanúmerum fyrirtækja sem selja sagir.„Vöruleit Já.is skimar fjölda netverslana og birtir leitarniðurstöður á einum stað til að auðvelda notendum að skoða úrvalið og gera verðsamanburð,“ útskýrir Anna. „Bæði veitir vöruleitin góða yfirsýn en einnig geta notendur sett vöru á óskalista sem hægt er að deila með vinum og vandamönnum eða þeir geta sett vörur í verðvakt og fengið tilkynningu þegar verðið breytist.“
Íslenskar netverslanir geta birt vörur sínar í vöruleitinni án endurgjalds en hafa þó leið til að koma sér enn betur á framfæri. „Við bjóðum upp á betri aðild sem fyrirtæki geta notað til að gera sig sýnilegri í vöruleitinni, sett vörumerki sitt við vörurnar sínar og birt ofar í leitinni. Rétt eins og á Já.is er grunnskráningin ókeypis og allt sem finna má í vöruleitinni setjum við þar inn án kostnaðar fyrir seljandann.“
Þrátt fyrir að hafa verið í loftinu í aðeins um tvo mánuði hefur vöruleitin nú þegar náð til fjölda fólks. Segir Anna að í desember hafi um 40.000 manns notað vöruleitina og framkvæmt um 130.000 leitir. „Viðbrögðin hafa verið frábær bæði hjá notendum og hjá vefverslununum sjálfum.“
Einfaldar leitina
Vöruleit Já.is endurpseglar mikilvæga breytingu sem er að verða á hegðun íslenskra neytenda. Bendir Anna á að nú, meira en nokkru sinni, reyni fólk að fara vel með tíma sinn og t.d. halda verslunarferðum í lágmarki en hafa í staðinn meira svigrúm til að sinna áhugamálum sínum og eiga samverustundir með vinum og ættingjum. Neytendur eru orðnir markvissari í vöruleitinni og nenna síður að þræða stórverslanir og verslunarmiðstöðvar í leit að því sem þá vantar. „Nýleg könnun Gallup leiddi í ljós að þó svo að Íslendingar kjósi margir frekar að koma í verslunina og kaupa vöruna þar, þá nota þeir netið fyrst til að skoða hvað er til og gera upp hug sinn. Áður en þeir halda af stað vilja þeir vita hvar varan fæst og hafa góða hugmynd um hvað er í boði.“Segir Anna að það ýti undir þessa þróun að verslunum hefur farið fjölgandi, höfuðborgarsvæðið er orðið stærra og umferðin þyngri á vissum tímum dags. Að ætla að heimsækja margar búðir til að finna réttu borvélina á rétta verðinu geti því verið heljarinnar verkefni. „Það á ekki lengur við að fólk viti nokkurn veginn hvar allir hlutir fást, og sést það t.d. vel í hinum og þessum Facebook-hópum þar sem meðlimir eru duglegir að spurja hvar þeir geti mögulega keypt hitt og þetta.“
Bætir Anna því við að vöruleitin geti líka nýst þeim sem hafa gaman af búðarápi. „Um leið og hægt er að nota vöruleitina til að spara tíma og einfalda kaupin þá nýtist vefurinn okkar einnig til að sjá allt sem er í boði og uppgötva eitthvað nýtt og sniðugt. Vöruleitin getur því gefið vísbendingar um hvaða verslanir væri gaman að heimsækja til að geta skoðað úrvalið með eigin augum.“
Vöruleit Já.is mun halda áfram að þróast og segir Anna að næsta skref verði að færa vöruleitina inn í snjallsímaforrit Já.is. „Rúmlega 60.000 manns nota appið okkar í mánuði hverjum og munu hafa enn meira gagn af appinu þegar vöruleitin bætist við. Þá munum við að vinna jafnt og þétt að því að koma á tengingu við fleiri netverslanir og tryggja að upplýsingarnar sem við sækjum séu uppfærðar sem hraðast svo að vöruleitin gefi sem nákvæmastar niðurstöður.“