Skinnauppboð Kaupandi skoðar skinn í danska uppboðshúsinu.
Skinnauppboð Kaupandi skoðar skinn í danska uppboðshúsinu. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Verð á minkaskinnum heldur áfram niður öldudalinn, ef marka má söluna á fyrsta uppboði ársins hjá Kopenhagen Fur í Kaupmannahöfn þar sem íslenskir minkabændur selja sína framleiðslu.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Verð á minkaskinnum heldur áfram niður öldudalinn, ef marka má söluna á fyrsta uppboði ársins hjá Kopenhagen Fur í Kaupmannahöfn þar sem íslenskir minkabændur selja sína framleiðslu. Fáir kaupendur mæta til uppboðsins og þau skinn sem seljast fara fyrir lágt verð. Uppboðið stendur fram á mánudag.

Vegna offramboðs á minkaskinnum og lágs verðs síðustu ár hefur orðið hrun í minkaræktinni. Í Danmörku, sem er umsvifamikið minkaræktarland, hefur pöruðum læðum fækkað um 25% og meira í Finnlandi. Þá hefur orðið mikill samdráttur í Kína.

„Það þarf að finna botn á heimsmarkaðsverðinu. Vonandi er hann að finnast núna. Það telst jákvætt að mjög hefur dregið úr heimsframleiðslunni, stefnir í að hún verði innan við 40 milljónir skinna í ár. Eitthvað er að losna um stífluna og birgðir að minnka þótt það sjáist ekki á upphafi þessa uppboðs,“ segir Einar Eðvald Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda.

Tveimur stórum búum lokað

Bændur hættu rekstri sex loðdýrabúa hér á landi á síðasta ári og slátruðu öllum dýrunum. Þar af voru tvö af þremur stærstu minkabúum landsins, búin Mön í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og búið í Héraðsdal í Skagafirði. Tólf bú eru enn starfrækt.

Á síðasta framleiðsluári voru 29 þúsund læður paraðar en 17.500 nú og nemur samdrátturinn 40%.

Ríkisstjórnin samþykkti fyrr í vetur að verja 30 milljónum á fjárlögum til að styðja við atvinnugreinina. Það er aðeins brot af þeim stuðningi sem bændur höfðu óskað eftir til að hjálpa þeim og fóðurstöðvunum yfir versta hjallann. Byggðastofnun leggur fram 70 milljónir til viðbótar þannig að ríkið styður greinina um 100 milljónir. Stuðningurinn verður veittur sem lán með sértækum skilmálum, það er að segja að afborganir verða tengdar verði á minkaskinnum.

Bændur þurfa að fara í rekstrargreiningu og skila rekstraráætlun og sækja síðan um. Tilgangurinn er að hjálpa þeim sem hægt er og er því ekki víst að allir fái stuðning.