Þeir sem skynja ekki umhverfi sitt eru ekki efnilegir leiðsögumenn

Ráðstefnan sem kennd er við skíðastaðinn Davos hefur dregið að sér ríkisbubba og frægðarfólk og stjórnmálaleiðtogar koma þar við þótt þeir stoppi flestir stutt.

Fundirnir hafa stundum verið notaðir sem skjól fyrir fulltrúa andstæðra póla til að stinga saman nefjum svo lítið beri á. Það hefur verið gagnlegt þótt það hafi aldrei ráðið úrslitum.

Nú um alllanga hríð hafa ríkisbubbarnir og ríkisleiðtogarnir, og skiptir þá engu úr hvaða pólitísku áttum þeir síðarnefndu koma, klórað hver annars bak og brosað allan hringinn. Í nafni alþjóðavæðingar höfðu vesírar stórfyrirtækjanna komist í óskastöðu. Það varð trúaratriði, sem leiðtogar einsflokksins gleyptu hrátt, að landamæri einstakra þjóða mættu hvergi þvælast fyrir gullgröfurum.

Rétt eins og Evrópusambandið hefur verið hlaðið lofi og hlaðið lofi á sig sjálft fyrir að hafa komið í veg fyrir stríð (sem enginn fótur er fyrir) þá höfðu stórfurstarnir lært setninguna góðu um að þjóðir sem ættu greið viðskipti sín á milli færu síður í stríð. (Íslendingar lúta engum lögmálum og fóru því jafnan í landhelgisstríð við þá sem þeir höfðu mest viðskipti við). Setningin góða var látin afsaka það að risafyrirtæki lutu ekki lengur neinu þjóðríki og voru yfir þau öll hafin og allir vegir færir, líka þeir vegir sem ástæðulaust var, viðskiptanna vegna, að þeir færu um.

Gullskrýddu snillingarnir lokuðu fyrirtækjum hér og skildu eftir sig sviðna jörð og opnuðu annars staðar þar sem laun voru lægst og kröfur um hreinlæti og öryggi á vinnustað voru í skötulíki, ef þær náðu því. Ef einhver í eymdinni ybbaði sig var hótað að loka öllu og fara annað. Skatta sína borguðu fyrirtækin svo í þriðja ríkinu þar sem þau voru skráð í skrifborðsskúffu með sína 100 þúsund starfsmenn. Í því landi borguðu þau aðeins brot af þeim sköttum sem öðrum er gert að borga og þau hefðu þurft að greiða í raunverulegu heimalandi, eða raunverulegu starfslandi. Ástæðan var sú að í því landi þurftu þau enga þjónustu og því hlaut skattgreiðslan að taka mið af því.

Þetta var himnaríkissæla en ekki heilbrigður kapítalismi. Pilsfaldaleiðtogar í Evrópu og í Bandaríkjunum síðar þekktu ekki sinn vitjunartíma þegar óróa tók að gæta heima fyrir. Þeir litu á það fólk sem hreyfði andmælum sem undirmálsflokk sem fráleitt væri að taka nokkurt mark á.

Leiðtogi demókrata og forsetaefni í kosningunum 2016 missti sinn innri mann út úr sér á kosningafundi í fjármálahverfinu í N.Y. við góðar undirtektir. Það væru aðeins „the deplorable“ (fordæmanlegu, útskúfuðu) sem styddu andstæðinginn. Einhver tók upp á símann sinn og það varð dýrkeypt. Fólk um þver og endilöng Bandaríkin setti upp húfur og svuntur og merkti sig sem einn af hinum „útskúfuðu“. Þeir sem nudduðu sér ætíð utan í þetta fólk fyrir kosningar og töldu sig eiga atkvæði þess gefin höfðu sýnt á spilin sín.

Í Evrópu var viðhorfið í einsflokknum svipað til fólksins sem hafði ekki sömu skoðun og elítan. Uppnefnið var þó mildara. En þeir sem gerðu hosur sínar grænar fyrir „svona fólki“ voru stimplaðir „lýðskrumarar“. Í orðunum fólst að skammarlegt væri að koma til móts við þær áhyggjur sem slíkir hefðu af þróun þjóðfélagsins. Og hversu mörg atkvæði sem „lýðskrumarar“ fengju þá ætti að líta á þau sem dauð atkvæði. Þeir sem kæmust á þing fyrir atbeina dauðu atkvæðanna mættu ekki fá nein áhrif. Þeir þingmenn voru sem sagt „deplorable“ og ættu útskúfun skilið. Aðferðin virtist virka í fyrstu en hefur smám saman gert illt verra. Nú síðast var sænska krataflokknum veittur forsætisráðherrann í verðlaun fyrir að hafa fengið verstu úrslit sögu sinnar. Þetta er í annað sinn sem flokkurinn fær verðlaunin. Fyrst fékk hann þau fyrir rúmum fjórum árum eftir næstverstu úrslit sögu sinnar.

Allmörg viðtöl við erlend fyrirmenni hafa verið sýnd frá fundinum í Davos. Þar virðast menn samstiga og sannfærðir um að veruleikafirring sé sterkasta svar nútímans. Talsmaður OECD skar sig úr og vonandi fær hann ekki bágt fyrir. Hann sagði að staðan hefði gjörbreyst. Ræður um það hvort hagvöxtur yrði 0,2% minni á nýbyrjuðu ári eða 0,2% meiri væri einskis nýt speki núna. Sér virtist enginn á þessum fagra stað hafa heyrt eitt eða neitt af þeim tilfinningum sem væru að hrærast í brjósti fjöldans núna.

Úr orðum hans mátti lesa að sjálfsupphafningin og firringin sem einkenndi Davos-talið núna kæmist sennilega langt með að kippa fótunum undan framhaldi þess. Þegar söfnuðurinn fíni sem þangað sækti áttaði sig á því að Davos væri tekið að virka sem tákn um hallæri og heyrnarleysi myndi hann ekki láta sjá sig þar aftur.

Það væri sennilega bættur skaðinn.