„Í dag erum við kannski að útbúa 150 sendingar á dæmigerðu kvöldi og blasir við að það þýðir að nýta má ökutæki og mannskap miklu betur,“ segir Guðmundur.
„Í dag erum við kannski að útbúa 150 sendingar á dæmigerðu kvöldi og blasir við að það þýðir að nýta má ökutæki og mannskap miklu betur,“ segir Guðmundur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á meðan hefðbundnir stórmarkaðir eru að minnka hjá sér verslanirnar og fækka vörum bætast um 1.000 ný vörunúmer við hjá Heimkaupum í hverjum einasta mánuði.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl..is

Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaup.is, þekkir vel bölsýnisspár fólks sem taldi að smæð markaðarins og nálægð við verslanir myndi valda því að netverslun ætti seint eða aldrei eftir að komast á skrið á Íslandi. Eða hvers vegna að panta á netinu og borga aukalega sendingarkostnaðinn þegar það tekur fimmtán mínútur að skjótast til hér um bil hvaða seljanda sem er á höfuðborgarsvæðinu?

„Ég bjó á sínum tíma á Manhattan og get fullyrt að í tíu gatna radíus frá heimili mínu gat ég fundið allar þær vörur og þjónustu sem mig gæti nokkurn tíma vantað – en samt valdi ég frekar að versla á netinu, einfaldlega vegna þess að það var þægilegra,“ segir hann.

Guðmundur segir það ekki vera smæðina sem hafi staðið í vegi fyrir því að netverslun á Íslandi næði meiri útbreiðslu, heldur frekar að þjónustan hafi ekki verið jafn góð og neytendur erlendis eiga að venjast. „Þegar ég flutti aftur til Íslands um miðjan síðasta áratug þóttu þær fáu netverslanir sem voru í boði hér á landi afskaplega lélegar í samanburði við það sem ég hafði kynnst í Bandaríkjunum, og í stað þess að fá vörurnar til mín samdægurs eða næsta dag gat ég vænst þess að þurfa að bíða í nokkra daga eftir að þær kæmu með póstinum – og jafnvel að móttakan væri tómt vesen svo ég myndi þurfa að sækja pakkann út á pósthúsið hvort eð er.“

Þarf að berast samdægurs

Aðstandendur Heimkaupa vissu strax á fyrsta degi að setja þyrfti þjónustuna í efsta sæti og gera það að þægilegum kosti að kaupa vörur á netinu. „Lykillinn er að varan berist kaupandanum samdægurs og að vefverslunin hafi gott og mikið vöruúrval sem endurnýjast og stækkar í sífellu. Það sem margir aðrir seljendur höfðu gert var að láta netið mæta afgangi, og frekar en að sýna metnað var einhver frændi fenginn til að huga að vefversluninni af og til. Meira að segja stóru risarnir, sem hefðu átt að draga vagninn, sýndu netverslun takmarkaðan áhuga.“

Guðmundur segir að það hafi verið langhlaup að koma starfsemi Heimkaup.is í gott horf, því nauðsynlegt var að byggja upp stóran viðskiptavinahóp til að geta afhent vörurnar með hagkvæmum hætti. „Heimsending er mjög dýr og það þarf að ná magninu upp til að auka skilvirknina og lækka kostnaðinn við hverja pöntun. Þegar við vorum rétt að byrja þurfti kannski ekki nema tvo bílstjóra sem skiptu með sér tólf sendingum. Þeir skissuðu gróflega upp hvert pakkarnir áttu að fara og sirkuðu út bestu leiðina. Í dag erum við kannski að útbúa 150 sendingar á dæmigerðu kvöldi og blasir við að það þýðir að nýta má ökutæki og mannskap miklu betur og stundum að sendlarnir okkar afhenda fleiri en eina sendingu í sömu götuna í einni ferð, og jafnvel í sama stigaganginn. Þýðir það að við getum núna boðið ókeypis heimsendingu ef verslað er fyrir meira en 4.900 kr. í einu.“

Margfalt meira úrval en í stórmarkaði

Heimkaup.is fór í loftið í ársbyrjun 2013 og seldi í fyrstu sérvöru af ýmsu tagi. Fyrir aðeins réttum mánuði var svo tekið stórt skref með því að bæta við matvöru. Guðmundur segir útkomuna vera að viðskiptavinir geta fundið ótrúlegt úrval hjá vefversluninni.

„Þegar allt er talið erum við núna með rétt um 50.000 vörunúmer, en til að setja þá tölu í samhengi má reikna með að í dæmigerðri Bónusverslun séu um 3.500 vörunúmer í hillunum. Er vöruúrvalið okkar hér um bil fjórfalt fjölbreyttara en það sem finna má í stærstu stórmörkuðum landsins. Bara í bókadeildinni eru yfir 5.000 titlar í boði og held ég að sé vandfundin sú bókabúð í bænum sem er með annað eins úrval.“

Heimkaup.is er ekki milliliður fyrir aðra seljendur heldur rekur sinn eigin lager miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Þar iðar allt af lífi og notast er við úthugsaða aðferðafræði til að nýta plássið sem best og létta vinnu fólksins sem raðar saman pöntununum sem berast. Afgreiðslan gengur hratt og vel fyrir sig og ef pantanir berast á milli kl. 13 og 15 eru þær farnar af stað með sendli á milli kl. 15 og 17.

Formúlan hefur gengið upp og fjölgar viðskiptavinunum jafnt og þétt. „Velta okkar jókst um 50% á síðasta ári og held ég að fáir í smásölu geti státað af svo miklum vexti. Um leið bætast að jafnaði við um 1.000 ný vörunúmer í hverjum mánuði svo að úrvalið stækkar og stækkar – og það á sama tíma og stórmarkaðirnir eru að minnka hjá sér plássið og draga úr vöruúrvalinu. Er það úrvalið sem mun hjálpa okkur að halda í viðskiptavinina og bæta við nýjum á meðan hinar verslanirnar fækka vörunúmerunum.“

Þægindin gera útslagið

Margir neytendur tengja vefverslanir við lágt verð og álykta sem svo að þar sem seljandinn þurfi ekki að halda úti verslun á góðum stað, þar sem vítt er til veggja og hátt til lofts, og starfsmenn á sveimi til að þjónusta viðskiptavininn, hljóti að vera ódýrara að reka vefverslun en hefðbundna búð. Guðmundur segir þessa sýn ekki alveg rétta, og að það skekki markaðinn á vissan hátt að keppinautar á borð við Ali Express reki vöruhús í löndum þar sem laun eru mjög lág, og njóti meira að segja góðs af niðurgreiðslu íslenska ríkisins á póstburðargjöldum:

„Vissulega þarf ekki að innrétta fallegt verslunarrými en á móti kemur að ég verð t.d. að hafa fjóra forritara í fullri vinnu við að halda síðunum okkar við, og reksturinn er mannaflsfrekur enda starfsfólk okkar sem raðar í körfuna fyrir viðskiptavininn og færir honum innkaupin heim að dyrum.“

Með útsjónarsemi og aðhaldi tekst samt að halda verðunum hjá Heimkaup.is sambærilegum við aðrar verslanir og segir Guðmundur að þá geri þægindin útslagið þegar neytandinn þarf að velja á milli þess að panta á netinu eða fara sjálfur út í búð. „Það getur hæglega tekið 45 mínútur og upp í klukkustund að aka út næstu matvöruverslun, þræða hillugangana, láta skanna á kassa og bera út í bíl, og það er tími og umstang sem fólk munar um.“