25. janúar 1952 Sveinn Björnsson lést, 70 ára. Hann var sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn í nær tvo áratugi og kjörinn ríkisstjóri Íslands 1941. Þegar lýðveldið var stofnað, 17.

25. janúar 1952

Sveinn Björnsson lést, 70 ára. Hann var sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn í nær tvo áratugi og kjörinn ríkisstjóri Íslands 1941. Þegar lýðveldið var stofnað, 17. júní 1944, var Sveinn kosinn fyrsti forseti Íslands á Alþingi og tvisvar þjóðkjörinn forseti, 1945 og 1949.

25. janúar 1980

Kvikmyndin Land og synir var frumsýnd í Reykjavík og á Dalvík. Ágúst Guðmundsson gerði myndina eftir sögu Indriða G. Þorsteinssonar. Hún var fyrst í röð nýrra íslenskra kvikmynda.

25. janúar 1990

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt í fyrsta sinn. Þau hlaut Stefán Hörður Grímsson fyrir ljóðabókina Yfir heiðan morgun.

25. janúar 2011

Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 vegna annmarka á framkvæmd hennar. „Herfilegt áfall fyrir gróið lýðræðisríki,“ sagði Fréttablaðið.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson