Árni Vilberg Sigurðsson múrari fæddist í Hafnarfirði 8. október 1945. Hann lést á líknardeild Landspítalans 13. janúar 2019.

Foreldrar Árna voru hjónin Jólín Ingvarsdóttir, f. 1. nóvember 1924, d. 10. desember 2004, og Sigurður Lárus Árnason múrarameistari, f. 23. október 1921, d. 5. mars 1969. Árni átti tvö systkini þau, Ingvar Jóhann, f. 23. desember 1949, d. 2. apríl 1963, og Arnbjörgu, f. 25. nóvember 1952. Eiginmaður Arnbjargar er Ástgeir Þorsteinsson, f. 6. september 1950. Fyrri eiginkona Árna var Guðlaug Bára Þráinsdóttir, f. 19. nóvember 1945, d. 7. desember 2014, þau skildu. Dóttir þeirra er Guðrún Árný Árnadóttir, f. 7. febrúar 1969, eiginmaður hennar er Jens Jóhannsson, f. 28. febrúar 1969. Börn þeirra eru: Ásthildur Bára, f. 18. desember 1993, Árni Björn, f. 23. apríl 2002, og Gunnar Alex, f. 16. september 2008. Árni og Bára bjuggu í mörg ár í Ólafsvík og síðar á Selfossi. Seinni eiginkona Árna er Sólrún Ósk Sigurðardóttir, f. 14. júlí 1961. Foreldrar hennar eru Sigurður Ág. Kristjánsson, f. 1 ágúst 1929, d. 26 febrúar 2011, og Svala Aðalsteinsdóttir, f. 5. september 1933. Sonur Sólrúnar er Þorgeir Lárus, f. 20. október 1992, en Árni ættleiddi hann árið 2005. Síðastliðin 20 ár hafa þau Árni og Sólrún verið búsett í Kópavogi.

Útför Árna fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 25. janúar 2019, klukkan 13.

Kæri Árni, nú er komið að kveðjustund og minningarnar hrannast upp.

Við höfum verið samferða í gegnum lífið, bæði fædd á Holtsgötunni og fluttum svo á Hólabrautina þar sem feður okkar byggðu sér hús saman. Þar áttum við ljúfa frumbernsku. Ég var svo heppin að hafa ykkur systkinin á neðri hæðinni sem leikfélaga. Leiksvæðið var skemmtilegt, lékum í nýbyggingum, bófaleikjum, í yfir og fórum niður í fjöru til að veiða og vaða. Mér fannst óréttlátt þegar pabbi keypti flott byssubelti og riffil fyrir þig og Ingvar en ekkert fyrir mig, en þá fékk ég bara lánað.

1957 fjölgaði þegar Arna systir fæddist og við fluttum til Eyja. Þú komst þangað, bjóst hjá okkur um tíma og vannst í fiski. Það eru líka áföll í lífinu, Arna dó og við fluttum aftur á Hólabrautina 1962 og þið fjölskyldan reyndust mér vel í minni sorg. Ingvar bróðir þinn lenti svo í hræðilegu slysi 1. apríl 1963 og lést nokkrum dögum seinna. Það var mikið áfall fyrir alla fjölskylduna. Arna yngri fæddist svo 6. apríl og ég fermdist stuttu síðar. Við Ingvar áttum að fermast saman. Fermingardagurinn var skrítinn dagur fyrir okkur öll.

Lífið hélt áfram og var oft mikið fjör í kringum þig og ég man vel þegar ég hitti þig og Arnar frænda á sveitaballinu í Aratungu. Þá var lítill tími fyrir tiltekt og þrif en þú vildir samt alltaf hafa snyrtilegt í kringum þig. Þá plataðir þú okkur Öddu systur þína oft til að þrífa og gast borgað ansi vel. Þú varst glaður og stoltur þegar þú sagðir mér að þú værir að fara í Iðnskólann að læra múrverk eins og pabbi þinn. Mér fannst þú svo duglegur því þetta var kvöldskóli sem bættist við langan vinnudag.

Svo kom ástin hún Bára þín og lífið hægði á sér, við giftum okkur sama ár og fluttum af Hólabrautinni en ekki langt hvort frá öðru þannig að auðvelt var að hittast. En sorgin var ekki langt undan, pabbi þinn dó 5. mars 1969 og það var mikið áfall fyrir ykkur öll og aftur þurfti að takast á við sorgina.

Það var þó líka gleði því þarna var fædd lítil dama, hún Guðrún Árný, mikill sólargeisli fyrir alla. Þið fluttuð svo til Ólafsvíkur. Það lengdist á milli okkar þar til við Kalli fluttum vestur á firði. Þið fluttuð svo á Selfoss þar sem sambúð ykkar Báru lauk og þið fluttuð í bæinn. Stundum gekk illa að ná í þig, þá fékk ég fréttir af þér hjá mömmu þinni og Öddu. Oftast tókst að ná í skottið á þér á afmælinu þínu ýmist símleiðis eða kíkt í heimsókn.

Fyrir um tuttugu árum kynntist þú henni Sólrúnu og tókstu Þorgeir að þér sem þinn son. Sambandið varð meira, stutt að skreppa í Kjarrhólmann, taka spjall og horfa á Esjuna sem blasti við. Það var gaman að heyra þig segja frá börnunum þínum, hvað þú varst stoltur af þeim. Þorgeir búinn að koma sér vel fyrir í sinni íbúð og Árný flutt í Daltúnið þar sem við vorum nágrannar í nokkur ár. Ég kynntist þessari ungu frænku minni og hennar fjölskyldu betur.

Ég er þakklát fyrir spjallið okkar í vetur og það gladdi okkur að þið náðuð að koma í heimsókn til okkar á Fossá í nóvember. Þú varst svo bjartsýnn um jólin um að krabbinn væri farinn en svo var ekki og þú kvaddir Esjuna þína bjarta og fallega sunnudaginn 13. janúar.

Minningin lifir.

Þín frænka,

Helga Einars og fjölskylda.

Í dag verður til grafar borinn Árni mágur minn sem fæddur var í Hafnarfirði og bjó á Hólabrautinni öll sín uppvaxtarár. Ég kynntist Árna fyrst fyrir 47 árum er ég fór að gera hosur mínar grænar fyrir systur hans. Það var gott að eiga Árna að sem vin. Ég minnist þess er hann og fyrrverandi kona hans, Guðlaug Bára Þráinsdóttir sem nú er látin, bjuggu í Ólafsvík hér á árum áður en það var gott að koma í heimsókn til þeirra enda komum við Adda eins oft og hægt var til að eiga samverustund með þeim hjónum.

Eins var það eftir að þau fluttu á Selfoss, þar sem við Adda bjuggum á þeim tíma þá urðu kynnin enn nánari enda ekki eins langt að fara í heimsókn og áður. Það er hægt að segja að Árni var ekki allra en líkaði honum persónan þá var vel tekið á móti viðkomandi, ég minnist þess ekki að hafa heyrt Árna nokkru sinni hallmæla nokkrum manni.

Það var oft glatt á hjalla þegar við mágarnir fengum okkur örlítið í aðra tána og voru þá öll mál rædd hvort sem um var að ræða trúmál, pólitík eða einhverja aðra viðburði. Eitt lærði ég fljótt, að reyna ekki að taka upp rökræður við hann því hann gat verið alveg ótrúlegur á þeim vettvangi og gafst ég yfirleitt upp þó svo að ég teldi mig vita betur. Já, hann gat verið ansi þrjóskur en í þeirri þrjósku leyndist yfirleitt einhver stríðni því í Árna bjó mikill húmor.

Ég varð þess aðnjótandi að búa í stuttan tíma í Ólafsvík og starfaði þá með Árna og samstarfsmanni hans til margra ára, Þráni Þorgrímssyni. Ég hefði ekki viljað missa af þessum tíma því það var stórkostlegt að fá að vera með þessum mönnum, hvor um sig miklir gleðimenn hvort sem var í starfi eða utan þess, enda var vinnudagurinn fljótur að líða þar sem eilíflega var verið að segja skemmtilegar sögur með miklum tilþrifum.

Árna er sárt saknað af hans nánustu og þá sérstaklega af barnabörnum hans sem elskuðu hann afa sinn sem þrátt fyrir mikinn eril vegna vinnu átti alltaf tíma fyrir þau. Síðustu árin bjó Árni í Kópavogi ásamt eiginkonu sinni, Sólrúnu Ósk Sigurðardóttur, og syninum Þorgeiri Árnasyni. Við fjölskyldan biðjum góðan guð að varðveita kæra eiginkonu, dóttur, son, tengdason og barnabörnin þrjú.

Farðu í friði, kæri vinur.

Þinn mágur,

Ástgeir (Geiri).