Matthildur Söngleikur eftir sögu Roalds Dahls verður brátt frumsýndur í Borgarleikhúsinu. Ein persónan mun heita Karítas Mínherfa en ekki Krýsa.
Matthildur Söngleikur eftir sögu Roalds Dahls verður brátt frumsýndur í Borgarleikhúsinu. Ein persónan mun heita Karítas Mínherfa en ekki Krýsa.
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það er rétt að við gerðum athugasemd við þessi nöfn,“ segir Sólveig Sif Hreiðarsdóttir, þýðandi og útgefandi hjá bókaútgáfunni Kveri.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er rétt að við gerðum athugasemd við þessi nöfn,“ segir Sólveig Sif Hreiðarsdóttir, þýðandi og útgefandi hjá bókaútgáfunni Kveri.

Morgunblaðið greindi í gær frá því að Borgarleikhúsið ætlaði að halda sig við nafnið Karítas Mínherfa á einni sögupersónu í söngleiknum Matthildi sem frumsýndur verður um miðjan mars. Söngleikurinn er byggður á frægri bók Roalds Dahls en um nýja þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar er að ræða. Þýðing Sólveigar á bókinni Matthildi kom út í nóvember 2017 og hefur notið mikilla vinsælda. Bókin hefur verið prentuð í sérstakri söngleikjaútgáfu í tilefni af væntanlegri frumsýningu og er gott samstarf milli útgáfunnar og leikhússins, að sögn Sólveigar. Í þýðingu Sólveigar heitir umrædd persóna Krýsa.

Í samtali við Morgunblaðið segir Sólveig að hún hafi komið eintaki af bókinni til Gísla Rúnars þegar upplýst var að hann myndi þýða verkið. Það séu því vonbrigði að hann hafi kosið að notast við annað nafn.

„Það eru vonbrigði krakkanna vegna enda getur þetta ruglað þá í ríminu. Betra hefði verið ef það væri samfella á milli,“ segir Sólveig sem, kveðst deila þeirra skoðun að illmenni í barnabókum skuli ekki bera hversdagsleg nöfn.

Sólveig kveðst engu að síður spennt fyrir frumsýningu söngleiksins. Hún hafi séð hann úti í London og telur að von sé á góðu. „Ég vona að allt gangi vel og krakkarnir átti sig á þessu.“