Guðrún Erlingsdóttir
ge@mbl.is
Einstaklingar sem voru utangarðs og/eða heimilislausir árið 2017 voru 349 og hafði fjölgað um 228 frá 2009. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar.
Þar kemur fram að meðal tillagna sem Velferðarvaktin leggur til í málefnum þessa hóps er að koma upp dagdvöl með snyrtiaðstöðu, sturtu, mat, fataúthlutun, hvíldaraðstöðu, virkni, launuðum verkefnum, félagsráðgjöf og heilbrigðisþjónustu.
Einstaklingar sem eru utangarðs og/eða heimilislausir hafa í fá hús að venda þegar gistiskýlin eru lokuð yfir daginn. Regína Ásvaldsdóttir, sviðstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir að við athugun velferðarsviðs um áramótin hafi 50 einstaklingar í verulegum vímuefnavanda verið í forgangi fyrir búsetuúrræði.
Regína segir að fimmtungur gesta sem gisti í gistiskýlinu við Lindargötu og í Konukoti sé með lögheimili utan Reykjavíkur. Þeir gestir séu frá Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Akureyri, Árborg og Garðabæ og 10 einstaklingar séu frá öðrum sveitarfélögum. Alls gistu 58 einstaklingar með lögheimili utan Reykjavíkur í gistiskýlinu og í Konukoti í 624 nætur árið 2018.
Regína segir að þegar kaldast sé úti sé dýnum bætt við í gistiskýlinu við Lindargötu þannig að allir hafi í einhver hús að venda.