Klamydíusýkingum fækkaði umtalsvert á síðasta ári frá því sem var árin á undan, samkvæmt embætti sóttvarnalæknis. Þá dró einnig úr tilfellum af sárasótt á árinu. Hins vegar fjölgaði lekandtilfellum og HIV-smitum á árinu 2018.

Klamydíusýkingum fækkaði umtalsvert á síðasta ári frá því sem var árin á undan, samkvæmt embætti sóttvarnalæknis. Þá dró einnig úr tilfellum af sárasótt á árinu. Hins vegar fjölgaði lekandtilfellum og HIV-smitum á árinu 2018.

Í Farsóttafréttum, fréttabréfi sóttvarnalæknis, segir að samtals hafi 1.634 tilfelli af klamydíu greinst á árinu 2018 en 2.197 tilfelli árið 2017, en það er um 26% fækkun. Þá er tekið sérstaklega fram að konur hafi verið 54% þeirra sem greindust á árinu, en karlmenn eru í meirihluta þeirra sem greinast með sárasótt, lekanda eða HIV-smit.

Dregið úr kynjamun

Þrjátíu ný tilfelli af sárasótt greindust á árinu, sem er nokkur fækkun frá árinu 2017 en svipað og árið þar á undan. Segir í farsóttafréttum að það sé há tíðni og að verulega hafi dregið úr kynjamun frá árinu 2015. Það ár voru 90% þeirra sem smituðust af sárasótt karlmenn, en karlar voru einungis um 60% þeirra sem smituðust árið 2018. Þá segir að flestir þeirra sem hafi greinst með sárasótt hafa verið íslenskir ríkisborgarar en að á síðasta ári hafi skipting sárasóttartilfella verið jöfn milli fólks með erlent og innlent ríkisfang.

Annað árið í röð greindust fleiri en hundrað manns með lekanda og segir í fréttabréfi sóttvarnalæknis að það sé fyrst og fremst fólk með innlent ríkisfang sem greinist með lekanda. Þá eru karlmenn í miklum meirihluta þeirra sem greindust á árinu, eða 84%.

Þá fjölgaði þeim mikið sem greindust með HIV á síðasta ári, en 39 greindust árið 2018 miðað við 28 árið áður. Sérstaklega er tekið fram í fréttabréfinu að 30 af þeim 39 voru af erlendu bergi brotnir. Talið er að fimm einstaklingar hafi smitast á Íslandi og tveir af þeim vegna fíkniefnaneyslu.