Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins voru kynntar fjárfestingar á vegum hins opinbera fyrir um 130 milljarða í innviðum á Íslandi í ár. Það er um 50 milljörðum króna meira en í fyrra sem er 60% aukning. Fjárfestingin nemur hundruðum milljarða á næstu árum. Skiptist hún m.a. í orkuinnviði, hafnarmannvirki, skóla, vegamannvirki og stækkun Leifsstöðvar.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir hið opinbera verða að nýta það svigrúm sem skapist þegar fjárfesting atvinnuveganna dregst saman og hægist á gangi hagkerfisins. Hafa beri í huga að mikil uppsöfnuð þörf sé fyrir fjárfestingu í innviðum eftir fjársvelti síðustu tíu ár.
„Með hliðsjón af því hvar við erum í hagsveiflunni töldum við hjá SI að árið 2018 yrði nýtt til undirbúnings fyrir framkvæmdaárið 2019. Þetta virðist vera að ganga eftir. Það stefnir í gott ár fyrir iðnaðinn,“ segir Sigurður. Spáin sé heldur varfærin. Ætla megi að fjárfestingin á árunum 2020-2022 verði jafnvel umfram þessa áætlun.
„Ég myndi ætla að framkvæmdir yrðu jafnvel ívið meiri en þarna er spáð. Það kom meðal annars fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Menn sjá betur styttra fram í tímann,“ segir Sigurður og bendir svo á að Landsvirkjun sé eini aðilinn á útboðsþinginu sem geri ráð fyrir samdrætti í umsvifum milli 2018 og 2019. Orka náttúrunnar og Landsnet geri ráð fyrir aukningu.
Uppbygging í fluginu
Jafnframt sé kröftug uppbygging á Keflavíkurflugvelli áformuð í ár, ásamt því sem framkvæmdir Framkvæmdasýslu ríkisins aukist milli ára 2018 og 2019. Þar komi m.a. til nýr meðferðarkjarni Landspítalans og Hús íslenskra fræða.
Sigurður segir aðspurður að ekki verði vandamál að finna vinnuafl í öll þessi verkefni. Til dæmis séu nú færri starfandi í byggingariðnaði en árið 2007. Launþegar séu nú um 14 þúsund en hafi verið 16 þúsund þegar mest lét fyrir efnahagshrunið.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu áforma að verja hundruðum milljarða til framkvæmda á næstu fjórum árum, 2019-2022. Samstæða Reykjavíkurborgar hyggst fjárfesta fyrir 164 milljarða þessi ár og hin sveitarfélögin 48 milljarða. Það samsvarar um 4,4 milljörðum á mánuði.
Minna fé í vegaframkvæmdir
Framkvæmdasýsla ríkisins mun bjóða út verk fyrir 19,7 milljarða í ár.
Vegagerðin áætlar að 12,2 milljörðum verði varið til nýframkvæmda í vegamálum í ár, eða 1,6 milljörðum minna en í fyrra. Þá verður 9,7 milljörðum varið til viðhalds í ár, eða um 800 milljónum minna en í fyrra (tölur eru á verðlagi 2019). Fram kom í kynningu Isavia að félagið hyggst hefja framkvæmdir við viðhald flugbrauta og akbrautir á Keflavíkurflugvelli í júní og ljúka þeim hluta í september. Þá stendur til að endurnýja akbrautarljós og setja upp fjórar landgöngubrýr og byggja jafn mörg þjónustuhús.
Mun umfangsmeiri framkvæmdir við völlinn eru svo áformaðar.