Endurkoma Lilja Alfreðsdóttir gengur frá Gunnari Braga Sveinssyni eftir að hafa átt við hann orðastað.
Endurkoma Lilja Alfreðsdóttir gengur frá Gunnari Braga Sveinssyni eftir að hafa átt við hann orðastað. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðbrögð í þingsal voru blendin og andrúmsloftið þungt þegar Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, tóku á ný sæti á Alþingi í gær.

Viðbrögð í þingsal voru blendin og andrúmsloftið þungt þegar Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, tóku á ný sæti á Alþingi í gær. Þeir fóru sem kunnugt er í leyfi frá þingstörfum í byrjun desember í kjölfar þess að upptökur voru birtar af samræðum þeirra og fjögurra annarra þingmanna Miðflokks og Flokks fólksins á Klaustur bar 20. nóvember sl.

Bergþór sagði í grein í Morgunblaðinu í gær að hann hygðist halda áfram þingmennsku. Tilkynning um að hann og Gunnar Bragi tækju sæti á þingi að nýju birtist síðan á vef Alþingis skömmu áður en þingfundur hófst í gærmorgun. Gunnar Bragi sendi jafnframt frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist hafa tekið sér leyfi vegna þess að hann vildi skoða hug sinn, safna kröftum og ræða síðan við bakland sitt.

„Ég iðrast og hef beðist fyrirgefningar á orðum mínum og geri það enn á ný. Ég hef leitað ráðgjafar og um leið notið mikils skilnings og stuðnings ættingja, vina og félaga innan flokks og utan. Þakka ég þeim hvatninguna og traustið,“ sagði þar jafnframt.

„Fyrstu dagar þingfunda á nýju ári, og framganga forseta Alþingis að undanförnu, er með þeim hætti að annað er óhjákvæmilegt en að nýta sér allan rétt til þess að vera inni á þeim leikvelli þar sem að mér er sótt og svara fyrir mig á þeim vettvangi en ekki utan hans. Þess vegna mæti ég á nýjan leik til starfa minna á Alþingi í dag [gær].“

Í samtali við mbl.is í gær sagði Gunnar Bragi að margir á Alþingi hefðu tekið vel á móti þeim en eðlilega væru ekkert allir ánægðir með að fá þá til baka. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í upphafi þingfundarins sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, m.a. að það hefði sett hana úr jafnvægi að sjá Klaustursmenn sitja í þingsalnum eins og ekkert hefði ískorist. „En við verðum víst að halda áfram,“ bætti hún við.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði að sér þætti nú „heldur skuggsýnt“ yfir þingsalnum. Fleiri þingmenn gagnrýndu endurkomu þingmannanna á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra átti m.a. orðaskipti við Gunnar Braga í þingsalnum og sagði í kjölfarið við fréttamann RÚV að hún hefði ekki átt von á þeim Gunnari Braga og Bergþóri á Alþingi í gær og að samtal hennar við Gunnar Braga hefði snúist um það. Hún hefði ekki verið sátt við þessa framkomu þeirra.

Þingflokksformenn funduðu

Steingrímur J. Sigfússon boðaði þingflokksformenn á fund um hádegisbil í gær. Hann staðfesti í samtali við mbl.is að óskað hefði verið eftir fundinum, fyrst af einum þingflokksformanni en fleiri hefðu síðan tekið undir. „Ég varð að sjálfsögðu við því. Við hittumst í hádeginu og ræddum okkar innri mál,“ sagði Steingrímur en vildi ekki fara nánar út í tilefni fundarins.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, sagði við mbl.is að tilefni fundarins hefði verið endurkoma Gunnars Braga og Bergþórs Ólasonar.

„Þetta er mjög leiðinlegt mál. Þeir virðast ætla að koma með offorsi inn á þingið aftur og þeim konum sem lent hafa á milli tannanna á þeim líður ekki vel yfir því hvernig þeir haga sér,“ sagði Guðmundur Ingi við mbl.is.