[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt að veita Landsneti framkvæmdaleyfi til að færa Hamraneslínur frá íbúðarhúsum við Skarðshlíð í Vallahverfi. Framkvæmdir geta þá hafist þegar útboðum lýkur.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt að veita Landsneti framkvæmdaleyfi til að færa Hamraneslínur frá íbúðarhúsum við Skarðshlíð í Vallahverfi. Framkvæmdir geta þá hafist þegar útboðum lýkur. Kostar uppbygging nýrra mastra og lagning lína um 330 milljónir króna, auk kostnaðar við niðurrif gömlu línunnar.

Landsnet hefur undirbúið lagningu Lyklafellslínu sem liggja á frá nýju tengivirki við Lyklafell nálægt Suðurlandsvegi að tengivirki við álverið í Straumsvík. Sveitarfélögin settu línuna inn á skipulag. Tilgangurinn var að skapa möguleika á niðurrifi Hamraneslína 1 og 2 og Ísallína 1 og 2 en þær þrengja orðið að byggð.

Millileikur í framkvæmdinni

Framkvæmdir áttu að vera hafnar. Undirbúningur stöðvaðist hins vegar þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar á þeirri forsendu að ekki hefði verið hægt að gefa það út á grundvelli umhverfismats sem gert hafði verið.

Búið er að byggja íbúðarhús að línunum í Hafnarfirði. Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, segir að eftir viðræður við bæjaryfirvöld hafi verið ákveðið að leika þann millileik að færa línurnar frá hverfinu.

Hafnarfjarðarbær gerir ráð fyrir að svæðið í heild, Skarðshlíð og Hamranes, rúmi hátt í 2.000 íbúðir. „Ég fagna því mjög að framkvæmdaleyfin séu nú samþykkt og að við sjáum loks fyrir endann á flutningi Hamraneslínunnar. Við höfum um langt skeið barist fyrir því að koma þessum málum í réttan farveg. Sannarlega hefði verið gott fyrir alla hlutaðeigandi að hefja þessar framkvæmdir fyrir nokkuð löngu og höfum við beðið lengi eftir þessum degi,“ er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra á vef bæjarins.

Átta ný möstur

Reist verða 8 ný möstur á um rúmlega 2 km kafla. Línurnar eru tvær og því þurfa þau að vera öflug. Í staðinn verða 5 möstur tekin niður.

Áætlað er að hefja framkvæmdir við varanlega Lyklafellslínu síðari hluta árs 2020, samkvæmt kerfisáætlun Landsnets, og ljúka verkinu í byrjun árs 2022.

Bærinn úthlutar lóðum

Uppbygging á nýju hverfi í Skarðshlíð skiptist í þrjá áfanga og hefur öllum lóðum í áfanga 1, sem stendur á flata undir Skarðshlíðinni sjálfri og rýmir fjölbýlishús, verið úthlutað, samkvæmt upplýsingum Hafnarfjarðarbæjar. Lóðir í áfanga 2 eru nú til úthlutunar og hefur nokkrum hluta þeirra þegar verið úthlutað.

Gert er ráð fyrir að opnað verði fyrir úthlutun lóða í síðasta áfangann á vormánuðum en þar stendur nú yfir undirbúningur og deiliskipulagsvinna. Strax í framhaldinu mun Hamranesið í heild sinni koma til úthlutunar.