Helgi Már segir drónatilraunirnar ganga svo vel að tæknirisar á borð við Amazon og Google fylgist spenntir með.
Helgi Már segir drónatilraunirnar ganga svo vel að tæknirisar á borð við Amazon og Google fylgist spenntir með. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veltan hjá Aha.is jókst um 51% á síðasta ári og stefnan er sett á drónabyltingu með 100 drónasendingum á dag næsta sumar.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Leitun er að þeirri netverslun á Íslandi sem á sér lengri sögu en Aha.is. Helgi Már Þórðarson og Maron Kristófersson gerðu fyrst tilraun með að selja landsmönnum matvöru yfir netið árið 2000. „Ætlunin var að halda úti verslun sem seldi eingöngu þurrvörur, s.s. kornflögur, kex og salernispappír. Sú tilraun heppnaðist ekki nægilega vel svo að ég fór að vinna hjá CCP og Maron hellti sér út í túnfiskviðskipti víða um heim,“ útskýrir Helgi.

„Svo lendum við á spjalli í jólaboði árið 2010, og berst í tal bandaríska fyrirtækið Groupon sem var þá að gera mikla lukku með sölu afsláttartilboða á netinu. Við hugsuðum sem svo að sama nálgun ætti að geta gengið vel á Íslandi, og var þar með kominn fyrsti fóturinn undir boðið,“ segir Helgi en þeir Maron létu verkin tala og fljótlega hafði Aha.is litið dagsins ljós. „Þá bættist næsti fótur við árið 2014 með því að taka við pöntunum og annast heimsendingu fyrir veitingastaði, og síðan 2017 að verslunin okkar hóf að bjóða upp á heimsendingu frá verslunum Nettó.

Á ferðinni á 20 rafmagnsbílum

Í dag er Aha.is orðið allstórt fyrirtæki þar sem starfa um 60 manns, þar af í kringum 45 bílstjórar. „Við notum 20 rafmagnsbíla til að dreifa vörum og veitingum frá 8 á morgnana til 11 á kvöldin,“ bætir Helgi við en hjá Aha má m.a. finna vörur frá Forlaginu, Fjallakofanum, Móðurást og Pfaff, eða dýrindis tilbúinn mat frá veitingastöðum á borð við Jamie‘s Italian, Lemon og Hamborgarafabrikkunni. Tilboðin sem auglýst eru í augnablikinu spanna allt frá augnabrúnahúðflúrun hjá Snyrtistofunni Mist yfir í fæðubótarefni hjá Vaxtarvörum.

Reiknast Helga til að í netversluninni megi finna um 50.000 ólíkar vörur frá 20 seljendum, og mörg hundruð rétta á matseðlum veitingastaðanna sem Aha starfar með. Hafa umsvifin aukist jafnt og þétt, en þó hraðar með hverju árinu. Segir Helgi að síðasta ár hafi orðið algjör sprenging þar sem velta jókst samtals um 51%, en hlutfallslegur vöxtur verslunar var 331% og veitingasalan jókst um 33% miðað við árið á undan. „Viðskiptavinir okkar eru núna orðnir meira en 110.000 talsins og lætur nærri að tvö af hverjum þremur heimilum á höfuðborgarsvæðinu hafi einhverntíma verslað við Aha. Þessi stóri viðskiptavinahópur hjálpar okkur síðan að stækka enn frekar, enda líta fyrirtæki á Aha sem leið til að nálgast allan þennan fjölda.“

Segir Helgi að netverslun sé greinilega í mikilli sókn og íslenskir neytendur duglegir að skoða úrvalið á netinu. „Ef þig t.d. vantar hamar þá ferðu ekki og þræðir byggingavöruverslanirnar heldur einfaldlega kíkir á Aha.is, og vefsíður Byko, Húsasmiðjunnar og Bauhaus til að finna þann hamar sem hentar best,“ útskýrir hann.

Reynt að lækka sendingarkostnaðinn

Meðal þess sem helst hefur þótt standa íslenskri netverslun fyrir þrifum er að sendingarkostnaður er hærri en víða í löndunum í kringum okkur. Helgi vonast til að jafnt og þétt takist að lækka sendingarkostnaðinn og hefur Aha gert nokkrar árangursríkar tilraunir á því sviði. „Við getum t.d. boðið ókeypis heimsendingu á matarinnkaupunum þegar verslað er fyrir 15.000 kr. eða meira, sem er hægur vandi ef fjórir eða fleiri eru í heimili, en svo eru líka ófáir sem að hreinlega hafa reiknað það út að tímasparnaðurinn er vel þess virði ef komast má fyrr heim úr vinnu og sleppa við að heimsækja matvöruverslun eða veitingastað á leiðinni.,“ útskýrir hann. „Þá höfum við sérstakt átak síðustu fimm daga hvers mánaðar þar sem þakið fyrir ókeypis heimsendingu fer niður í 5.000 kr og hefur það gefið góða raun.“

Meðal þess sem torveldar að ná sendingarkostnaði niður er að laun á Íslandi eru há og þá er, veðursins vegna, fátt annað í boði en að nota bíla til að sendast frekar en reiðhjól eða vespur. „Aðstæður eru ekki eins og í London þar sem heill her sendla er á ferðinni og t.d. hægt að fá kvöldmatinn heim að dyrum gegn aðeins 2 eða 5 punda þóknun,“ segir Helgi og bætir við að Aha hafi nær alla sína sendla á launaskrá, frekar en að nota verktaka. „Við byrjuðum á verktakamódelinu en rákum okkur á ótal vandamál. Munaði þar ekki síst um að með því að notast við eigin starfsmenn gátum við tryggt gott þjónustustig, en með því að blanda saman veitingastaðapöntunum og heimsendingu matarinnkaupa tekst að dreifa verkefnunum nokkuð vel yfir daginn og nýta mannauð og ökutæki betur.“

Drónarnir eru framtíðin

Aha vinnur að því að draga úr sendingarkostnaði, og á sama tíma bæta þjónustu enn frekar, með því að taka dróna í sína þjónustu. Segir Helgi að Aha sé orðið svo framarlega á þessu sviði að bandarískir tæknirisar á borð við Amazon og Google hafi reglulega samband til að fræðast um nýjustu tilraunirnar. Hafa drónar Aha þegar flogið með hartnær 500 sendingar og er stefnan sett á 100 sendingar daglega næsta sumar.

„Þeir tveir drónar sem við erum með í notkun núna geta ekki borið meira en 3 kílóa farm, en þriðji dróninn var að bætast við sem ekki aðeins getur borið 10 kíló heldur getur flogið við nánast hvaða veðurskilyrði sem er,“ útskýrir Helgi.

Aha á í góðu samstarfi við yfirvöld svo að drónatilraunirnar geti gengið sem best fyrir sig en gæta þarf að því að fá leyfi fyrir fluginu og tryggja að drónar stofni t.d. ekki flugumferð í hættu eða valdi ónæði í íbúðahverfum. Enn sem komið er yfirleitt ekki leyfilegt að drónar komi með vörur heim að dyrum viðskiptavinarins. „En jafnvel þó að sendill taki við vörunni á sérstökum lendingarstað, og fari með hana síðasta spölinn, þegar dróni hefur annast flutninginn frá miðstöð okkar í Reykjavík, þá sparast samt mikil tími og akstur. Í framtíðinni gætu ökutækin okkar verið bundin við tiltekin hverfi, hvert með sinn móttökustað fyrir dróna, og gætu þá sendlarnir sparað sér ótal ferðir til og frá Grensásveginum þar sem við höfum dreifingarmiðstöðina í dag.“