Nú hefur blessaður snjórinn komið sér vel fyrir á flestum stöðum landsins. Sumum til ama og öðrum til mikillar gleði. Víkverji telur að snjórinn laði fram það besta og versta í mannskepnunni og snjórinn geti verið mikill skaðvaldur en líka gleðigjafi.

Nú hefur blessaður snjórinn komið sér vel fyrir á flestum stöðum landsins. Sumum til ama og öðrum til mikillar gleði.

Víkverji telur að snjórinn laði fram það besta og versta í mannskepnunni og snjórinn geti verið mikill skaðvaldur en líka gleðigjafi. Sérstaklega fyrir yngri kynslóðina sem elskar að renna sér á snjóþotu eða dekki, fara á skauta og skíði, búa til snjókarla og fara í saklaust snjóboltastríð. Eldri einstaklingar hafa líka gaman af leikjum í snjó og verða gjarnan börn á ný ef þeim tekst að sleppa fram af sér beislinu.

Þegar snjórinn sest kemur í ljós hverjir bera umhyggju fyrir náunganum. Hverjir það eru sem moka frá ruslageymslunni til að auðvelda sorptæknum vinnu sína. Hverjir moka gönguleið til þess að létta póstburðarfólki og blaðberum lífið. Hverjir moka fyrir nágrannana eða hlaupa til á næsta götuhorni til þess að ýta föstum bíl.

Vissulega er það svo að ekki geta allir mokað snjó eða ýtt bílum og ekkert við því að segja. Enginn er skyldugur að moka snjó og létta öðrum lífið og hver og einn hefur val um hvað hann gerir. En að mati Víkverja hafa ökumenn ekki val um hvort þeir skafi af bílum sínum eða ekki, það er að segja ætli þeir að fara út í umferðina.

Víkverja finnst það alveg með ólíkindum hvernig sumum ökumönnum dettur í hug að fara út í umferðina með mjög svo takmarkað útsýni út úr bílnum. Það er óhugnanlegt að sjá ökumenn rýna út um framrúðuna í allri umferðarkösinni og sjá hvorki aftur fyrir bílinn né til hliðar.

Að mati Víkverja eiga slíkir ökumenn frekar að sitja heima eða nýta sér almenningssamgöngur til öyggis fyrir sjálfa sig og aðra vegfarendur.