Geirþrúður Sigurðardóttir fæddist í Haganesi í Mývatnssveit 31. október 1941. Hún lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 13. janúar 2019.

Foreldrar hennar voru Sigurður Stefánsson frá Haganesi í Mývatnssveit og Málmfríður Þorláksdóttir frá Skútustöðum í Mývatnssveit. Alsystkini Geirþrúðar eru Álfhildur, Þorlákur, Áslaug og Margrét.

Árið 1963 giftist Geirþrúður Jóni Þórissyni frá Baldursheimi í Mývatnssveit og þau bjuggu saman á Akureyri. Þeim varð tveggja barna auðið. Sonur þeirra, Sigurður Jónsson, kvæntur Annette J. de Vink. Þau eiga þrjár dætur: Þuríði Önnu, Líney Rut og Jónínu Maj. Dóttir Geirþrúðar og Jóns, Þuríður Jónsdóttir, lést á 19. aldursári.

Útför Geirþrúðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 25. janúar 2019, klukkan 13.30.

Orðin umhyggja, ást, seigla og dugnaður koma upp í huga okkar systra þegar við hugsum til Lillu móðursystur okkar sem nú hefur kvatt okkur. Lilla skipaði stóran og mikilvægan sess í lífi okkar systra. Hún sýndi okkur ómælda þolinmæði og umhyggju, var okkur sem önnur móðir, alltaf til staðar fyrir okkur og síðar börn okkar og maka. Norðurgatan var griðastaður okkar og í minningunni ómetanlegt athvarf. Heitur matur í hádeginu ásamt skipasúpu, skyrsúpu eða öðru góðgæti, nýsteiktar kleinur, ystingur og ýmiss konar bakstur, Gestur Einar og Hvítir mávar í útvarpinu eftir hádegismatinn, sungið og jafnvel dansað með. Hún stillti til friðar ef okkur systrum lenti saman og hafði alltaf nægan tíma fyrir okkur. Það var iðulega líf og fjör í Norðurgötunni, mikill gestagangur, m.a. Mývetningar, ættingjar og vinir í bæjarferð. Það var alltaf gaman fyrir okkur að fylgjast með umræðum og síðar taka þátt í þeim. Seinna nutu Þorgerður og Gísli þess að búa við hliðina á þeim Lillu, Jonna og Láka með litlu Hildi Valdísi sína þegar þau hófu búskap. Það reyndist þeim ómetanlegur stuðningur.

Hildi passaði hún gjarnan, setti hana út í vagn eftir hádegismatinn og leyfði henni að skoða bók þar til hún sofnaði. Svo fór hún út, fjarlægði bókina og setti vettlinga á litlu fingurna þegar hún var sofnuð. Svona er umhyggju Lillu vel lýst, alltaf að passa upp á alla í kringum sig. Lilla hugsaði um hann afa Sigga alla tíð í veikindum hans. Síðar vann hún á næturvöktum sem starfsstúlka á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hún naut þeirrar vinnu og hefði án efa sómt sér vel í starfi hjúkrunarfræðings. Í Mývatnssveitinni leið henni vel og við eigum ótalmargar góðar minningar þaðan, fyrst frá Skútustöðum en síðar úr Garði. Göngu-, hjóla- og hlaupaferðir, hellaskoðanir og ferðir í Baldursheim. Rúgbrauðsbakstur, sundferðir og ótalmargar fjósaferðir til Jóhönnu og Kára með börnunum okkar en fyrir þau átti hún ótakmarkaða þolinmæði og umhyggju.

Lilla lét aldrei mikið á sér bera.

Umhyggja, ást, seigla og dugnaður eru dyggðir sem verða ekki til þess að reistir eru minnisvarðar en kannski er það vegna þess að enginn minnisvarði myndi fanga þá gæfu sem fylgdi því að vera henni samferða.

Við erum ríkar og óendanlega þakklátar fyrir að hafa átt hana Lillu að. Við trúum því að Dudí hennar hafi beðið móður sinnar á himnum og þær séu nú sameinaðar á ný.

Sunnan yfir sæinn breiða

sumarylinn vindar leiða.

Draumalandið himinheiða

hlær, og opnar skautið sitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Gakk þú út í græna lundinn,

gáðu fram á bláu sundin.

Mundu, að það er stutt hver stundin

stopult jarðneskt yndi þitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Allt hið liðna er ljúft að geyma,

láta sig í vöku dreyma.

Sólskinssögum síst má gleyma,

segðu engum manni hitt!

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

(Jóhannes úr Kötlum)

Takk fyrir allt, elsku Lilla.

Stelpurnar þínar,

Þorgerður, Kristín

og Málmfríður.

Þegar við hugsum til Lillu frænku er það efst í huga okkar hve heilsteypt, traust og hlý hún var og það æðruleysi sem hún sýndi alla tíð. Við vorum systradætur og hefur sambandið milli fjölskyldnanna alltaf verið mjög náið þrátt fyrir að við byggjum hvor á sínum hluta landsins.

Fyrsta samveran var á Skútustöðum í Mývatnssveit þar sem við systur Affa og Erna vorum í sveit hjá ömmu og frændfólki okkar. Á sumrin var gengið í kringum Stakhólstjörn, vestur í Borgir að finna skúta og bíða af sér rigninguna, farið í berjamó og leiki ásamt því að sinna þeim störfum sem okkur var treyst fyrir.

Lilla var náttúruunnandi og mikið fyrir útiveru. Hún var með grænmetisgarð í Norðurgötunni, ræktaði rósir og fleiri tegundir af blómum og safnaði áhugaverðum steinum.

Hún naut þess að fara á skíði og vera í líkamsrækt meðan heilsan leyfði.

Lilla hafði einstaklega mikla samkennd og góða nærveru og leið okkur vel í návist hennar vegna þeirrar væntumþykju og kærleika sem hún sýndi okkur. Við sóttumst eftir að koma í Norðurgötuna til Lillu og Jonna og Þorláks bróður Lillu, við fundum hvað við vorum velkomnar og voru ófá skiptin sem við gistum þar hjá þeim og nú síðast í Vaðlatúni.

Samband Lillu og Jonna var einstakt, væntumþykja og virðing hvors í garð annars var augljós öllum sem þekktu þau. Sigurður og Þuríður voru augasteinar þeirra og var það þeim harmdauði þegar Þuríður lést af slysförum aðeins átján ára. Siggi og Annette kona hans eiga þrjá dætur, Þuríði Önnu, Líneyju og Jónínu, og naut amma þeirra þess að sýna okkur myndir og segja okkur frá þeim.

Með söknuði þökkum við elsku Lillu fyrir allar samverustundirnar.

Innilegar samúðarkveðjur til Jonna, Sigga, Annette, Líneyjar, Jónínu, Þuríðar Önnu, Alex, litlu nýfæddu tvíburanna, Láka og systranna.

Arnfríður, Erna

og Kristín Huld.

Nú hefur Lilla okkar kvatt þennan heim og eftir sitjum við með söknuð í hjarta. Til okkar streyma ótal minningar um konu sem var okkur öllum svo kær. Lilla sýndi okkur og börnum okkar einstaka vináttu og kærleika og alltaf var tekið á móti okkur af mikilli gestrisni hjá þeim Lillu og Jonna og ósjaldan leysti hún okkur út með sultukrukku. Hún tók á móti börnunum okkur með hlýju og áhuga og litu þau á hana eins og ömmu sína. Við heimsóttum Lillu, Jonna og Láka á hverju ári í skíðaferðum og sumarfríum bæði á Akureyri og í Mývatnssveit.

Lilla smitaði okkur af áhuga sínum á útivist og var ötul við að sýna okkur falda gimsteina í náttúrunni og segja sögur af mannlífinu. Hún hefur fylgt okkur um lífið í langan tíma og eftir situr þakklæti fyrir vinskap og ljúfar samverustundir.

Kristín Sif Árnadóttir,

Páll Sveinsson og börn.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég fór að venja komur mínar í Norðurgötu 50. Þar bjuggu Lilla og Jonni sem eru foreldrar leikfélaga og vina minna, Sigga og Dudíar, ásamt foreldrum Lillu, systrum hennar og bróður. Húsakynnin voru ekki stór en alltaf var ég velkomin og alltaf pláss fyrir einn í viðbót og einhvernveginn fannst mér ég verða hluti af fjölskyldunni og kallaði til að mynda foreldra Lillu aldrei neitt annað en afa og ömmu. Milli fjölskyldnanna í Norðurgötu og Ránargötu myndaðist vinátta og samgangur.

Á kveðjustund streyma minningarnar fram, sögurnar, glaðværðin, hláturinn og hvað það var gott að vera í hópnum.

Ég man sláturgerðina, laufabrauðsgerðina, berjatínsluna og kartöfluræktina í Aðalstrætinu. Það var alltaf einhver ævintýraljómi yfir þessum viðburðum, enda þurfti mikið af öllu fyrir svona stóra fjölskyldu. Ég man Mývatnssveitina, Skútustaði, Baldursheim og öll ævintýrin sem sveitin bauð upp á. Við leikfélagarnir brölluðum margt en aldrei skammaði Lilla okkur þó tilefnin hafi örugglega verið, hún ræddi málin og leiðbeindi, alltaf róleg en gat sett upp strangan svip og þá vissi maður að sennilega hefðum við alveg farið fram úr okkur. Ég man hvað Lilla sýndi mér mikla umhyggju, þolinmæði og umburðarlyndi.

Þannig var Lilla, róleg og með einstakt jafnaðargeð, talaði ekki hátt og það var fjarri henni að trana sér fram. Eftir því sem ég eltist og vitkaðist þróaðist samband okkar Lillu í vináttu, vináttu sem aldrei bar skugga á. Það var gott að leita til hennar, hún hlustaði, huggaði og leiðbeindi á sinn rólega og yfirvegaða hátt. Vegna búsetu minnar fjarri Akureyri hefur verið langt á milli okkar en við hringdumst reglulega á og símtölin oft löng. Hún sýndi mér og mínum einlægan áhuga, vildi vita hvernig allir hefðu það og flutti mér tíðindi af sínum.

Í gegnum tíðina hefur verið lærdómsríkt að horfa á samband Lillu og Jonna. Sú einlæga ást, virðing og vinátta sem ríkti á milli þeirra er til eftirbreytni. Það hefur aldrei verið hægt að tala um þau í eintölu, hún er Lilla hans Jonna, hann er Jonni hennar Lillu.

Mér fannst sárt að sjá hvað Parkinson-sjúkdómurinn tók alltaf meira og meira af Lillu og síðustu ár hafa verið henni erfið. Jonni hefur staðið eins og klettur við hlið hennar sem og fjölskyldan öll. Síðasta símtal okkar Lillu var á afmælisdaginn hennar í lok október.

Ég heyrði að mjög væri dregið af minni kæru vinkonu, hún spurði minna og sagði færra. Ég trúi því að nú sé Lilla í ljósinu og að hún og Dudí séu loksins saman á ný.

Elsku Jonni, Siggi, Láki og fjölskyldan öll, ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að eiga part í Lillu með ykkur.

Valgerður Anna

Vilhelmsdóttir.

Það sem við erum lánsöm að hafa haft elsku Lillu í lífi okkar. Lilla hefur alltaf verið „aukaamma“ okkar systkinanna. Hún hafði alltaf tíma fyrir okkur og var ávallt tilbúin til að veita okkur ást og hlýju.

Allar minningarnar sem við eigum um Lillu eru okkur dýrmætar. Hún náði einstaklega vel til Helgu því þolinmæðin og umburðarlyndið hennar Lillu áttu sérlega vel við skapið hennar. Það lýsir þolinmæði Lillu vel þegar Hildur var lítil að leika sér með hringana hennar Lillu og fór með þá á klósettið. Þar sem hringarnir voru ekki fyrir litla fingur duttu þeir í klósettið. Hildi leið eins og hringarnir væru ónýtir og Lilla myndi aldrei fá þá aftur en Lilla gerði nú ekki stórmál úr þessu og sótti einfaldlega hanska og náði í hringana.

Samverustundirnar í Garði þykir okkur mjög vænt um. Göngutúrar og hjólaferðir, svörtu pétrarnir sem við spiluðum og kaplarnir. Lilla var alltaf til í að gera eitthvað með okkur. Hún passaði upp á að okkur leiddist aldrei. Dagur Elís minnist þess þegar þau Lilla vöknuðu á undan öllum og áttu góðar samverustundir. Lilla þreyttist aldrei á að hlusta á hann lýsa fótboltaleikjum og þylja upp fótboltakappa þrátt fyrir að hafa lítinn áhuga á íþróttinni.

Hún var ætíð dugleg að hreyfa sig og Hildur gleymir því ekki þegar hún var lítil og spurði Lillu út í skokk. Lilla sagði þá við hana að þegar maður væri að skokka ætti maður að snýta sér út í loftið. Því gleymdi Hildur aldrei. Seinna hljóp Hildur hálft maraþon en það hlaup reyndist Hildi mjög erfitt en dugnaðurinn í Lillu var henni efst í huga allan tímann og kom henni í gegnum hlaupið. Helga minnist þess líka að þó hjólaferðirnar sem þær fóru í væru farnar að vera miklu erfiðari fyrir Lillu, hélt hún samt áfram og fann sér nýjar leiðir til þess, þrátt fyrir að „Parkinn“ væri ekki endilega á sama máli. Í Garði var hún oftast löngu vöknuð á undan öðrum, búin að fara út að hreyfa sig og stússast, þrátt fyrir „Parkann“, áður en aðrir skriðu á fætur.

Lilla var mjög flink í höndunum, gerði falleg útsaumsverk og töfraði fram ljúffengar kökur og fleira gotterí. Helgu þótti marmarakakan hennar Lillu alltaf best og þótti einstaklega vænt um að í lok síðasta sumars hafði hún bakað eina slíka handa henni í nesti upp í sveit. Einnig þykir Hildi vænt um stundina þegar hún útbjó kransaköku með Lillu, Jonna og ömmu Maddý.

Lilla var okkur mikil og góð fyrirmynd og hún tæklaði lífið á aðdáunarverðan hátt. Hjá henni ríkti svo mikil glaðværð og brosið hennar mun lifa með okkur ásamt öllum minningunum.

Við munum leitast við að koma fram við aðra eins og Lilla frænka gerði og gera okkar besta við að takast á við lífið á sama hátt og hún. Samband Lillu og Jonna var einstakt og svo fallegt að sjá hvað þau voru samstiga og stuðningsrík í sínu hjónabandi. Það er okkur mikil fyrirmynd og við munum hafa það að leiðarljósi í okkar samböndum.

Elsku Lilla, við erum óendanlega þakklát fyrir allar stundirnar með þér. Takk fyrir alla ástina, hlýjuna og hvatninguna. Þú ert og verður fyrirmyndin okkar. Þín,

Hildur Valdís Gísladóttir, Helga Margrét Gísladóttir og Dagur Elís Gíslason.