[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Samþykkt Orkustofnunar á kerfisáætlun Landsnets eyðir óvissu um framtíðarverkefni fyrirtækisins.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Samþykkt Orkustofnunar á kerfisáætlun Landsnets eyðir óvissu um framtíðarverkefni fyrirtækisins. Hún er mikilvæg fyrir Landsnet sem framkvæmdaraðila en ekki síður fyrir sveitarfélög og fyrirtæki sem nú vita hvenær von er á framkvæmdum til að auka afhendingaröryggi raforku eða tryggja næga orku til uppbyggingar atvinnulífs.

Orkustofnun þarf að veita leyfi fyrir öllum framkvæmdum Landsnets. Með samþykkt kerfisáætlunar fyrir tímabilið 2018 til 2027 er í raun veitt samþykki fyrir framkvæmdum fyrstu þrjú árin og sýn fyrirtækisins á uppbyggingu meginflutningskerfisins til lengri tíma.

Landsnet hefur lengi unnið að undirbúningi kerfisáætlunar. Hún hefur verið til umfjöllunar hjá Orkustofnun frá því í lok ágúst. Stofnunin gerði athugasemdir við framlagða áætlun en hefur nú staðfest uppfærða áætlun.

Veigamikið púsl

Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, segir að með staðfestri kerfisáætlun verði áætlanir fyrirtækisins um framkvæmdir næstu árin sýnilegri og skýrari. „Það þurfa mörg púsl að passa saman til þess að verkefnin gangi upp. Samþykki Orkustofnunar er veigamikið púsl, einn fjórði heildarinnar. Hin eru mat á umhverfisáhrifum, skipulag og framkvæmdaleyfi og samningar við landeigendur. Þar fyrir utan er vinna við fjármögnun framkvæmda og útboð.“

Stærsta verkefnið sem nú er á döfinni hjá Landsneti er Kröflulína 3 sem liggur frá Kröflu í Fljótsdal og tengir saman stór orkuöflunar- og notkunarsvæði á Norðausturlandi og Austurlandi. Þetta er mikil framkvæmd og mikilvæg enda verður hún fyrsta skrefið í að styrkja byggðalínuna. Áætlað var að hefja framkvæmdir á nýliðnu ári en þær frestast til þessa árs. Sverrir segir að undirbúningur sé á lokastigi. Von er á framkvæmdaleyfum frá sveitarfélögunum þremur á næstu vikum. Landsnet hefur auglýst útboð á vissum efniskaupum og verklegar framkvæmdir verða boðnar út þegar framkvæmdaleyfi fást. Vonast Sverrir til að hægt verði að hefja framkvæmdir með vorinu.

Unnið er að fjölmörgum smærri verkefnum. Sumum er að ljúka, eins og tengingu Grundarfjarðar og Ólafsvíkur, en önnur eru að hefjast á þessu ári.

Hólasandslína næst

Upphaf tveggja verkefna eru sett á áætlun á árinu 2019, Hólasandslína 3 sem er framhald af Kröflulínu 3 og tengir Norðausturland við Eyjafjörð, og Suðurnesjalína 2. Lyklafellslína sem leggja á ofan byggðar á höfuðborgarsvæðinu er síðan sett á áætlun 2020 en það verk frestaðist við það að úrskurðarnefnd felldi úr gildi framkvæmdaleyfi.

Mat á umhverfisáhrifum Hólasandslínu er langt komið. Suðurnesjalína kemur þar í kjölfarið en ákveðið var að hefja undirbúning frá grunni eftir að dómstólar ógiltu eignarnám og framkvæmdaleyfi.

Flöskuháls á Hellisheiði

Í langtímaáætlun kerfisáætlunar Landsnets er ekki tekið til umræðu hvort rétt sé að byggja á endurnýjuðum byggðalínuhring eða leggja línu yfir hálendið. Lögð er áhersla á stórverkefnin í tengingu svæðanna á Norður- og Austurlandi og í kringum höfuðborgarsvæðið. Lagning Blöndulínu 3 frá Blönduvirkjun til Akureyrar er ekki á þriggja ára framkvæmdaáætlun en ætlunin er að ljúka henni á tíu ára tímabilinu. Einnig er nefnt að fyrirsjáanlegt sé að auka þurfi flutningsgetu á milli höfuðborgarsvæðis og Vesturlands, annaðhvort með uppfærslu á Brennimelslínu 1 eða með byggingu nýrrar línu þar á milli. Það sama gildi um tengingu á milli Hellisheiðar og höfuðborgarsvæðis en kerfisrannsóknir sýni að þar muni fljótlega myndast flöskuháls í raforkuflutningi til höfuðborgarinnar.

Sverrir Jan bendir á að þótt ráðist verði í allar þessar stórframkvæmdir verði meginflutningskerfi landsins ekki heildstætt, heldur tvö kerfi, annað á Norður- og Austurlandi og hitt á Suður- og Suðvesturlandi, með veikri tengingu þar á milli með gömlu byggðalínunni. Það bíður seinni tíma að taka afstöðu til þess hvort haldið verður áfram við styrkingu byggðalínunnar eða „eyjarnar“ tengdar saman með hálendislínu.